Landslið Íslands i karlaflokki í knattspyrnu undir 17 ára gerði sér lítið fyrir í dag og sigraði Ísraelsmenn í lokaleik síns riðils í undankeppni Evrópumóts landsliða í Ísrael og þar með sigruðu Íslendingar riðilinn og tryggðu sér farseðilinn í milliriðla keppninnar. KA-maðurinn Fannar Hafsteinsson stóð á milli stanganna í marki Íslands í öllum þremur leikjunum og stóð sannarlega fyrir sínu.
Mótið hófst ekki vel hjá Íslendingum því Svisslendingar skelltu þeim í fyrsta leik með fimm mörkum gegn einu. Strákarnir réttu síðan úr kútnum í öðrum leiknum og sigruðu Grikki með einu marki gegn engu. Staðan í riðlinum var þannig að ekkert nema sigur kom til greina í dag til þess að sigra riðilinn og það tókst strákunum með glæsibrag. Stefán Þór Pálsson tryggði sigurinn með marki þremur mínútum fyrir leikslok og fögnuður landsliðsstrákanna var að vonum mikill.
Tveir KA-menn eru í þessum magnaða landsliðshópi - Fannar Hafsteinsson markvörður og kantmaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson. Fannar var í B-liði Íslands á Norðurlandamótinu sl. sumar, en vann sig með frábærri frammistöðu upp í aðalliðið og tók byrjunarliðssætið í undankeppninni í Ísrael. Hreint frábært hjá okkar manni! Ævar Ingi kom af bekknum inn í leiknum við Svisslendinga en vermdi varamannabekkinn í leikjunum við Grikki og Ísraelsmenn og kom ekki við sögu.