Umfjöllun: Stórsigur á Þrótti

Haukur Heiðar stóð fyrir sínu og skoraði tvö í kvöld
Haukur Heiðar stóð fyrir sínu og skoraði tvö í kvöld

Það er spurning hvort KA-mönnum verði ekki mútað til að mæta á völlinn framvegis með góðum kræsingum, því fjöldinn allur af fólki mætti á KA-völl (hinn neðri) í kvöld og ber að fangna því! Húrra fyrir ykkur!

KA-menn voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum og Þróttarar ógnuðu lítið allan leikinn, það var frekar Sandor markvörður KA sem ógnaði þeim. Á 10. mínútu kom hann út úr teig sínum og tók boltann í rólegheitum á kassann og tók svo tvo Þróttara á á einkar skemmtilegan hátt áður en hann setti boltann í spil á nýjan leik. 

Undirritaður gerði heiðarlega tilraun til að skrásetja tölfræði með hjálp nýjustu tækni og vísinda (tölublað14) í leiknum og samkvæmt henni voru KA-menn með boltann 64% í leiknum en Þróttarar ekki nema 36%.

Lítið gerðist fram að 30. mínútu þegar Brian Gilmour, nýjasti leikmaður KA, átti flottan bolta fyrir á hausinn á Davíð Rúnari sem skallaði boltann í slá, þar datt boltinn fyrir fyrirliðann Hauk Heiðar Hauksson sem mokaði  boltanum yfir línuna og KA komnir yfir. 

KA-menn vildu fá vítaspyrnu stuttu seinna þegar leikmaður Þróttar lamdi boltann innanteigs en allir nema tveir svartklæddir höfðingjar sáu það atvik.

Á 43. mínútu dró aftur til tíðinda þegar Gilmour átti aftur bolta fyrir og eftir skot í teignum datt boltinn á Hauk Heiðar sem mokaði honum sem fyrr yfir línuna og fyrirliðinn kominn með tvö Nistelrooy mörk, eitthvað sem enginn hefði tippað á fyrirfram. 

Þannig stóðu leikar í hálfleik. Samkvæmt tölfræðinni áttu KA-menn 13 skot að marki í leiknum og þar af 8 á markið en Þróttarar 9 skot en aðeins 3 á markið.

Sama spilamennska var uppi á teningnum í seinni hálfleik, KA-menn stjórnuðu leiknum og Þróttarar gerðu lítið, að því frátöldu að Hallur Hallsson, fyrirliði liðsins, var rekinn útaf með tvö gul spjöld á 64. mínútu eftir klaufalegt brot út á kanti og Þróttarar manni færri.

Þróttarar bitu þó frá sér á 70. mínutu, en það var máttlaust bit, skot utan af velli endaði að vanda í lúkunum á Sandor í markinu.

Á 75. mínútu var það svo Guðmundur Óli Steingrímsson sem kom KA í 3-0 eftir að Þróttarar höfðu aðeins sótt í sig veðrið. Guðmundur fékk bolta innfyrir frá bróðir sínum Hallgrími og kláraði af stakri prýði. 

Þróttarar klóruðu í bakkann strax mínútu seinna. Eftir klaufalega sendingu frá Hafþóri í vörn KA sluppu Þróttarar í gegn og Sveinbjörn Jónasson skoraði í autt markið eftir að hafa fengið sendingu framhjá Sandori.

KA-menn reyndu að hægja á leiknum eftir þetta og tóku stjórnina enn á ný, Túfa og Brian spiluðu frábærlega á miðjunni og voru eins og herforingjar.

Það var svo Dan Howell sem rak síðasta naglann í kistu Þróttara með laglegu marki á 91. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá hinum lappalanga Boris Lumbana!

Þannig lyktaði leiknum og KA-menn með 3. sigur sinn í röð og eru eftir hann í 8. sæti, 7 stigum frá fallsæti en Þróttarar í því 5. með 3 stigum meira en KA eða 23.

Túfa var valinn maður leiksins að mati háleynilegrar dómnefndar en margir ef ekki langflestir í liðinu spiluðu mjög vel í kvöld og erfitt að taka einhvern einn út, Hallgrímur leik við hvurn sinn fingur á kanntinum og gott var að fá Guðmund á kantinn hinum meginn með sína snilli, Elmar var að vanda eins og herforingi og stjórnaði félögum sínum út í eitt. Vörnin stóð pliktina mjög vel að frátöldu markinu sem KA fékk á sig en annars mjög flottur leikur. Allir áttu flottan dag (PUNKTUR)