Umfjöllun og myndaveisla: Njarðvík - KA

Dínó fagnar markinu sínu í gær.
Dínó fagnar markinu sínu í gær.
Það var heldur kalt í veðri þegar KA menn heimsóttu Njarðvíkinga í kvöld á rennisléttan og flottan Njarðtaksvöll þeirra heimamanna. Umfjöllun um leikinn og tengill á myndaveislu.



Njarðvík 1 - 1 KA:
1-0 Einar Helgi Helgason ('15)
1-1 Dean Martin ('75)




Sandor (F)

Haukur He. - Janez - Haukur Hi. - Kristján P.
Dean M. - Steinn G. - Þórður - Stubbs
Andri Fannar
David Disztl



Varamenn: Orri Gústafsson(David Disztl), Davíð Rúnar Bjarnason, Hallgrímur Mar Steingrímsson(Þórður Arnar), Sigurjón Fannar, Magnús Blöndal.

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrsla
Myndaveisla úr leiknum

Athygli vakti að þeir Kristján Páll og Þórður Arnar komu inn í byrjunarlið KA manna vel sólaðir beint frá Bandaríkjunum en hinn afar geðþekki og vinnusami Túfa var hvergi sjáanlegur. Í lið Njarðvíkinga vantaði þá Teit Örlygsson og Brenton Birmingham.

Heimamenn voru ögn frískari í byrjun leiks og voru óheppnir að komast ekki yfir strax á 5 mínútu þegar þeir fengu stungusendingu inn fyrir vörn KA manna en skotið fór rétt framhjá marki KA manna.

Á 9 mínútu leiksins vildu KA menn síðan fá vítaspyrnu þegar David Distzl féll inn í teig en dómari leiksins mat það svo að um enga snertingu hafi verið að ræða og lét leikinn halda áfram. Örskömmu seinna skoraði David síðan skallamark eftir fyrirgjöf frá hægri en var dæmdur rangstæður. Erfitt var að sjá hvort að það hafi verið réttur dómur eða rangur dómur en við verðum að treysta því að línuvörðurinn hafi verið heiðarlegur í sinni nálgun í þessu tilviki og dæmt rétt. David mjög svo óheppinn þarna á stuttum kafla leiksins, hefði getað verið búinn að skora og fiska víti. Ef, hefði, kannski og ef til vill er þó ekki til í íþróttum og mun aldrei vera.

KA menn fengu síðan kalda vatnsgusu framan í sig þegar heimamenn uppskáru mark á 15 mínútu og var það Einar Helgason sem lagði hann framhjá Sandori Matus niður í vinstra hornið.

KA menn virtust gáttaðir næstu mínúturnar og voru sjokkeraðir yfir því að vera komnir undir á móti heimamönnum sem komust með naumindum upp úr C-deildinni síðasta haust. KA hristi þó slenið af sér örfáum mínútum seinna og voru mikið mun meira með boltann en sóknarlegt bit KA manna á síðasta þriðjung vallarins var álíka bitlaust og gamansýning í Þjóðleikhúsinu með Halla, án Ladda. Af Njarðvíkingum má þó ekki taka að þeir spiluðu agaðan og þéttan varnarleik og var erfitt að brjóta þá á bak aftur sem getur vissulega reynt á þolrif andstæðingsins.

Á 36 mínútu voru KA menn síðan stálheppnir að lenda ekki 2-0 undir þegar framherji Njarðvíkurmanna fékk fína stungu inn fyrir vörnina en átti ævintýralega slakt skot sem Sandor átti í litlum erfiðleikum með að verja.
Dan átti síðan skot framhjá á 42 mínútu eftir að loksins kom gott spil og loksins sókn sem var endað með skoti.

Í seinni hálfleik dró ekki til tíðinda fyrr en á 60 mínútu þegar hinn ungi Þingeyingur Hallgrímur Mar átti skot rétt framhjá eftir að hafa átt frábæran einleik eftir að hafa verið nýkominn inná.
KA menn héldu áfram að halda boltanum og áttu urmul af hornspyrnum og fyrirgjöfum sem rötuðu ekki yfir kollinn á fyrsta varnarmanni Njarðvíkinga sem getur ekki talist vænlegt til árangurs í fótbolta.

Á 75 mínútu fengu KA menn síðan aukaspyrnu út á vinstri vængnum, um 35 metra frá marki. Andri sneiddi honum inn í fjölmennan vítateig Njarðvíkurmanna en Dean Edward Martin náði að vinna sér góða stöðu í teignum og stangaði hann fast niður í hægra hornið og jafnaði leikinn fyrir sína menn.

Á 80 mínútu fengu Njarðvíkingar síðan dauðafæri en Sandor Matus varði virkilega vel. Með betri leikmann með meiri hæfileika í því færi hefði það alla daga verið mark.
Síðustu 10 mínúturnar voru KA ca. 80 prósent með boltann en agaðir og þéttir fyrir voru Njarðvíkingar og fjaraði leikurinn út. Niðurstaðan 1-1 sem verður að teljast sanngjörn úrslit.

Leikmenn Njarðvíkur verða líklega ekki fengnir til að leika listir sínar fyrir keppendur á kvöldvökum N1 mótsins og Shell mótsins í sumar. Þeir mega þó eiga það að þeir berjast, þekkja sín takmörk, nýta hæðar og styrktar eiginleika sína, spila agað og halda leikskipulagi þjálfarans. Hef ekki mikla trú á þeim á útivöllum í sumar en heima munu þeir reita stig. Hvort það dugi þeim til að halda sér uppi skal ég ekki segja um.

Hjá KA verður David verður að fara að koma meira inn í leiki liðsins og opna markareikning sinn. Þjálfarar hinna liðanna líta þó á síðasta tímabil í sinni forvinnu fyrir leiki liðsins á móti KA og sjá fjölmörg mörk frá honum. Það þýðir að þeir impra á því við sína menn að taka fastar á honum og setja jafnvel 2 menn á hann, því verður hann að fá meiri hjálp. Hallgrímur og Orri komu geysilega sprækir inn á í dag og myndi ég persónulega vilja sjá þá byrja næsta leik á móti HK. Einnig mættu leikmenn tala meira saman inn á vellinum, hafsentaparið til dæmis opnar varla á sér munninn. Aðeins Dan, Dean og Andri sem eru í því að kjafta allan leikinn. Eins hafa nokkrar hrókeringar verið á byrjunarliði liðsins í fyrstu 4 leikjunum  – Dean verður sem allra fyrst að fara að finna sína bestu 11 menn og spila þeim.

Áðurnefndur HK leikur er gríðarlega mikilvægur. Úrslit þess leiks gæti haft heilmikið að segja hvort liðið myndi blanda sér í toppbaráttu eða sigla lygnan sjó í 6-8 sæti. Það er því mjög mikilvægt að allir KA menn fjölmenni á leikinn á Akureyrarvelli laugardaginn 5. Júní og fylki sér bakvið liðið.

Næst er þó bikarleikur gegn HK á miðvikudaginn næstkomandi á Akureyri en ekki er búið að ákveða leikstað þar sem Akureyrarvöllur verður líklega enn óleikhæfur.

Myndaveislu úr leiknum má nálgast hér en ljósmyndarinn Davíð Óskarsson sendi heimasíðunni þessar myndir og þökkum við honum fyrir það.