Það var frekar fámennt á vellinum í kvöld þegar liðsmenn Aftureldingar tóku á móti KA mönnum á Varmárvelli.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru þó einkar góðar. Logn, hiti á bilinu 7-10 gráður og völlur þeirra Aftureldingarmanna
í flottu standi og greinilega að koma mjög vel undan vetri.
Afturelding 0 - 0 KA
Sandor
Haukur H. - Norbert - Sandor - Hjalti M.
Guðmundur Ó. - Túfa - Arnar M. - Dean M.
Andri F.
Disztl
Varamenn: Magnús Birkir Hilmarsson, Orri Gústafsson(Dean M.), Bjarni Pálmason(Guðmundur Óli), Steinþór Már,
Þórður Arnar(Sandor Forizs).
Staðan í deildinni
Umfjöllun á Fótbolta.net: Stöngin út hjá KA-mönnum
Leikurinn byrjaði heldur rólega og var jafnræði með liðunum. En á 7. mínútu fékk Rannver Sigurjónsson, einn af sprækustu spilurum
Aftureldingar manna, boltann á hægri kantinum, tók stuttan sprett og kom með fyrirgjöf fyrir sem Sandor Matus misreiknaði og munaði minnstu að Aftureldingar
menn næðu að gera sér mat úr þessu. Óalgeng sjón hjá þessum sterka Ungverja sem er einn af frambærilegustu markmönnum
Íslenskrar knattspyrnu í dag og ávallt öruggur í sínum aðgerðum.
Við þetta efldust Mosfellingar og við tók leikkafli þar sem þeir voru ögn sterkari aðilinn. Þeir pressuðu KA menn stíft nokkuð ofarlega
á vellinum, náðu fíni spili á köflum en náðu þó aldrei að ógna marki KA manna nægilega mikið. Vörn KA manna
með þá Norbert í hafsentinum og Túfa djúpan á miðjunni , sem báðir áttu flottan leik, komu í veg fyrir það. Ekki
var það sama hægt að segja um leikmenn KA sem spiluðu framar á vellinum. Það var algjör hending ef þeir náðu 3-4 sendingum á
milli manna í fætur og þjónustan sem David Ditzsl í framlínunni fékk var engin. Menn alltof taugaveiklaðir og undirritaður upplifði
þetta sem sambland af stressi við hrópum og köllum frá Dean þjálfara og óvæntri hápressu frá UMFA sem kom leikmönnum
algjörlega í opna skjöldu.

Á 22 mín fékk Dean boltann á vinstri kantinum, þar sem hann byrjaði í dag, kom með fallega fyrirgjöf til hægri á Arnar Má sem
framlengdi hann síðan inn í teig þar sem munaði engu að David Ditzsl næði til knattarins en varnarmaður UMFA manna náði að bægja
hættuni frá og í horn. Dean tók síðan hornið, UMFA menn skalla frá og boltinn barst síðan til Rannvers Sigurjónssonar sem æddi
upp í hraðaupphlaup og átti síðan skot sem fór vel yfir.
Á 30 mínútu virtist svo vera að Dean hafi fengið tak í lærið og bað hann umsvifalaust um skiptingu sem Steingrímur Örn varð strax
við. Inn á kom Orri Gústafsson sem átti fína innkomu. Barðist vel og átti sína spretti. Efnilegur strákur þar á ferð
sem mun bara bæta sig enn meira með fleiri spilmínútum.
Á 35 mínutu átti Andri Fannar ágætt skot á markið sem fór framhjá. Andri hefði þar ekki átt að hlusta á samherja
sína sem örguðu á hann að skjóta heldur fara mun nær sem hann hafði klárlega tíma og pláss til. Þarna voru KA menn byrjaðir
að komast mun meira inn í leikinn, ná fleiri sendingum, mun rólegri á boltanum og gátu „klappað“ honum meira og betur. Einnig var greinilegt
að UMFA menn voru fljótir að þreytast eftir mikla keyrslu og hápressu á fullu gasi í byrjun leiks. Greinilegt að form lærisveina Ólafs
Ólafssonar, þjálfara UMFA, mætti vera mikið mun betra.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks kom Hjalti aðeins upp úr vinstri bakverðinum og kom með frábæra fyrirgjöf utan af kanti inn í teig UMFA manna
sem aðeins munaði hársbreidd að David Ditzsl næði að skalla en varnarmaður UMFA stökk aðeins hærra og stangaði honum burt frá
hættusvæðinu. Ekkert fleira markvert gerðist og markalaust þegar Hans Scheving flautaði til loka fyrri hálfleiks.
