Umfjöllun: KA - Draupnir (Með myndum)

Orri Gústafs í baráttunni við Aðalbjörn Hannesson.
Orri Gústafs í baráttunni við Aðalbjörn Hannesson.

Í gærkvöldi áttust við KA og Draupnir í Boganum. Fyrirfram var spáð KA nokkuð auðveldum sigri. Draupnir leikur í þriðju deildinni en eins og flestir ættu að vita leikur KA í þeirri fyrstu. Leikurinn var nokkuð tíðindalítill og ekki mikið fyrir augað.



KA 2 – 0 Draupnir
1-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson (53)
2-0 Haukur Heiðar Hauksson (86)

Sandor (F)

Haukur He. - Janez - Haukur Hi. - Sigurjón F.
Stubbs - Steinn G. - Guðmundur Ó. - Hallgrímur
Andri Fannar
David Disztl



Varamenn: Jón Heiðar Magnússon, Davíð Rúnar Bjarnason (Steinn), Orri Gústafsson (David Disztl), Magnús Blöndal (Hallgrímur Mar), Arnór Egill Hallsson.

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrsla


Mikið var um færi hjá KA mönnum í fyrri hálfleik en þeir náðu ekki að skapa sér neitt almennilegt. Ekki var mikið búið að fyrri hálfleik þegar skalli Hauks Heiðars eftir hornspyrnu frá Andra fór rétt framhjá.

KA voru að spila boltanum vel í leiknum og héldu honum vel innan liðsins. Flott sókn kom eftir stundarfjórðung og Stubbs átti fína sendingu á David sem komst í gott færi en var rangstæður.
Stuttu síðar átti Steinn Gunnarsson skot sem fór rétt yfir mark Draupnismanna.

Dan Stubbs átti mjög góðan leik á hægri kantinum hjá KA og var alltaf hættulegur. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður fékk hann sendingu út á kantinn og tók hann glæsilega með sér til hliðar, framhjá varnarmanninum og á góða sendingu inn í teiginn á Hallgrím en skot hans ratar ekki í markið.

Fyrsta skot Draupnismanna að marki kom stuttu seinna. Þá fengu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan teig KA-manna en skot Jóns Stefáns fór yfir markið. Fín tilraun samt sem áður.

KA menn fóru strax í sókn og fengu tvö horn með stuttu millibili. Fyrst skallar David Disztl boltann framhjá eftir sendingu frá Andra en í seinna skiptið skallar Haukur Heiðar boltann í slánna.
Ekkert gerðist fleira markvert í fyrri hálfleik, staðan enn 0-0 og ekkert virtist ganga upp fyrir framan markið.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega en á 53. mínútu fær Hallgrímur boltann og sendir fyrir en  Draupnismenn skalla boltann aftur fyrir endalínu. Hornspyrna sem KA-menn eiga. Andri og Guðmundur taka hana stutt og svo kemur sendingin fyrir og boltinn berst út á Hallgrím sem afgreiðir boltann í netið með flottu skoti. Loksins kom markið sem KA-menn hfðu beðið eftir, 1-0.


Stuttu síðar kom Orri Gústafsson inn fyrir David Disztl. Ungverjinn náði sér ekki á strik í leiknum og vonandi að hann fari að skora og koma sér í betra form því mikilvægt er að hafa hann í góðu ástandi í sumar.

Orri kom ferskur inn og átti nokkur ágæt færi. Hallgrímur átti fínt skot rétt eftir innkomu Orra og Ársæll ver boltann út á Orra sem fylgir en nær ekki að skora. Línuvörðurinn flaggar og rangstæða réttilega dæmd.

Þegar um 20 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik átti Dan Stubbs fínan sprett sem endaði með skoti en Ársæll ver rétt yfir. Ekkert varð úr hornspyrnunni en stuttu síðar átti Steinn Gunnars hættulegt skot sem fór rétt framhjá marki Draupnismanna.

Draupnismenn fóru þá í sókn og Ingi Þór Stefánsson fékk boltann inn fyrir vörn KA-manna en Sandor nær boltanum og Ingi fellur. Draupnismenn vilja meina að um brot sé að ræða en svo er ekki.

Tæpur hálftími var liðinn af seinni hálfleik þegar Hallgrímur fékk gott marktækifæri. Haukur Heiðar og Stubbs áttu þá fínt spil sem endaði með sendingu fyrir en Hallgrímur fór illa af ráði sínu og klúðraði góðu færi. Skotið beint á Ársæl. Mínútu seinna fékk Orri sendingu inn fyrir vörnina en skaut í stöng í þröngu færi.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir fengu Draupnismenn sitt hættulegasta færi. Þá kom sending frá Gunnari Þóri inn í teig KA-manna og boltinn barst á sóknarmann Draupnis sem skaut í varnarmann og aftur fyrir. Hornspyrnan var hættuleg og endaði á Inga Þór sem fór illa af ráði sínu og hitti boltann illa og rann boltinn útaf.

Á 77. mínútu fór markaskorarinn Hallgrímur útaf og inn á kom Magnús Blöndal sem kom í vetur aftur til KA eftir stutta dvöl hjá KS/Leiftri.  Stuttu eftir það átti Andri sendingu fyrir. Stubbs tekur boltann niður og leggur hann fyrir Hauk sem skýtur framhjá úr dauðafæri. Hann var þó dæmdur rangstæður.

Fimm mínútum seinna fékk Orri boltann frá miðjunni og stakk honum inn á Stubbs sem klúðraði mjög góðu færi. Fínt tækifæri fyrir Englendinginn til að skora sitt fyrsta mark fyrir KA en svo fór ekki. Stuttu síðar vann Orri boltann af varnarmanni en átti slæmt skot beint á Ársæl.

Á 86. mínútu dró heldur betur til tíðinda. KA-menn áttu fína sókn sem endaði á því að Haukur Heiðar fékk flotta sendingu inn fyrir vörn Draupnis frá Stubbs og kláraði vel framhjá Ársæl í markinu, flott spil og staðan orðin 2-0.

Ekki gerðist mikið markvert það sem eftir lifði leiks utan við skot frá Andra Fannari sem rataði framhjá. Á 89. mínútu kom síðan Davíð Rúnar inn fyrir Stein.

Verðskuldaður 2-0 sigur KA staðreynd í frekar bragðdaufum leik. Ljóst er að KA þurfa að gera mun betur ætli þeir sér sigur í næsta leik sem er einmitt gegn ÍR í Breiðholti þann 22. maí. 

Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndari síðunnar var að sjálfsögðu mættur á völlinn og hér eru nokkrar myndir frá honum. Sjá myndaveislu úr leiknum.