Umfjöllun: Víkingur R. - KA

Það var sól og blíða í Fossvoginum í dag og aðstæður til að spila knattspyrnu frábærar. Aðalvöllur þeirra Víkingsmanna iðagrænn og nýtískulega sleginn og 1000 manna stúkan þeirra er eitthvað sem maður mundi ekki leiðast að sjá vera komna á hólinum á KA svæðinu.

Sandor (F)

Túfa - Janez - Þórður - Kristján P.
Stubbs - Guðmundur Ó - Haukur Hi. - Hallgrímur
Andri Fannar
Dean Martin



Varamenn: Orri Gústafsson(Haukur Hinriks, 59. mín), Davíð Rúnar Bjarnason, Steinn Gunnarsson, Sigurjón Fannar Sigurðsson, Magnús Blöndal(Hallgrímur, 71. mín)

Umfjöllun á Fótbolta.net


Ég var gríðarlega ánægður með hvernig KA menn komu inn í leikinn. Það var mikið líf í mönnum og menn greinilega staðráðnir í að gefa ekki tommu eftir. Eðlilega hefur dapurt gengi og sannfærandi tap á móti Thor haft sitt að segja að menn voru loksins komnir með blóð á tennurnar og hungraðir að fara að sýna eitthvað.

KA menn héldu boltanum meira fyrstu mínúturnar og sýndu fínan samleik fyrstu mínúturnar. Það dró þó ekki til alvöru tíðinda fyrr en á 9 mínútu þegar Víkingar fengu sannkallað dauðafæri en Sandor varði vel

Á 14 mínútu fengu KA menn síðan dauðafæri sem lið sem hefur lítið sjálfstraust, er í markaþurrð OG í fallbaráttu VERÐUR að nýta. Dean lék þar vel á vinstri bakvörð Víkinga og kom með cross inn í teiginn þar sem boltinn fór framhjá 1 leikmanni Víkings og einum leikmanni KA og endaði síðan á Hallgrím Mar sem lét markmann Víkings verja frá sér. Hallgrímur hafði nægan tíma en fyrsta snertingin einkar slæm hjá honum og skotið beint í belginn á annars góðan markmann Víkings. Eftir þetta sagði ég strax við sjálfan mig að þetta yrði líklega besta færi liðsins í leiknum sem reyndist síðan vera raunin.

Á 23 mínútu fékk Dan Stubbs hinsvegar ágætis hálffæri  þegar hann lék ágætlega á 2 leikmenn Víkings en mjög svo máttlaust vinstri fótar skot fór í hliðarnetið

Víkingar geystust síðan stuttu seinna upp völlinn og boltinn barst til Helga Sigurðssonar sem var kominn í úrvalsfæri en Sandor sá vel við honum og varði.

Á 39 mín fengu Víkingar síðan afar ódýra aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og á 44 mín fengu þeir úrvalsfæri. Í báðum tilvikum fór boltinn rétt framhjá.

0-0  í hálfleik. KA menn, eins og oft áður, meira með boltann en ANSI brothættir til baka og að fá  þónokkuð af hröðum sóknum á sig en Sandor oft að bjarga. Gömul saga og ný.

Strax á 2 mínútu gerist síðan atvik sem var klárlega vendipunktur leiksins vil ég meina. Andri Fannar á góða stungusendingu inn fyrir inn á vinstri bakvörð KA manna, Kristján Pál sem var kominn fremstur en var felldur inn í vítateig af aftasta manni Víkings. Að mínum dómi átti dómari leiksins klárlega að benda á vítapunktinn og gefa aftasta varnarmanni Víkings sem braut á Kristjáni, beint rautt spjald en ekkert dæmt.

Víkingsmenn keyra síðan strax upp sem endar með því að Helgi Sigurðsson og kemur liðinu í 1-0. Ef að svona samverkandi leikþættir eru ekki dæmigerðir fyrir lið í ströggli og fallbaráttu þá veit ég ekki hvað.

KA menn misstu eilítið móðinn við röð neikvæðra atvika og Víkingar gengu síðan á lagið og settu annað mark 10 mínútum sem spratt upp frá því að Túfa datt.  Aftur var þar að verki Helgi Sigurðsson sem annars gat lítið sem ekkert í leiknum. Hann kláraði þó 2 af 3 færum sem hann fékk í leiknum og menn sem skora og nýta færin sín verða ekki gagnrýndir frekar.

Eftir þetta var leikurinn búinn. Víkingar minnkuðu tempóið, drógu sig aðeins aftar á völlinn og sigldu þessu í höfn. Pressulausir KA menn sýndu þó, eins og svo oft áður, fínt spil út á velli eftir að vera komnir 2-0 undir. Þeir fengu náttúrulega meiri tíma á boltanum en margir stuttir þríhyrningar og ágætis samleikur sást en, eins og svo oft áður, var bitið á síðasta þriðjung vallarins jafn mikið og á gömlum og mikið notuðum svissneskum vasahníf.

Knattspyrnuleg geta KA manna er ekki minni en hjá Víkingum tel ég. En munurinn á KA og Víking er að Víkingar hafa 4 mjög sterka leikmenn í öftustu línu sem hafa ekki stigið feilspor í síðustu leikjum og haldið hreinu. Þeir eru hraðir, eru í toppformi og eru með mjög gott stöðumat.  Þeir freistast ekki til að fara úr stöðunni því að þeir vita að það gæti léttilega komið í bakið á þeim. Einnig nýta Víkingar færin sín. Að öðru leyti tel ég getu liðanna á pari. Það er mín skoðun og henni verður ekki breytt. Annað liðið er í fallbaráttu en hitt á toppnum. Smáatriðin skipta miklu máli í íþróttum, það er nokkuð ljóst.

KA hefur hinsvegar á að skipa mörgum leikmönnum sem halda bolta vel og skila honum líka vel af sér út á velli en það er bara ekki nóg. Þessi einfaldi leikur snýst um að halda markinu hreinu og skora. Það er liðið ekki að gera. Vörnin er hæg og AFAR brothætt og hefur verið að fá mikið af skyndisóknum á sig. Einnig hefur liðið verið lélegt að verjast föstum leikatriðum en mér fannst ég sjá bragarbót á því í þessum leik. Sandor hefur reddað vörninni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en það er ekki alltaf hægt að treysta á að hann verji 3-4 dauðafæri í leik.

Liðið VERÐUR að fara að þétta vörnina ætli það sér að koma uppúr fallbaráttunni. Þó það kosti að menn standi í korter-20 mínútur á æfingum og verði í leiðinlegum varnar tilfærslu æfingum þá bara verður svo að vera. Einnig verður liðið að fara að nýta þessi fáu færi sín.

Nú reynir á Dean að vera þolinmóður, jákvæður og reyna að búa til léttleika og gleði í hópnum. Einnig myndi liðið hafa gott af því að sitja nokkra leikmannafundi saman eftir æfingar og spjalla saman í ró og næði hvað mætti betur fara og hvernig sé best að snúa þessu við. Þá reynir líka á leikmenn að vera ekki bara gagnrýnir heldur líka sjálfsgagnrýnir. Það klárlega betri og skemmtilegri leið að snúa genginu við heldur en að blóta á æfingasvæðinu og taka kannski einhverjar hlaupaæfingar án bolta. Ég er alls ekki að segja að það sé verið að gera það en þið skiljið hvað ég á við.