Það var greinilegt að Dean Martin bauð upp á hárþurrkuaðferðina í hálfleik því KA menn mættu mun sprækari í
seinni hálfleik og Aftureldingar menn gjörsamlega heillum horfnir, úthaldslitlir og leikur þeirra algjör katastrófa. Haukur Heiðar fékk gott
skallafæri á 50 mín sem fór yfir, gamli KA maðurinn og markvörðurinn Kjartan Páll Þórarinsson varði síðan í
tvígang vel frá leikmönnum KA stuttu seinna.
Á 67 mínútu fengu Aftureldingar menn síðan sitt besta færi í leiknum og voru KA menn stálheppnir að lenda ekki undir. Þar
átti leikmaður nr. 30 skot sem fór hárfínt framhjá og KA menn gátu andað léttar. Það hefði svo sannarlega verið
óverðskuldað og gegn gangi leiksins hefðu þeir sett hann þarna.
Síðustu 20 mínúturnar voru síðan eign KA manna frá A-Ö. Þeir voru líklega ca. 80 % með boltann á þeim leikkafla og alveg
deginum ljósara að þeir eru allir í mun betra líkamlegu formi en liðsmenn Aftureldingar. Þessi 20 mínútna kafli sýndi líka
hvað loftháða þolið er mikilvægt í knattspyrnu því þegar menn eru þreyttir og ekki með ferska fætur er ákaflega
auðvelt að gera byrjendamistök sem sumir liðsmenn Aftureldingar gerðu sig seka um.
Orri Gústafsson átti síðan skot í innanverða stöngina á 78 mínútu eftir vel útfærða sókn KA manna og stuttu
seinna átti Norbert Farkas hörkuskot sem small hátt í stönginni svo að heyrðist alla leið út á Tungubakka. UMFA menn stálheppnir
þarna og lukkudísirnar aldeilis ekki á okkar bandi.
Áfram héldu KA menn að sækja stíft og UMFA menn lágu mjög aftarlega til baka og hreinlega tjölduðu í sínum eigin vítateig. En
allt kom fyrir ekki og smámunasamur dómari leiksins, Hans Scheving, flautaði til leiksloka. KA menn gengu svekktir til búningsherbergja en UMFA menn gátu
prísað sig sæla með 1 stig eftir þennan leik.
Niðurstaðan 1 stig eftir leik kvöldsins. 7 stig eftir 5 leiki, 3 mörk skoruð og 1 fengið á sig.
Vörnin er í toppmálum með besta markmann deildarinnar fyrir aftan sig. Bakverðirnir báðir fínir og þá sérstaklega Haukur Heiðar
sem er fljótur og fylginn sér og vílar sér ekkert undan því að setja hausinn á undan sér og vaða upp kantinn. Norbert mjög traustur
og fluglæs á leikinn. Rétt fyrir framan hann er síðan Túfa í því hlutverki sem hann sinnir sem best, að hirða upp alla lausu boltana
og dreifa þeim á kantmennina. Arnar Már vinnur fullt af skallaboltum þrátt fyrir að vera ekki ýkja hár í loftinu og er fínn spilari.
Andri góður að fá hann í lappir og að spila boltanum og finna glufur sem kannski ekki allir aðrir sjá. Sóknarleikurinn og markaleysið
eðlilega eilítið vandamál. En ég er persónulega hrifinn af David Ditszl. Hann getur tekið vel við honum í lappir, skýlt honum og er alltaf
hættulegur í loftinu þrátt fyrir að skallatækni hans megi bæta eilítið. Vonandi að hann komist í betra líkamlegra stand
þegar líður á tímabilið og þá fara mörkin að detta inn. Svo vantar bara einhvern lítill og snöggan með honum (Orri
Gústafs?) sem væri duglegur að nýta sér eyður og glufur í vörninni. Þá myndu styrkleikar Ditszl nýtast liðinu mikið
mun meira.
- Davíð Már Kristinsson skrifar frá Varmárvelli






