Umfjöllun: ÍR 3 - 2 KA

Guðmundur Óli í baráttunni við Nigel Quashie Mynd:Fótbolti.net
Guðmundur Óli í baráttunni við Nigel Quashie Mynd:Fótbolti.net
Eftir margra mánaða æfingar og eitt lengsta undirbúningstímabil í heiminum er ávallt gríðarleg spenna fyrir að byrja fyrsta leikinn á tímabilinu. Annað árið í röð hefur KA deildina í Breiðholtinu en nú var það á ÍR-vellinum og að venju voru þar álíka margir KA-menn og ÍR-ingar.

Aðstæður voru góðar þrátt fyrir rigningu á köflum og komu KA-menn einbeittir til leiks og strax eftir tíu mínútur var Elmar Dan búinn að fá tvö dauðafæri sem hann náði því miður ekki að klára.

Okkar menn voru sterkari aðilinn megnið af fyrri hálfleiknum og á 38. mínútu kom fyrsta mark sumarsins hjá KA. Eftir hornspyrnu vinstra megin barst boltinn rétt út fyrir teiginn á Guðmund Óla Steingrímsson sem þrumaði knettinum rakleiðis upp í þaknetið.

KA-menn leiddu því verðskuldað þegar flautað var til hálfleiks en helsta ógn ÍR-inga voru skyndisóknir upp hægri vænginn sem Darren Lough og Gunnar Valur náðu þó oftast að brjóta upp áður en þeir komust nálægt markinu.

Í síðari hálfleik var hins vegar ekki sama ákefð í leik KA liðsins. ÍR-ingarnir voru meira með boltann enda fengu þeir nægan tíma hvar sem var á vellinum og það voru ekki nema tvær mínútur liðnar af hálfleiknum þegar
stórt gat opnaðist í KA vörninni og Jón Gísli Ström nýtti sér það og fékk stungusendingu inn fyrir sem hann kláraði svo af öryggi fram hjá Sandor í markinu.

Maður vonaðist til þess að þetta jöfnunarmark myndi kveikja á KA-mönnum en því miður gerðist það ekki. ÍR skoruðu aftur á 65. mínútu þegar Nigel Quashie fékk mikinn tíma til að athafna sig rétt fyrir utan teig og skaut svo skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni og breytti um stefnu og rúllaði svo í hornið.

Við þetta kviknaði aðeins í okkar mönnum sem áttu nokkrar álitlegar sóknir og frískaði Gulli upp á liðið með tveimur skiptingum. Gunnar Örvar kom inn fyrir Elmar Dan og Bjarki Baldvinsson skipti við Hallgrím á kantinum. Það
skilaði sér í vítaspyrnu sem Jóhann Helgason sótti eftir háan bolta frá Gunnari Val. Jói tók spyrnuna sjálfur og skoraði af öryggi. 2-2 og sú hugsun læddist að manni að KA gæti stolið sigrinum í lokin þrátt fyrir afar dapran síðari hálfleik. Það gerðist allskostar ekki þar sem Elvar Páll Sigurðsson sem lék með KA á síðasta tímabili skoraði sigurmarkið á 90.mínútu.

ÍR-ingar tóku innkast við miðjulínuna, sem þeir fengu eftir dapurt útspark, Elvar fékk boltann og fékk sinn tíma til að leika á nóg af leikmönnum KA og síðan skjóta lausum bolta yfir Sandor í markinu.

3-2 tap því niðurstaðan og klárlega ekki sú byrjun sem KA-menn höfðu óskað sér á tímabilinu. Eftir ágætan fyrri hálfleik þar sem liðið hefði getað verið með meiri forystu en þetta eina mark vonaðist maður til þess að strákarnir myndu klára seinni hálfleikinn með stæl og taka þrjú stig með í rútuna heim. Það gerðist hins vegar alls ekki og sigur ÍR sanngjarn.

Næst á dagskrá er annað ferðalag í Breiðholtið næstkomandi laugardag þar sem
lærisveinar Willums Þórs í Leikni verða vonandi lagðir að velli.

-Andri Fannar Stefánsson