U-17 landslið karla mætir sterkum þjóðum í lokakeppni Evrópumótsins

Í dag var dregið í riðla í lokakeppni Evrópumóts U-17 landsliða pilta, sem fram fer í Slóveníu dagana 4.-16. maí nk. Íslenska liðið er í A-riðli ásamt Frökkum, Þjóðverjum og Georgíumönnum. Tveir KA-menn, Fannar Hafsteinsson, markvörður og kantmaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson, voru í U-17-landsliðinu, sem tryggði sér farseðilinn í lokakeppnina.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að allir þessir andstæðingar íslenska liðsins eru gríðarlega sterkir, enda ekki skrýtið því hér etja kappi átta bestu landslið Evrópu í þessum aldursflokki. Frakkar eru af mörgum taldir með besta lið álfunnar sem stendur í þessum aldursfloki, ekki þarf að fjölyrða um styrk Þjóðverja og Georgíumenn gerðu sér lítið fyrir og slógu út sterkar þjóðir.

Í B-riðli eru Hollendingar, Slóvenar, Pólverjar og Belgar.

Fyrsti leikur Íslands í lokakeppninni verður gegn Frökkum. Allir leikir íslenska liðsins verða spilaðir í höfuðborg Slóveníu, Ljubliana.