Boris og Haukur í baráttunni í vörninni.
Það var mikil tilhlökkun í þeim gulu og bláu fyrir deginum í dag enda tæplega sjö mánaða undirbúningstímabili lokið
og loksins átti að byrja Íslandsmótið á leik gegn Leikni. KA-menn fengu verðugt verkefni í fyrsta leik en andstæðingarnir úr
Breiðholtinu voru hársbreidd frá því að komast upp í úrvalsdeild síðasta haust og er þeim spáð töluvert betra gengi
en KA í sumar.
Leiknir 0 - 0 KA
Gunnlaugur stillti upp sama liði og lagði Draupni á mánudagskvöldið. Í hópinn vantaði Stein Gunnarsson, Þórð Arnar
Þórðarson og Túfa sem á við erfið meiðsl að stríða.
Sandor
Haukur Heiðar - Hafþór - Boris - Jón Heiðar
Andrés - Guðmundur Óli - Davíð R - Hallgrímur
Elvar Páll
Dan Howell
Varamenn: Ómar Friðriksson(Elvar Páll, 79. mín), Jakob Hafsteinsson(Andrés, 87. mín), Magnús Blöndal,
Arnór Egill, Ívar Guðlaugur, Sigurjón Fannar, Fannar Hafsteinsson.
Það rigndi af og til ásamt því að fremur kalt var í veðri á Leiknisvellinum í kvöld en áhorfendur létu það ekki
á sig fá og var setið í nánast hverju sæti í stúkunni og nokkur fjöldi af þeim áhorfendum á bandi KA-manna sem var afar
gaman að sjá.
Þegar fyrstu tíu mínúturnar af leiknum voru liðnar og menn farnir að átta sig á aðstæðum tóku KA yfirhöndina á
vellinum og stjórnuðu því sem fram fór fram að hálfleik.
Fyrsta færið átti Davíð Rúnar eftir aukaspyrnu utan af velli frá Hallgrími en skallinn frá honum flaug rétt framhjá.
Strákarnir héldu uppteknum hætti og örfáum mínútum síðar átti Haukur Heiðar fyrirgjöf á Hallgrím sem var
í fínu færi í teignum en Eyjólfur markvörður Leiknis náði að verja í horn.
Skömmu síðar áttu Leiknismenn í rauninni einu sóknartilraun þeirra í fyrri hálfleik en skot þeirra rétt utan teigs átti
Sandor í litlum erfiðleikum með.
KA-menn fengu fleiri færi það sem eftir lifði hálfleiks. Davíð átti flotta stungusendingu á Guðmund Óla en varnarmaður Leiknis
náði á síðustu stundu að fleygja sér fyrir skot Guðmunds. Dan Howell gerði svo vel skömmu síðar, lék á varnarmann og
skaut en boltinn rúllaði rétt framhjá markinu.
Hallgrímur fékk svo annað færi en var of lengi að athafna sig á blautum og erfiðum vellinum svo heimamenn náðu að bægja hættunni
frá og í seinna skiptið björguðu þeir á línu.
Staðan markalaus í hálfleik og voru Leiknismenn líklega töluvert ánægðari með það heldur en Gunnlaugur og strákarnir hans sem
höfðu átt mjög góðan hálfleik og skapað sér mörg fín færi.
Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði, KA með yfirhöndina, en helst ber að nefna aukaspyrnu utan af kanti frá Hauki Heiðari sem
Eyjólfur náði að blaka í slá og yfir og síðan fékk Hallgrímur tvö skotfæri en náði ekki að nýta
sér þau nægilega vel.
Leiknismenn gerðu breytingar á liði sínu og við það virtust þeir vakna til lífsins. Á 67. mínútu var mark dæmt af
þeim eftir snarpa skyndisókn en aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu og nokkrum mínútum síðar var mikill darraðardans inn í
teig KA-manna eftir horn en ekkert varð úr því.
Í millitíðinni átti Hallgrímur aukaspyrnu af rúmlega 35 metra færi og átti Eyjólfur markvörður í erfiðleikum með
boltann sem spíttist á blautu grasinu en það vantaði bara mann í gulri treyju á réttan stað til að taka frákastið.
