Það var blíðskaparveður í Laugardalnum í dag og mikill fjöldi fólks sem var þar samankominn vegna vorhátíðar
Þróttar sem hafði hafist fyrr um daginn.
Þróttur R. 1 - 2 KA
0-1 Sjálfsmark ('57)
1-1 Hörður Bjarnason ('74)
1-2 Haukur Hinriksson ('83)
Sandor (F)
Haukur He. - Janez - Haukur Hi. - Sigurjón F.
Dean M. - Túfa - Guðmundur Ó. - Stubbs
Andri Fannar
David Disztl
Varamenn: Jón Heiðar Magnússon, Orri Gústafsson(David Disztl, 91. mín), Davíð Rúnar Bjarnason,
Hallgrímur Mar Steingrímsson(Dan Stubbs, 72. mín), Steinn Gunnarsson.
Umfjöllun á Fótbolta.net
Myndaveisla á Fótbolta.net
Leikskýrsla á vef KSÍ
Nokkuð jafnfræði var með liðunum fyrstu mínúturnar eins og búist var við í fyrsta leik sumarsins og menn að aðlagast leiknum og
komast í almennilegt samband við boltann. Það dró síðan til tíðinda á 10. mínútu að Þróttarinn Muamer
Sadikovic átti skot í slá eftir eilítinn sofandahátt hjá Hauki Heiðari í vörninni. Muamer má eiga það að hann gerði
þetta vel, tók lítinn tíma að athafna sig og átta sig á aðstæðum og hlóð í skot en tuðran small í slánna
og yfir.
Stuttu seinna fengu KA menn hörkufína skyndisókn þar sem Dean geystist upp hægri kantinn og kom með flotta fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn
á nýjasta liðsmanni KA, Dan Stubbs en hann skallaði framhjá. Slakur skalli þar hjá Stubbs sem hefði átt með léttum leik að
stýra honum í netmöskvana.
Þarna fóru KA menn að vinna sig flott inn í leikinn, héldu boltanum mjög vel innan liðsins, oftast með mjög fáum snertingum. Menn voru
hreyfanlegir og gott flæði á boltanum. Þeir fundu alltaf samherja og létu Þróttarana elta sig svolítið sem er vitanlega besta leiðin til
að pirra andstæðinginn.
Áfram heldu KA menn að halda boltanum vel og sækja. Dean Martin fékk boltann mjög oft í lappirnar og skapaði hann þónokkurn usla á
hægri kantinum með nokkrum fínum fyrirgjöfum. Eins fengu KA menn þónokkuð af hornspyrnum og líkt og með fyrirgjafirnar vantaði að mér
fannst oft bara ögn meiri greddu og smá herslumun til að að vinna öll „klafsin“ í boxinu og skila honum síðan í netið.
Þróttarar komu síðan ögn líflegri í seinni hálfleik og buðu upp á þá tilbreytingu að vinna boltann annað slagið
og geysast yfir miðju og í sóknaruppbyggingu en voru samt ekki nægilega beittir. Áfram létu þeir KA vera atkvæðameiri.

Á 57 mínútu dró svo til tíðinda þegar Dan Stubbs vann boltann einkar vel á vinstri vængnum eftir innkast og kom honum inní boxið
en samskiptaleysi markmanns og varnarmanns varð þess valdandi að varnarmaður Þróttar stangaði hann glæsilega í slánna og inn. Smá
heppnisstimpill á þessu marki og KA menn komnir 1-0 yfir.
Það var síðan um stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Þróttarinn Hörður Bjarnason fékk góða sendingu frá samherja
sínum og smellhittann í fyrstu snertingu frá vinstra horni vítateigs algjörlega óverjandi fyrir Sandor í marki KA. Frábær plöstun
þarna hjá Herði og mjög góð spyrnutækni. Hefði mátt halda að Hörður hafi komið við upp í Skaftahlíð og
fengið lánaða takkaskóna hans Hemma Gunn, þvílík negla. Staðan orðin 1-1 og skyndilega allt í járnum.
