Umfjöllun: KA - Selfoss

Akraneshöllin í dag þegar leikmenn voru að gera sig klára í kuldanum.
Akraneshöllin í dag þegar leikmenn voru að gera sig klára í kuldanum.
Það var eins stigs hiti í Akraneshöllinni í dag þegar KA-menn mættu Selfyssingum og stuðningsmenn KA í töluverðum meirihluta í stúkunni þar sem 4. flokkur kvenna hjá KA átti leik í höllinni síðar um daginn og mættu stelpurnar á völlinn til að styðja sína menn. Samkvæmt leikskýrslu var reyndar 51 áhorfandi í húsinu en til að ná þeirri tölu þyrfti líklega að telja með varamenn, þjálfara, liðsstjóra og sjúkraþjálfara beggja liða. Hugsanlega dómaratríóið líka.


KA 1 - 1 Selfoss
1-0 Andrés Vilhjálmsson (32)
1-1 Viðar Örn Kjartansson (Víti) (55)



Sandor

Jakob - Hafþór - Sissi - Jón H
Andrés - Ómar - Davíð R - Hallgrímur
Elvar Páll
Ágúst Örn


Varamenn: Guðmundur Óli(Ómar, 59. mín), Haukur Hinriks(Sissi, 61. mín), Dan Howell(Ágúst Örn, 77. mín), Ívar Guðlaugur, Steinn Gunnarsson, Magnús Blöndal.

Gulli gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Jakob kom inn fyrir Hauk Heiðar sem var veikur, Ómar kom inn fyrir Guðmund Óla og Sigurjón Fannar var í vörninni í stað Hauks Hinrikssonar.

Á bekknum sat Daniel Howell sem er á reynslu hjá KA og átti hann eftir að koma inn á síðar í leiknum.

KA-menn hófu leikinn af krafti og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Strax á þriðju mínútu gerði Andrés vel og lagði boltann á Hallgrím en skot hans úr teignum var vel varið.

Þeir gulklæddu héldu uppteknum hætti og Elvar Páll fékk sendingu inn fyrir en skot hans flaug framhjá samskeytunum, mögulega hefði hann átt að fara nær þar sem hann hafði meiri tíma en hann e.t.v. gerði sér grein fyrir.

Áfram sóttu KA og m.a. átti Hallgrímur ágætt skotfæri ásamt aukaspyrnu á fínum stað sem fór yfir og Ágúst átti þrumuskot sem hefði hafnað í netinu ef Ómar hefði ekki verið í skotlínunni. Á 31. mínútu átti Davíð Rúnar góða sendingu fram völlinn á Andrés sem skaut úr þröngu færi í teignum og var skot hans varið í horn.
Andrés
Hallgrímur tók hornið og náði Andrés skalla á markið og björguðu Selfyssingar á línu og eftir mikinn darraðardans fór boltinn aftur í horn. Húsvíkingurinn tók aðra spyrnu og þar mætti Andrés aftur og nú réðu lærisveinar Loga Ólafssonar ekki við skallann sem hafnaði í netinu og KA-menn komnir með verðskuldaða forystu.

Þar við sat og staðan 1-0 í hálfleik og KA búnir að spila prýðilega. Andrés og Hallgrímur komust hvað eftir annað framhjá bakvörðunum, Ágúst var sprækur í framlínunni og miðja og vörn var samstíga þar sem Hafþór stjórnaði með Sissa sér við hlið.

Strákarnir náðu ekki að fylgja eftir þessum góða hálfleik þegar flautað var til þess seinni en Selfyssingar mættu töluvert sterkari til leiks og náðu yfirhöndinni. 

Eftir tíu mínútur af hálfleiknum barst boltinn inn í teig á Viðar Örn Kjartansson framherja Selfyssinga sem var í góðu færi og Jón Heiðar reyndi að stöðva hann en braut á Viðari í leiðinni og Halldór Breiðfjörð, góður dómari leiksins, dæmdi víti. Viðar tók spyrnuna sjálfur og skoraði þrátt fyrir að Sandor hefði farið í rétt horn.

Fáeinum mínútum síðar kom Guðmundur Óli inn fyrir Ómar Friðriks á miðjuna og á 61. mínútu kom Haukur Hinriks í vörnina fyrir Sigurjón Fannar sem meiddist eftir að hafa staðið sig vel í vörninni með Hafþóri.

Selfyssingar héldu áfram að sækja en besta færið fengu þeir samt á silfurfati þegar Haukur Hinriks tók sér of mikinn tíma á boltanum sem aftasti varnarmaður og Viðar Örn hirti hann af honum, var einn á móti Sandor en skot hans fór í innanverða stöngina.

Við þetta vöknuðu KA-menn, Gulli öskraði sína menn í gang og leikurinn jafnaðist út. Elvar Páll gerði vel fyrir utan vítateig Selfyssinga, var felldur og aukaspyrna dæmd. Ágúst Örn tók spyrnuna og skaut hátt yfir á afar ákjósanlegum stað.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka kom Bandaríkjamaðurinn Howell síðan inn og fór upp á topp fyrir Ágúst sem hafði látið varnarmenn andstæðinganna hafa fyrir hlutunum með miklum dugnaði.

Howell var ekki lengi að láta til sín taka en hann tók fyrirgjöf frá Hallgrími viðstöðulaust á lofti en skotið fór rétt framhjá. Skömmu seinna komst Andrés svo í fínt færi eftir góða sókn en hann skaut einnig rétt framhjá.

Á 82. mínútu fengu KA-menn svo gullið tækifæri til að komast yfir þegar boltinn fór í höndina á varnarmanni þeirra vínrauðu sem gátu lítið sagt þegar Halldór Breiðfjörð flautaði og benti á punktinn.

Hallgrímur tók spyrnuna en Jóhann Ólafur í marki Selfyssinga varði spyrnuna neðarlega í vinstra horninu. 

KA-menn voru meira með boltann það sem eftir lifði leiks án þess þó að fá alvöru færi og niðurstaðan því 1-1 jafntefli sem líklega verður að teljast sanngjarnt en bæði liðin fengu þó sín tækifæri til að taka stigin þrjú. KA-menn geta verið nokkuð sáttir við sinn leik, sérstaklega í fyrri hálfleik sem var góður og hefði alls ekki verið ósanngjarnt að KA hefði farið með meiri mun en 1-0 inn í hálfleikinn.

Nýju mennirnir stóðu sig allir með prýði. Hafþór stjórnaði vörninni ásamt því að koma boltanum vel frá sér, Blikarnir Ágúst og Elvar sýndu lipra takta og munu klárlega nýtast vel í sumar. Undir lokin kom svo Dan Howell inn og átti gott skot en þess utan var hann ekki mikið í boltanum en ég er viss um að hann eigi eftir að sýna meira þegar hann kemst í takt við liðið.

Fyrsta stigið er komið í hús í Lengjubikarnum en næsti leikur er gegn úrvalsdeildarliði Keflavíkur eftir viku í Reykjaneshöllinni.