Það var óvenju vel mætt á KA-völlinn í kvöld þrátt fyrir að rigningarlegt væri um að litast. Leikurinn var sannkallaður sex stiga leikur og stóð alveg undir væntingum hvað það varðar. Bæði lið áttu góðar rispur í leiknum og var það Sandor Matus markvörður KA sem stal senunni í lok leiks.
Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 4. mínútu missti Arnór Egill Hallsson, leikmaður KA, boltann klaufalega á miðjunni og HK-ingar geystust í sókn. Endaði hún með hnitmiðari sendingu inn fyrir á Eyþór Helga Birgisson sem laumaði boltanum framhjá Sandor í marki KA. Markið virkaði sem rothögg á KA-menn og var ekki sjón að sjá þá það sem eftir lifði hálfleiksins.
KA menn stilltu upp nýjum manni, Brian Gilmour, skoskum miðjumanni sem kom til KA í vikunni. Sá piltur bar uppi spil KA-manna í leiknum og verður virkilega gaman að sjá hvernig hann kemur til með að standa sig í næstu leikjum.
Fátt gerðist í fyrri hálfleik eftir mark HK. Hallgrímur Mar og Ómar Friðriksson áttu báðir ágætis tilraunir að marki HK en aldrei var hætta á ferðum.
HK-ingar vildu þó fá vítaspyrnu seint í hálfleiknum eftir að Sandor virtist sópa löppunum undan sóknarmanni HK en dómari leiksins aðhafðist ekkert.
Það var allt annað KA-lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik og baráttan var í fyrirrúmi. Sóknirnar buldu á HK-ingum og strax á 50.mínútu átti Hallgrímur Mar flotta fyrirgjöf á fjær þar sem Elvar Páll skallaði boltann yfir allan vítateiginn og þar kom Davíð Rúnar Bjarnason askvaðandi og mokaði boltanum yfir línuna og KA-menn búnir að jafna. Strax eftir markið kom Daniel Howell inn á sem varamaður og átti heldur betur eftir að koma við sögu.
Nokkrum mínútum eftir að Dan kom inn á átti hann góðan sprett á kantinum og inn á vítateig þar sem honum var hrint niður og klárt víti, en hvorki dómari né aðstoðardómari létu málið sig varða og leikurinn hélt áfram. Erfitt virðist vera fyrir KA-menn að fá víti í leik þrátt fyrir að hafa átt að fá þau nokkur. KA hefur einungis fengið þrjú víti í u.þ.b. 50 leikjum, en á móti hefur liðið fengið á sig aragrúa af vítum. Skemmtilegt að glugga í smá tölfræði, en öllum var sama um það á þessum tímapunkti og leikurinn hélt áfram.
KA-menn voru mun beittari og voru óheppnir að komast ekki yfir nokkrum sinnum en vörn HK-inga var aldrei þessu vant mjög sterk.
Það voru hins vegar HK-ingar sem voru minna en hársbreidd frá því að skora. Eftir sendingu fyrir frá HK, tók Stefán Eggertsson boltann viðstöðulaust og stefndi hann í nærhornið þegar hinn ungverski Jackie Chan í marki KA stökk til og tæklaði boltann í horn. Hann hafði þó ekki lokið sínu dagsverki. Nokkrum andartökum síðar áttu HK-ingar fast skot í slána og datt boltinn fyrir framan Stefán sem stóð á markteig einn fyrir framan markið en á ótrúlegan hátt náði Sandor að verja frá honum. Spurning hvort framleiðendur Rush Hour hugsi sig ekki tvisvar um áður en hinn kínverski Jackie verður ráðinn til starfa á nýjan leik!
Þegar HK-ingar virtust ætla að moka inn sigurmarki dró til tíðinda. Orri Gústafsson, sem var nýkominn inn á sem varamaður, geystist upp kantinn á 88. mínútu og þegar komið var að vítateignum tók hann einn varnarmann á og stakk boltanum inn á Dan Howell sem “chippaði” yfir markmann HK-inga og allt ætlaði um koll að keyra.
HK-ingar náðu ekki að jafna leikinn og því fóru heimamenn með sigur af hólmi í gríðarlega mikilvægum leik. Sigur KA heldur liðinu enn í 10. sæti en nú er það jafnt Gróttu að stigum - bæði lið eru með 14 stig en markatala Gróttu er betri - og aðeins tveimur stigum frá 7. sæti. HK-ingar eru hins vegar sem fyrr í erfiðum málum á botni deildarinnar með 5 stig.