Umfjöllun: Leiknir - KA

Það viðraði vel til knattspyrnuiðkunar í dag á „Ghetto Ground“ eins og Leiknismenn nefna heimavöllinn sinn. Völlurinn í fínu standi og ágætis mæting í Breiðholtið þrátt fyrir stóran HM dag.


Leiknir R. 3 - 0 KA
1-0 Kristján Páll Jónsson ('62)
2-0 Kristján Páll Jónsson ('81)
3-0 Brynjar Benediktsson ('87)

Sandor (F)

Haukur He. - Janez - Þórður - Magnús Blö.
Andri F - Túfa - Haukur Hi. - Hallgrímur
Guðmundur Óli
David Disztl



Varamenn: Dean Martin(Túfa 73mín), Dan Stubbs(Hallgrímur 55mín), Orri Gústafsson(David 63mín), Sigurjón Fannar Sigurðsson, Steinn Gunnarsson.

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrsla

Leikurinn byrjaði rólega og voru menn að finna rythmann fyrstu mínúturnar. Á 8 og 10 mínútu fengu KA menn tvö hálf-færi þegar David átti skalla að marki sem var varinn og Guðmundur Óli með skot töluvert yfir.
Á 12 mínútu misstu KA menn síðan boltann mjög illa og klaufalega á miðjusvæðinu og Leiknis menn geystust upp í hörku skyndisókn og fengu algjört dauðafæri sem góður framherji hefði klárað auðveldlega.

Áfram hélt leikurinn og var jafnræði með liðunum.  Leiknismenn voru þó aðeins meira með boltann og ögn líklegri. Leiknis menn byggðu mikið upp sínar sóknir upp hægri kantinn og nýttu sér það að vinstri bakvörður KA var oft út úr stöðu og framarlega á vellinum. Þrátt fyrir að hafa farið mikið upp hægri kantinn þá kom lítið út úr crossunum hjá þeim og náðu þeir ekki að skapa sér nein verulega góð marktækifæri.
Fyrri hálfleikurinn fjaraði út og var hann vægast sagt óspennandi.

Seinni hálfleikurinn var mun skárri og mun meira fyrir augað. Á 55 mínútu komst David inn fyrir vörn en lét sig detta í vítateignum og var réttilega spjaldaður. Einkennileg ákvörðunartaka hjá David sem var kominn þarna í fínan séns.
KA gerði stuttu seinna skiptingu og kom Dan Stubbs inn á. Dan kom með flotta innkomu og var virkilega sprækur og líflegur fyrstu mínúturnar eftir að hann kom inná. Var hann síðan óheppinn að skora ekki stuttu seinna en fast skot hans fór yfir.
Leiknismenn tóku síðan forystuna á 61. mínútu þegar  Kristján Páll Jónsson skoraði mark sem verður að skrifast á Sandor Matus. Kristján skaut að marki en Sandor varði boltann upp í loftið og skrúfaðist síðan yfir hann og beint í netið. Afar klaufalegt að sjá.

Á 65 mínútu var Andri Fannar síðan óheppinn að skora ekki þegar hann átti bylmingsskot að marki en boltinn skall í markstönginni ofanverðri.
Á 79 mínútu bættu síðan Leiknismenn við forskot sitt þegar Kristján Páll Jónsson skoraði aftur. Aftur fannst mér Sandor eiga að verja þetta.

Eftir annað markið datt allur botn úr KA strákunum og á 85 mínútu skoraði Brynjar Benediktsson gott mark með skalla og kórónaði 3-0 sigur heimamanna.

KA menn voru líflausir, baráttulausir og kraftlausir. Eflaust hefur Grindavíkur leikurinn setið í mönnum en ég trúi ekki öðru en að það hafi verið tekin svokölluð „endurheimt“ daginn eftir leikinn í Grindavík og svo frí eða mjög létt æfing á laugardaginn. Þannig að nægan tíma höfðu þeir til þess að hvílast og hlaða batteríin.

Einnig fer mjög í taugarnar á mér hvað þónokkuð margir leikmenn KA eru lélegir í návígjum. Það vantar killer instinct í ansi marga og trúnna á að geta unnið boltann af andstæðingnum í stöðunni einn á einn. Einnig hefur talandi liðsins lítið batnað. Það eru einna helst Þórður Arnar, Dean og Sandor sem tala, gefa skipanir eða hvetja aðra leikmenn inná vellinum. Hinir eru liggur við bara á mute. Einnig auglýsi ég eftir meiri leikgleði í liðinu. Leikmenn eru að fórna miklum tíma í fótboltann fyrir kannski bensínkort og smá klink eða jafnvel ekki einu sinni bensínkort, smá klink eða neitt annað og þá er nú algjört frumskilyrði að hafa gaman af þessu.

Dan og Dean áttu mjög flotta innkomu í dag og var mun betra að sjá til liðsins með þá inná vellinum. Túfa var einnig góður en ekki skildi ég afhverju hann var tekinn af velli.
Leiknisliðið hefur tekið ótrúlegum stakkaskiptum síðan Sigursteinn Gíslason tók við liðinu. Greinilegt að Sigursteinn hefur lært þjálfarafræðin vel og gengið í gegnum frábæran skóla hjá Guðjóni Þórðarsyni eftir að hann spilaði hjá honum í mörg ár. Þeir spila agaðan varnarleik, eru með traustan markmann, gefa fá færi á sér og eru með eitraða og fljóta sóknarmenn sem eru fljótir að refsa. Skyndisóknirnar hjá þeim eru þeirra helsta vopn og gæta þeir auðveldlega kálað leikjum með frábærum skyndisóknum.