Umfjöllun: KA - Þróttur R.

Það var hæglætisveður þegar Hákon Þorsteinsson dómari flautaði til leiks klukkan tvö eftir hádegi í dag. Stuðningsmenn KA voru vel með á nótunum frá fyrstu mínútu undir styrkri handleiðslu hinna frábæru Vina Sagga.

Leikskýrsla

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu mínúturnar en gestirnir voru þó heldur beittari ef eitthvað var. Vörn KA-manna virkaði nokkuð óstyrk og eftir atgang í vítateig þeirra barst boltinn í hönd varnarmanns KA og vítaspyrna dæmd. Dean Martin, spilandi þjálfari KA, varð æfur yfir flautuleikaranum og uppskar líklega réttilega gult spjald fyrir vikið. Hörður Bjarnason tók spyrnuna en Sandor varði hana vel. Þetta var ekki fyrsta vítaspyrnan sem þessi snjalli markvörður ver og verður ekki heldur sú síðasta.

Húsvíkingurinn knái, Guðmundur Óli Steingrímsson varð fyrri því óláni að þurfa að fara meiddur af velli á 24. mínútu. Vonandi eru meiðsl hans ekki alvarleg. Hallgrímur tók stöðu hans.

KA-menn komust smátt og smátt inn í leikinn og um miðjan fyrri hálfleikinn komst David Disztl einn inn fyrir vörn Þróttara en það var eins og hann hafi ekki náð að ákveða hvað hann ætlaði að gera við boltann áður en hann mætti Haraldi í marki gestanna í teignum en Haraldur ásamt varnarmanni Þróttar bægðu hættunni frá á síðustu stundu.

Þróttarar áttu sín færi og hálffæri í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki. Undir lok fyrri hálfleiks þegar KA-menn sóttu að marki Þróttara virtist sem Haraldur hafi meiðst í markinu án þess að um leikbrot hafi verið að ræða og því sóttu KA-menn á opið mark og áttu hver á fætur öðrum marktilraunir, á meðan markvörðurinn lá í grasinu, sem vörn gestanna sá þó við. Þessum hasar í og við vítateig Þróttara lauk með skoti úr teignum frá Disztl sem var í besta falli stórundarlegt en boltinn virtist vera á leið upp í fjærhornið þegar hann liggur mér við að segja stöðvaðist í loftinu og féll dauður í markteig gestanna.

KA 0-0 Þróttur ~ hálfleikur

KA-menn komu dýrvitlausir inn í seinni hálfleik og tóku öll völd á vellinum. Fljótlega bar vinna þeirra ávöxt þegarÞórður setti kollinn í boltann eftir horn þjálfarans, Dean Martin.

KA 1-0 Þróttur.

KA-menn juku forystuna 13 mínútum síðar þegar Andri Fannar skoraði eftir vel útfærða skyndisókn sem mest fór í gegnum Dean Martin, Danny Stubbs og hann sjálfan.

KA 2-0 Þróttur.

Dean Martin fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir að því er virtist litlar sakir um miðbik seinni hálfleiks og þar með rautt en KA-menn héldu ró sinni með þjálfarann utan vallar það sem eftir lifði leiks og það var svo Andri Fannar sem gerði út um leikinn í uppbótartíma með laglegu marki úr teignum eftir að boltinn barst til hans upp úr stuttu spili þeirra gulklæddu. Það er vissulega stutt á milli í þessu því augnabliki áður vildu margir Þróttarar meina að þeir hefðu skorað mark þegar boltanum var spyrnt í slánna og þaðan datt hann á eða við marklínu heimamanna. Hákon lét leikinn halda áfram og í kjölfarið kláraði KA leikinn með þessu góða marki Andra Fannars.

KA 3-0 Þróttur ~ leik lokið

Það var gaman að sjá hvað var góð stemmning í stúkunni þrátt fyrir sumarfrí margra Akureyringa sem og annarra Íslendinga. Við erum að verða vitni af vakningu í kringum liðið og ég er sannfærður um að stuðningsmönnum KA á bara eftir að fjölga á næstu leikjum, bæði norðan og sunnan heiða.

Næsti leikur KA er gegn Gróttu, sem sitja á botni deildarinnar, á laugardaginn eftir viku á Gróttuvelli á Seltjarnarnesi og næsti heimaleikur er gegn ÍR, sem byrjuðu mótið vel en hefur fatast flugið eilítið.

Það eru gríðarlega mikilvægir leikir framundan. Mætum öll og styðjum liðið.

Höfum gaman, syngjum saman!

Áfram KA!

Lið KA:

Mark: Sandor
Bakverðir: Kristján Páll og Danny
Miðverðir: Þórður og Haukur
Djúpir miðjum: Davíð Rúnar og Steinn
Vængmenn: Dean Martin og Andri Fannar
Framliggjandi miðjum: Gummi Óli (Hallgrímur Mar ‘24)
Framherji: David (Orri ‘76)

- Einn gulur og sjóðheitur..