Umfjöllun: Stórsigur á ÍR

Hallgrímur Mar að koma KA í 3-1, Mynd: Sævar Geir
Hallgrímur Mar að koma KA í 3-1, Mynd: Sævar Geir

KA tók á móti ÍR í hinu fullkomna fótboltaveðri á Akureyrarvelli í gær, skýjað, góður hiti og lítll vindur, en það átti þó eftir að breytast. Bæði lið þurftu á sigri að halda til að koma sér frá þeim rosalega pakka sem myndast hefur í 1.deildinni.



Lið KA: Sandor, Darren, Haukur, Gunnar Valur, Jón Heiðar (Jakob), Davíð, Brian, Bjarki (Aksentije), Guðmundur Óli (Kristján Freyr), Hallgrímur Mar, David Disztl.

Sandor Matus var að leika sinn 200. leik í KA búning sem er einkar merkileg tímamót!

Í fyrri hálfleik voru ÍR-ingar meira með boltann en sköpuðu sér þó ekki eitt einasta færi, KA menn komust yfir á 5.mínútu þegar Hallgrímur Mar fékk boltann á kanntinum og sendi boltann inn að miðju þar sem David Disztl hljóp yfir boltann og þar kom Davíð Rúnar Bjarnason askvaðandi og lagði boltann laglega í hornið rétt fyrir utan og staðan orðin 1-0.

Aftur dró til tíðinda á 20.mínútu, Brian Gilmour átti fallega chippu á Bjarka Baldvinsson sem var að sleppa inn fyrir, en misskilningur varð á milli markvörðs ÍR og varnarmanns og náði Bjarki að stinga sér fram fyrir og tæklaði boltann fyrir markið þar sem David Disztl var mættur og lagði boltann í autt markið, 2-0.

Leikurinn breyttist lítið, KA menn lágu aftarlega og pressuðu á ÍR inga sem spiluðu sín á milli án þess að skapa sér neitt, það var þó á 27.mínútu sem boltinn barst upp vinstri kanntinn þar sem Trausti Björn Ríkharðsson reyndi fyrirgjöf og á einhvern ótrúlegan hátt frusu ALLIR leikmenn innan teigsins og boltinn bara lak í fjærhornið, einkar undarlegt mark en ÍR ingar búnir að minnka muninn. 2-1.

Eftir þetta fengu KA menn nokkur góð færri en sláin bjargaði einu sinni, ÍR ingar björguðu á línu og markvörður þeirra varði vel í tvígang.

Seinni hálfleikur var einstefna, ÍR ingar komust varla yfir miðju og KA menn pressuðu þá stíft þegar þeir fengu boltann og voru ÍR ingarnir í bullandi vandræðum.

Hallgrímur Mar jók forskot KA á 56. mínútu þegar hann slapp í gegn á vítateigshorninu og lagði boltann í fjærhornið og kom KA í 3-1. Það var svo fjórum mínútum seinna sem Gunnar Valur Gunnarsson jók forskot KA í 4-1, en eftir hornspyrnu KA fór boltinn aftur til Brian sem tók spyrnuna hann tók aðra tilraun og hitti á Gunnar Val sem vann einvígið við Brynjar í marki ÍR og hamraði boltann inn.

Það var svo maður leiksins Hallgrímur Mar sem kóronaði frábæran leik sinn á 80.mínútu þegar hann prjónaði sig framhjá 2 ÍR ingum og kom sér að teignum þar sem hann átti fallegan þríhyrning við bróðir sinn Guðmund Óla og lagði boltann svo fallega í fjær hornið, listilega vel gert hjá Hallgrími og staðan 5-1. 

Jan Eric Jessen flautaði svo til leiksloka og vægast sagt sanngjarn sigur KA manna staðreynd en sigurinn hefði getað orðið stærri.

Svipmyndir úr leiknum koma síðan inn í dag.