Umfjöllun og viðtal: Yfirburðasigur á Tindastól

Brian skoraði gullfallegt mark í lokin.
Brian skoraði gullfallegt mark í lokin.

Fyrr í kvöld tók KA á móti Tindastóli en greinilegt var að margir tókur spurningabombuna í sjónvarpinu (Gettu betur) fram yfir leikinn því fámennt var í Boganum, svo sem skiljanlegt er, enda lokaþáttur bombunnar, en nóg um það.


Frá fyrstu mínútu höfðu KA menn mikla yfirburði. U-17 landsliðsmaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson, leikmaður KA, sem fæddur er 1995,  fékk tækifæri í byrjunarliðinu og átti hann frábæran leik og byrjaði á góðu færi strax á 2. mínútu en markvörður Stólanna var vel vakandi. Ævar fann svo leið í markið á 9. mínútu þegar hann skallaði laglega fyrirgjöf frá Hallgrími Mar í netið og KA komið í 1-0.


Tindastóll fékk ekkert færi í fyrri hálfleik og var liðið mest á sínum vallarhelmingi og átti í stökustu erfiðleikum með vel spilandi lið KA, þó náðu KA-menn ekki að skapa sér eins mörg færi og yfirburðirnir voru í raun.


Varnartröllið Elmar Dan byrjaði frammi hjá KA í dag en hann setti mark sitt á leikinn á 43. mínútu. Eftir frábært þríhyrningsspil við Jóhann Helgason slapp Elmar í gegn og vippaði yfir markvörð Tindastóls og KA komið í 2-0, ekki afgreiðsla sem sést oft frá miðverði af gamla skólanum.


Seinni hálfleikur var nákvæmlega eins og sá fyrri og var ekki nema 10 mínútna gamall þegar Jóhann Helgason fékk boltann vinstra megin fyrir utan teig og skaut á markið, boltinn small í stönginni og þaðan  rakleitt í markið, frábært mark frá Jóhanni og KA komið í 3-0.


KA-menn héldu áfram að sækja og ætluðu greinilega að bæta við en það voru hins vegar Stólarnir sem fengu upplagt tækifæri til að minnka muninn á 70. mínútu þegar Fannar Freyr Gíslason komst í gegn og framhjá Fannari markverði KA en óheppnin var með honum og hann smellti boltanum í þverslána og yfir, stuttu áður hafði Fannar Freyr fengið gult spjald fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að dómari leiksins hafði flautað og reyndist það dýrt fyrir framherjan unga.


Á 83. mínútu komust KA-menn upp kantinn og átti Kristján Freyr Óðinsson flotta fyrirgjöf beint í fæturnar á Gunnari Örvari Stefánssyni sem kláraði vel og var þetta hans fyrsta mark fyrir meistaraflokk, en hann er fæddur 1994.


Títtnefndur Fannar Freyr fékk síðan rauða spjaldið á 87. mínútu fyrir heldur heimskulegt athæfi, en hann ákvað að reyna að tækla Ómar Friðrikson aftan frá þegar hann átti engan séns í boltann. Þetta var að sjálfsögðu hans annað gula spjald í leiknum og fékk hann því smá forskot í sturtu.


Það var svo Skotinn Brian Gilmour sem rak síðasta naglann í kistu Tindastóls þegar að hann smellti aukaspyrnu rétt fyrir utan teig beint upp í "samúel" eins og ekkert væri sjálfsagðara og heyrðust honum til heiðurs í skoskum sekkjapípum leika skost þjóðlag í hátalarakerfi Bogans.


Þar við sat og KA vann sanngjarnan 5-0 sigur á frekar lánlausum Tindastólsmönnum.


Maður leiksins: Ævar Ingi Jóhannesson

Viðtal við Gulla þjálfara KA eftir leikinn hér að neðan