Á 84 mínútu fékk Dean Martin síðan hornspyrnu sem hann tók sjálfur, góð hornspyrna í flottri hæð sem rataði
á Hauk Hinriksson sem stangaði hann í netið svo fast að líklega stendur enn SELECT á enninu á þessum unga og uppalda KA manni.
Síðustu mínúturnar voru síðan rólegar og hvorugt liðið skapaði sér nein teljandi færi. Páli Einarssyni þjálfara
Þróttar datt ekki í hug að setja meiri sóknarþunga í sitt lið og þar við sat. 2-1 sigur KA manna staðreynd. Við lokaflaut
dómara leiksins fögnuðu KA menn vel og innilega og tóku sigurhring á miðju gervigrasinu. Hent var í gamla sigurslagarann „Siggi saggi“ og gaman
að sjá að hann lifir enn góðu lífi norðan heiða. Flott að byrja sumarið á góðum útisigri og 3 stigum í hús.
Vonandi gefur þetta góð fyrirheit fyrir sumarið.
Þróttaranir heilluðu mig ekki í dag. Þeir féllu úr Pepsi deildinni síðasta haust og var spáð toppbaráttu í sumar.
Í bílnum á leiðinni heim hallaðist ég helst að því að Gissur mikli (spámaður í VÍS sjónvarpsauglýsingu)
hafi útbúið þessa grínspá því ég sá ekki neitt sem benti til þess að þetta lið væri að fara gera tilkall
til úrsvaldeildarsætis og er ég nú hvorki nærsýnn né fjarsýnn. Þeir eru þó með menn eins og Andrés
Vilhjálmsson sem á að vera 8-10 marka maður í þessari deild og Halldór Hilmisson sem fékk mikið lof fyrir spilamennsku sína í fyrra
með Fylki í efstu deild. En það er ljóst að Páll Einarsson þarf að auka ákefðina á æfingasvæðinu og fá meira
út úr sínum leikmönnum ef þetta sumar á ekki að vera vonbrigðasumar hjá Þrótti.
KA liðið stóð sig flott og voru vel að sigrinum komnir. Sandor var traustur sem endranær í markinu og það var ekki hægt að
sjá að í vörninni voru 3 af 4 varnarmönnum inann við tvítugt og á sínu fyrsta eða öðru ári í meistaraflokk. Dean
var virkilega góður í dag en mætti aðeins minnka tuðið og brosa meira. Ótrúlegt að hann sé 38 ára og ennþá í
svona góðu standi kallinn. Andri og Túfa töpuðu afar fáum boltum í dag og leikskilningur þeirra er fyrsta flokks. Englendingurinn Dan Stubbs var
síðan nokkuð sprækur og á eftir að nýtast liðinu vel í sumar, nokkuð fljótur og fylginn sér, einnig býr hann yfir þeim
góða kosti að geta sparkað jafnvel með báðum löppum en ég hef lengi sagt það að þeir knattspyrnumenn sem ekki geta það eigi
ekki að vera heimilt að spila knattspyrnu. Lítið bar á David Ditszl í dag en alltaf nær hann að skapa sér eitthvað úr litlu.
Ótrúlega góður að fá hann í lappir og halda boltanum með mann í bakið, miðjan þarf bara að passa sig að vera
fljótari að koma upp til að þessi flotti kostur Davids nýtist liðinu enn betur. Að lokum vil ég nefna einn stóran plús hjá KA
liðinu í dag en hann er sú að liðið hefur efni á að taka Dan og David útaf en skora samt og halda áfram að sækja. Þeir
Hallgrímur og Orri koma inná og er ljóst að þar eru á ferð strákar sem munu bara eflast og styrkjast enn meira með meiri spiltíma. Einnig
á liðið inni Stein Gunnarsson og sé hann heill er það liðinu mikill liðsstyrkur.
- Davíð Már Kristinsson
- Mynd með frétt Fótbolti.net/Þórdís Inga Þórarinsdóttir