KA tók á móti ÍR í Boganum í kvöld og fyrir leikinn mátti búast við hörkuleik. Svo ég vitni í spá Páls Viðars Gíslasonar fyrir leikinn segir hún allt sem segja þarf um leikinn: “KA-menn eru með hættulega framherja og þeir verða illviðráðanlegir í þessum leik í Boganum. Þeir vinna þetta örugglega 3-0.” Það er spurning hvaða náðargáfu Palli er gæddur en hann hafði á hárréttu að standa, KA voru illviðráðanlegir í leiknum og unnu mjög svo öruggan 3-0 sigur. Spurning hvort Palli taki við af nafna sínum, kolkrabbanum Páli, sem spáði fyrir um leiki á HM.
Frá fyrstu mínútu sást það á leik KA-liðsins að þennan leik ætluðu þeira að vinna, aðra eins baráttu og annan eins liðsanda hef ég ekki séð í KA-liðinu undanfarin fjölmörg ár, það var hrein unun að horfa á okkar unga lið spila í kvöld, allir börðust fyrir alla og allir voru tilbúnir að fórna sér fyrir félagann (þá er ég að meina liðsfélaga ekki öðruvísi félaga). Eins og fyrr segir byrjuðu KA-menn leikinn strax og áttu nokkur ágætis færi á fyrstu 10 mínútunum, spiluðu boltanum vel á milli sín og hengu ekki á boltanum heldur notuðu 2-3 snertingar, hálfgerður samba-bolti. "Síbrotamaðurinn" Andrés Vilhjálmsson fékk hins vegar gult spjald á 4 mínútu fyrir “ljótan” leik að mati góðvinar Willums Þórs og dómara leiksins Gunnars Jarls, en Andrés fékk boltann í sig eftir útspark. Gunnar leit svo á að hann væri að reyna að vera fyrir og spjaldaði Andrés, sem var frekar furðuleg ákvörðun.
Á 14. mínútu skilaði sóknarþungi KA árangri þegar flottur bolti barst úr vörninni í gegnum vörn ÍR og var Dan Howell sloppinn í gegn og skoraði örruglega undir markvörð ÍR og staðan orðinn 1-0.
Ekki er ég með á hreinu hversu mörg skot KA átti í fyrri hálfleik en þau voru trúlega u.þ.b 10 að minnsta kosti. Erfitt er að
taka einhvern út í fyrri hálfleiknum. Hallgrímur Mar og Elvar Páll voru mjög hættulegir, Haukur Heiðar ógnaði sífellt af
kantinum sem og Jón Heiðar og Andrés, Dan náði oft og tíðum að skapa sér flott pláss og skilaði boltanum vel frá
sér. Nenni nú ekki að telja upp alla, en eitt er víst og það er það að allir stóðu þeir sig frábærlega í leiknum
og fengju trúlega "Mogga" í Mogganum á morgun.
Seinni hálfleikur þróaðist eins og sá fyrri, KA með boltann, nokkrar sendingar, fyrirgjöf og skot, KA vinnur boltann, nokkrar sendingar, fyrirgjöf og skot. Svona var leikurinn í grófum dráttum og virðist sem varnarmenn okkar nái vel saman því ekkert komst fram hjá þeim, Hafþór var eins og miniútgáfa af Usian Bolt, hljóp alla uppi og tók af þeim boltann. Á meðan var Boris eins og skógarbjörn, réðst á allt sem hreyfðist og Sandor hafði því ekki mikið að gera í markinu en þó hefur ekki fengist staðfest hvort hann hafi farið í sturtu eftir leik.
Á 57. mínútu bættu KA menn við marki, maður leiksins, Haukur Heiðar, geystist upp kantinn með tunguna úti og átti flotta fyrirgjöf sem Jóhann Björnsson, varnarmaður ÍR-inga, sá sig tilneyddan til að skalla í eigið net, enda eina tækifærið sem hann fékk í leiknum til að skalla að marki og staðan því orðin 2-0 og áhorfendur ærðust af fögnuði.
Áfram héldu KA-menn að sækja og Elvar Páll var óheppinn að setja ekki mark þegar Dan átti flottan bolta fyrir en móttakan brást Elvari Páli og boltinn fór í hendur markmannsins, en kjörið tækifæri var þetta. Stuttu seinna var Elvari, sem átti stjörnuleik á miðjunni, skipt af velli fyrir Ómar Friðriksson.
Tólf mínútum eftir annað markið kom það þriðja. Dan fékk boltann fyrir framan teiginn, hugsaði sig tvisvar um og svo kom LA BOMBA í nærhornið, óverjandi fyrir markvörð ÍR-inga, enda magnað skota hjá Dan, sem sýndi þarna að hann er enginn Nistelrooy framherji (fyrir ykkur sem ekki vitið hver Nistelrooy er þá er það gæinn sem var hjá United einu sinni og skoraði urmul af mörkum en aðeins eitt utan vítateigs).
Eftir þetta mark fjaraði svolítið undan leiknum enda var honum löngu
lokið. KA-menn slökuðu aðeins á klónni og Gulli tók Dan og Andrés útaf og setti Arnór Egil Hallsson og nýja gamla manninn
Davíð Örn Atlason inn, en hann var að leika sinn fyrsta leik með KA í óratíma. Þeir þrír sem komu inn af bekknum sýndu
að þeir hafa hæfileika og áttu sína spretti og það er alveg ljóst að nóg er um samkeppnina í liðinu, sem er af hinu
góða.
ÍR-ingar reyndu aðeins að sækja síðustu 10 mínúturnar en það gekk illa, fengu 2 eða 3 horn en Sandor greip þau örugglega og maður þurfti ekki einu sinni að kyngja munnvatni þegar þeir fengu boltann því engin var hættan, varnarmenn KA voru einfaldlega tíu og hálfu númeri of stórir fyrir þá í dag sem og liðið allt.
En frábær 3-0 sigur staðreynd og er ljóst að þetta gefur liðinu byr undir báða vængi fyrir leikinn á móti Grindavík á miðvikudaginn.
Viðtöl við Hauk Heiðar Hauksson, sem var valinn maður leiksins, Gunnlaug Jónsson og Guðlaug Baldursson, þjálfara ÍR, má sjá að neðan. Þetta er í ömurlegum gæðum en nógu góðum til að hlusta, ástæðan er sú að ég vildi flýta þessu inn á netið. Myndir af leiknum má sjá hér, en Sævar Geir Sigurjónsson tók myndirnar
Tilþrif og mörk detta svo inn á síðuna á morgun, Vill einnig benda fólki á að "Like-takki" er kominn á síðuna og sést hann fyrir neðan viðtöl, takk fyrir og góða nótt!