Það var vel mætt í svifrykstank Akureyrar eða Bogann eins og sumir kalla hann í kvöld þegar KA tók á móti Grindavík í 32ja liða úrslitum Valitor-bikarsins. Eins og flestum er kunnugt spila Grindavíkingar í úrvalsdeild og þóttu sigurstranglegir þrátt fyrir að KA hafi sýnt að það búi margt og mikið gott í þessu liði.
Fyrstu mínútur leiksins voru Grindvíkingarnir ákveðnari og virtust okkar menn frekar stressaðir. Fyrrverandi KA-maðurinn Jóhann Helgason, oft kenndur við Sílastaði, átti flottan bolta inn fyrir vörnina á 6. mínútu en Sandor kom í veg fyrir mark. Á 15. mínútu komust svo Grindvíkingar yfir. Eftir eins undirbúning og í dauðafærinu nokkrum mínútum áður skoraði framherji Grindavíkur og kom þeim í 1-0. Við það rönkuðu KA- menn aðeins við sér og fóru að spila boltanum eins og þeir gera best, niðri á jörðinni með smá brasilískum sambatöktum. Ef leikurinn hefði verið spilaður úti við íslenskar aðstæður væri ég núna með bros á vör að skrifa um sigur hjá KA, því Grindavík hefði ekki fengið eitt einasta færi ef úti hefði verið spilað því þeir beittu aðeins háloftaboltum og vindurinn hefði feykt þessu öllu saman útaf vellinum. Grindvíkingar nýttu sér hins vegar vel að vera inni í 0 metrum á sekúndu og því óþarfi að láta í ljós einhverja draumóra, biðst velvirðingar á því.
En á 25. mínútu vildu KA-menn fá víti. KA fékk hornspyrnu og flottur bolti kom frá Hallgrími inn á teig og Dan Howell mundaði pönnuna og skallaði boltann. Í því hljóp Óskar Pétursson, markvörður Grindavíkur, út úr markinu og þeir sem hafa séð myndina "300" geta ímyndað sér þetta sem "slow motion" atriði með öskri og öllu því það vantaði ekkert upp á öskrið hjá drengnum sem minnti einna helst á rússajeppa á yfirsnúningi. En sem sagt Óskar hoppar allt of seint upp með hnefann einan að vopni og tekur Dan niður með hægri krók, Mike Tyson hefði orðið heimsmeistari með svona krók og Dan steinlá en Jan Eric dómari leiksins harðneitaði að dæma vítaspyrnu og má segja að Óskar Tyson markvörður Grindavíkur hafi sloppið með skrekkinn.
KA hélt áfram að vera með boltann en án þess þó að skapa einhver færi og virtist vanta smá einbeitingu til að skapa eitt slíkt og jafna.
Í hálfleik gerði Gunnlaugur tvær breytingar og setti Andrés Vilhjálmsson og Davíð Rúnar inn á og tók Sigurjón Fannar af velli ásamt Ómari Friðrikssyni.
Þær breytingar virkuðu ágætlega og í seinni hálfleik byrjuðu KA-menn ágætlega pressu hátt og Grindvíkingar spörkuðu löngum boltum fram. Eftir einn slíkan bolta kom annað mark þeirra, langur bolti upp hægri kanntinn og að því virtist engin hætta því u.þ.b. 30 metrar voru í næsta mann Grindavíkur sem þó hljóp á eftir Jóni Heiðari eins og Bolabítur með kláðamaur og að lokum náði hann Jón, hirti af honum boltann og senti fastan bolta fyrir með jörðinni þar sem framherji Grindavíkur var mættur og kláraði auðveldlega í nær hornið, 2-0 og róðurinn þungur fyrir KA.
Eftir þetta mark sóttu KA-menn stíft og það bar loks árangur á 76 mínútu þegar Davíð Rúnar átti lúmskan bolta fyrir á Hallgrím Mar sem lyfti boltanum upp og hamraði boltann upp í "samúel" af einkar stuttu færi og ég er viss um að Óskar Tyson hafi aldrei séð boltann. Við þetta kom smá aukakraftur í KA-menn og reyndu þeir allt sem þeir gátu til að jafna, áttu nokkur skot utan teigs sem öll misstu marks þó og nokkrar fyrirgjafir sem varnarmenn Grindavíkur tóku og þar við sat 1-2 tap staðreynd, en samt sem áður margt jákvætt hægt að taka úr þessum leik og Gunnlaugur Jónsson var alls ekki ósattur við frammistöðu drengjana.
Myndir sem heiðursmennirnir Þórir Tryggva og Sævar Geir Sigurjónsson tóku er hægt að sjá hér
Viðtöl við Hafþór Þrastarson, Gunnlaug Jónsson og Ólaf Örn Bjarnason má sjá að neðan.