Umfjöllun: ÍR - KA

Umfjöllun um leik KA og ÍR sem fram fór á ÍR-velli í Breiðholtinu.

Í stúkunni voru stuðningsmenn KA í mikilli yfirtölu og var afar gaman að sjá það en fjórði flokkur karla er í keppnisferð í borginni og mættu strákanir að sjálfsögðu á leikinn til að styðja sína menn.

Liðið var örlítið breytt frá því í síðasta leik gegn Leikni, m.a. vegna þess að Hafþór var í banni en inn í liðið komu Arnór Egill upp á topp, Túfa á miðjuna, Sigurjón Fannar í vinstri bakvörðinn og Ómar á hægri kantinn auk þess sem Boris færði sig í stöðuna hans Hafþórs við hlið Elmars. Howell, Jón Heiðar og Davíð Rúnar voru settir á bekkinn.

ÍR 1 - 1 KA
1-0 Haukur Ólafsson (Víti) (16)
1-1 Ómar Friðriksson (45)

Sandor

Haukur He - Elmar - Boris - Sigurjón
Ómar - Túfa - Þórður - Hallgrímur
Elvar Páll
Arnór Egill



Varamenn: Ólafur Jóhann Magnússon(M), Jón Heiðar Magnússon(Sigurjón Fannar, 20. mín), Davíð Rúnar Bjarnason(Túfa, 62. mín), Steinn Gunnarsson, Dan Howell, Ævar Ingi Jóhannesson(Ómar, 75. mín), Jakob Hafsteinsson.

Allar aðstæður á ÍR-vellinum til að spila fótbolta voru fyrsta flokks, stillt og hlýtt veður og völlurinn virtist í fínu standi en hann hefur ekki verið gjöfull fyrir KA-menn síðustu ár. Síðan ÍR komst aftur upp í 1. deild haustið 2008 hefur KA ekki sótt eitt einasta stig á þennan völl - breyting varð þar á í kvöld, eitt stig í rútuna og það hefði heldur ekki verið ósanngjarnt ef þau hefðu verið þrjú.

En að leiknum sjálfum og þar áttu KA-menn fyrstu marktilraunina þegar Elvar Páll sótti á vörnina, renndi boltanum út á Arnór sem dróg sig út og krossaði á Elvar sjálfan sem reyndi að taka fyrirgjöfina í fyrsta en boltinn fór yfir markið, reyndar hafði hann viðkomu í varnarmanni en hornspyrnan sem liðið uppskar var ekki vel útfærð.

Eftir fínar upphafsmínútur hjá KA fóru ÍR-ingar að vinna sig betur inn í leikinn og voru fljótlega orðnir sterkari aðilinn á vellinum. Fyrst komst Sindri Snær Magnússon í skotfæri eftir að hafa platað Elmar Dan og síðan komst Jón Gísli Ström bakvið Sigurjón og var einn gegn Sandori sem náði að breyta stefnu skotsins frá Jóni Gísla sem hafnaði í innanverðri markstönginni.

Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu og var það sanngjarnt á þeim tímapunkti miðað við gang leiksins en það kom fyrirgjöf frá hægri sem endaði með dauðum bolta í teignum og í þann mund sem sóknarmaður ÍR mundaði á sér skotfótinn kom Elmar Dan með laglega skriðtæklingu og potaði boltanum í burtu áður en skotið reið af. Dómari leiksins taldi sem svo að Elmar hefði ekki náð til boltans en frá mínu sjónarhorni virtist þetta aldrei vera neitt annað en frábær varnarvinna. Haukur Ólafsson skoraði úr vítaspyrnunni.

Fljótlega fóru KA-menn að loka betur á miðjuspil ÍR-inga og þ.a.l. ná betri tökum á leiknum og nokkrum fínum sóknum. Það leit út fyrir að heimamenn færu með forystu inn í leikhléið en á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks skoruðu KA gott jöfnunarmark.

Arnór Egill fékk boltann framarlega á vellinum, setti Ómar í gegn á hægri kantinum og Ómar gerði allt rétt. Lítil gabbhreyfing sem tók varnarmann ÍR úr leik og svo pollróleg afgreiðsla með tánni fram hjá Róberti Erni Óskarssyni í marki ÍR og strákarnir gengu með ágætis stöðu inn í búningsklefa. Eftir flottan kafla síðustu fimmtán mínúturnar í hálfleiknum og svo jöfnunarmark lofaði seinni hálfleikurinn góðu.

ÍR-ingar komu þó sterkir inn í seinni hálfleikinn og fengu dauðafæri eftir fyrirgjöf frá hægri þar sem Haukur Ólafsson misreiknaði boltann algjörlega einn gegn Sandor. Í næstu sókn ÍR-inga vildu þeir síðan fá víti og rautt spjald en títtnefndur Haukur var að gera sig líklegan til að skjóta af stuttu færi en hann hafði sloppið nánast einn í gegn eftir misskilning hjá Elmari og Boris. Haukur lenti í tæklingu og náði ekki skoti og þarna voru ÍR-ingar ekki sáttir við dómarann. Þarna hefðu þeir með réttu átt að fá víti annað en á 16. mínútu. Mögulega spilaði það ódýra víti sem þeir fengu þá inn í reikninginn og svo sú staðreynd að dómarinn gerði ekkert þegar Arnór Egill virtist vera togaður niður innan teigs í lok fyrri hálfleiks.

Líkt og í fyrri hálfleik fóru KA í gang þegar leið á og var algjörlega greinilegt hvort liðið vildi fá þrjú stig. KA settu kraft í sóknina, Davíð Rúnar kom inn fyrir Túfa og Ævar Ingi fyrir Ómar.

Bestu færin komu alveg í blálokin en þá björguðu ÍR oftar en einu sinni á marklínu, einu sinni eftir skemmtilega tilraun frá Elmari Dan sem brá sér í sóknina og sýndi gamalkunn tilþrif í teignum eftir horn. Hallgrímur fékk nokkur ákjósanleg tækifæri þegar hann kom inn af vinstri kantinum en vantaði alltaf örlítið til að komast í gott skotfæri. Davíð Rúnar átti hörkuskalla sem fór naumlega fram hjá eftir horn, ótal fyrirgjafir bæði frá hægri og vinstri en það þurfti bara eitt gott skot.

Þetta góða skot hélt ég að væri að koma á 88. mínútu þegar Elvar Páll lék laglega á tvo varnarmenn ÍR fyrir framan teiginn og kom sér í flott skotfæri. Skotið frá Elvari var bylmingsfast en því miður beint á markið svo markvörðurinn var ekki í miklum erfiðleikum með að koma því frá.

1-1 var því lokaniðurstaðan í baráttuleik á ÍR-velli. Bæði lið gengu súr í bragði af velli, ÍR-ingarnir vildu fá víti og rautt en KA-menn börðust vel og sýndu mikinn vilja til að ná sigrinum og eru ósáttir við að fara bara með eitt stig af velli. Sigurmark í lokin hjá KA hefði engan veginn verið ósanngjarnt, liðið var sterkara þegar á heildina er litið og vantaði ekki mikið upp á að ná öðru markinu.

Stigið telur þó og gott að binda enda á taphrinuna en næsti leikur er gegn HK á þriðjudagskvöldið á Akureyrarvelli. Það verður hörkuleikur og afar mikilvægt að sýna liðinu jákvæðan stuðning í þeim leik en HK hafa ekki enn unnið leik í sumar og mikilvægt að ná þremur stigum til að geta komist upp örlítið upp frá fallsætunum í bili.