Þegar þarna var komið sögu var leikurinn marka á milli en helsta vopn heimamanna voru hraðar skyndisóknir og eftir eina slíka áttu þeir skot
rétt framhjá. Á sömu mínútu var Dan Howell í baráttunni á hinum enda vallarins og munaði litlu að hann hefði náð
að koma sér í gott færi eftir góða rispu. Ólafur Hrannar sóknarmaður Leiknis skallaði í þverslá skömmu
síðar og leikurinn var opinn.
Fimm mínútum fyrir leikslok varði Sandor frábærlega í markinu frá sóknarmanni Leiknis úr algjöru dauðafæri en Eyjólfur
í hinu markinu vildi ekki vera minni maður og tók á honum stóra sínum skömmu seinna þegar varamaðurinn Ómar Friðriksson í
sínum fyrsta meistaraflokksleik í Íslandsmóti átti flott skot sem Eyjólfur náði að blaka yfir markið.
Á lokamínútu leiksins áttu Leiknismenn horn og upp úr því björguðu KA-menn nánast á marklínu en boltinn barst fram
á Hallgrím sem var einn á móti varnarmanni Leiknis á miðjum vellinum, Dan brunaði fram með Húsvíkingnum knáa og fékk boltann
en varnarmenn Leiknis náðu að hlaupa okkar menn uppi og stöðva þá, reyndar með þeim hætti að dæmd var aukaspyrna á
hættulegum stað og gult spjald. Hallgrímur tók spyrnuna og skaut yfir.
Fyrsta leik KA á Íslandsmótinu 2011 lauk því með markalausu jafntefli en það var í raun ótrúlegt að ekkert mark hafi verið
skorað miðað við öll þau færi sem liðin og sérstaklega KA sköpuðu sér.
Þegar á heildina er litið voru KA-menn sterkari aðilinn í leiknum. Þrátt fyrir að Leiknismenn hafi átt sína spretti þegar leið
á leikinn þá stjórnuðu KA fyrri hálfleiknum og hefði ekki verið ósanngjarnt ef þeir hefðu farið með tveggja marka forystu inn
í leikhléið. Fyrirfram hefði jafntefli og stig í farteskið verið mjög gott en miðað við gang leiksins hefði alls ekki verið
ósanngjarnt ef stigin þrjú hefðu verið í töskum KA-manna í rútu á leiðinni norður.
Sandor varði það sem kom á markið og var öruggur í öllum sínum aðgerðum en sóknarmennirnir eru líklega ósáttir
við sjálfa sig því þeir fengu góð færi til að skora og þá sérstaklega Hallgrímur og Guðmundur Óli sem stakk
sér inn af miðjunni.
Í vörninni voru Hafþór og Boris traustir og komust vel frá sínu. Hafþór öskraði sína menn áfram og lét í
sér heyra. Meðalaldurinn í vörninni í dag var ekki hár, þrír leikmenn sem verða tvítugir á árinu og einn árinu eldri.
Reyndar ef út í það er farið var liðið mjög ungt í kvöld, fimm leikmenn fæddir 1991 og tveir 1990. Meðalaldur 23 ár eftir
fljótlegan reikning.
Jón Heiðar og Haukur Heiðar í bakvörðunum héldu eldsnöggum kantmönnum Leiknismanna í skefjum og Haukur náði nokkrum sprettum upp
kantinn. Á miðjunni var Davíð Rúnar dýpstur og tók flesta skallaboltana auk þess að dreifa spilinu. Í kringum hann voru svo Guðmundur
Óli að vinna boltann og gerði það vel og Elvar Páll sem hélt boltanum ásamt því að koma með góðar sendingar.
Fremstu þrír voru allir hættulegir, Dan er góður skallamaður og var duglegur í kvöld, Hallgrímur lék bakverði Leiknismanna oft
grátt, annan þeirra svo illa að honum var skipt af velli í hálfleik og Andrés sýndi mikla baráttu í kvöld en var ekki nægilega
mikið í boltanum því KA-menn sóttu meira upp vinstra megin.
Hér er hægt að sjá myndir sem ljósmyndarar Leiknis
tóku.
Næsti leikur er gegn ÍR eftir slétta viku, föstudaginn 20. maí. Leikvöllur er skráður Akureyrarvöllur en hann verður ekki klár og er KA
búið að biðja um Þórsvöll að láni en ekki er komið í ljós hvort það gangi eftir. Jóhann Már og Óskar
Þór munu flytja fréttir af því síðar meir.