Túfa leggur skóna á hilluna

Túfa á fullri ferð í KA-treyjunni í sex ár - samtals í 106 leikjum.
Túfa á fullri ferð í KA-treyjunni í sex ár - samtals í 106 leikjum.
Srdjan Tufegdzic, Túfa, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir sex farsæl ár í KA-treyjunni. Frá þessu var greint í lokahófi knattspyrnudeildar KA í gærkvöld.

Í hófinu flutti Óskar Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar, eftirfarandi á þessum tímamótum í ferli Túfa:

"Einn af okkar bestu spilurum í gegnum tíðina, Túfa, hefur nú ákveðið að leggja skóna á hina víðfrægu hillu.

Túfa kom fyrst til KA fyrir tímabilið 2006 og síðan hefur hann spilað 106 leiki fyrir félagið og skorað í þeim tvö mörk, annað þeirra í VISA-bikarnum árið 2006 og hitt í 1. deildinni sumarið 2010.

Í fyrra og í ár hafa þrálát meiðsli hrjáð Túfa sem hafa nú leitt til þess að hann setur skóna á þessa margfrægu hillu.

Túfa á að baki gríðarlega farsælan feril í KA. Hann hefur ekki alltaf verið áberandi inni á vellinum, en hann hefur verið þessi klettur og akkeri sem er hverju liði svo mikilvægur. Í hinni djúpu miðjumannsstöðu hefur Túfa séð um „skítverkin“, ef svo má segja, reddað því sem félagar hans hafa klúðrað.

Þrátt fyrir að vera af serbnesku bergi brotinn í húð og hár og því ekki fæddur með KA-blóð í æðum, er Túfa einn af mestu KA-mönnum á Akureyri og til marks um það hefur hann nú þegar lagt sitt að mörkum til þess að fjölga KA-mönnum í bænum, í það minnsta hefur félagsmönnum fjölgað nú á stuttum tíma um tvo fyrir hans tilstilli og eiginkonu hans.

Túfa er einn af okkar albestu yngriflokkaþjálfurum og hefur hann náð flottum árangri með bæði stráka og stelpur. Lengi vel var ekki til í hans alfræðiorðabók að þjálfa stelpur, en loksins þegar hann fékkst til þess er ekki aftur snúið og nú elskar hann að þjálfa stelpur og hefur nú tvö ár í röð ásamt Agli Ármanni Kristinssyni  komið KA-stelpum í úrslitaleik í Íslandsmóti. Dollan hefur að vísu ekki ennþá náðst í hús, en það kemur að því. Nýverið lauk Túfa við UEFA-A próf í þjálfun og því er hann gjaldgengur til þess að þjálfa öll lið á Íslandi, ef svo ber undir, en hann verður, þrátt fyrir að leggja fótboltaskóna sína á hillun, í okkar herbúðum, enda sannur KA-maður."