19.06.2008
KA sótti úrvalsdeildarlið Breiðabliks heim í 32-liða úrslitum í leik sem hefði getað farið á hvorn veginn sem var.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru fallegar og Kópavogsvöllur skartaði sínu fegursta, veðrið með besta móti og áhorfendur alltof
fáir (197). Svo fór að Blikar skoruðu eina mark leiksins úr aukaspyrnu en þar var að verki hinn sterki framherji Prince Linval Reuben Mathilda á 37.
mínútu. Blikar því áfram í 16-liða úrslit.
Breiðablik - KA 1-0
Prince Linval Reuben Mathilda (37.)
KA menn spiluðu 4-5-1 sem umbreyttist oft á tíðum yfir í 4-4-1-1. Liðið var þannig skipað að Sandor Matus var í markinu, í hægri
bakverði var Haukur Heiðar, miðverðir þeir Norbert og Janez, vinstri bakvörður Ingi Freyr. Á miðjunni voru fyrir miðju Túfa og Arnar ásamt
Guðmundi sem var þeirra fremstur. Á köntunum voru Sveinn, á þeim hægri, og Steinn, á þeim vinstri. Fremstur var Almarr.
Á bekknum voru Hjalti, Steinþór, Andri Fannar, Þórður Arnar, Baldvin, Magnús og Orri.
Leikurinn byrjaði heldur rólega og voru liðsmenn Blika þó heldur hættulegri fyrstu mínúturnar. Á 12. mínútu átti Steinn
góða rispu upp vinstri kantinn og Guðmundur Óli ágætt skot sem Casper, markvörður Breiðabliks, varði vel. Blikarnir héldu boltanum vel
án þess að skapa sér færi fyrstu 20 mínútur leiksins. Á 18. mínútu komst Almarr vel upp völlinn og náði horni eftir
góðan sprett en ekkert kom úr því horni.
Á 21. mínútu náðu okkar menn ágætri sókn og leit allt út fyrir að þeir væru komnir í gegn en þá
fór flagg línuvarðarins á loft. Munaði þar einhverjum örfáum sentimetrum og ljóst að heppnin var ekki með í för þar.
Næstu 10 mínútur lágu Blikar á KA mönnum og pressuðu mun stífar en áður. KA menn sóttu þó hratt með háum
sendingum þegar þeir fengu boltann og úr einni þannig tókst Almarr að stinga Srdjan Gasic Blika af en Srdjan þessi braut klaufalega af sér og uppskar
fyrir það gult spjald á 25 mínútu. Áður, í byrjun leiks, hafði Nenad Petrovic Bliki fengið gult spjald.
Á 27. og 28. mínútu áttu Blikar góð færi en Sandor varði fyrri boltann frá Marel Baldvinssyni og sá síðari fór
í markstöng.
Á 35. mínútu komst Almarr í hörkufæri en náði ekki skoti. Í kjölfarið jókst pressa Blika, en hún hafði vaxið
jafnt og þétt í fyrri hálfleik. Á 36. mínútu eru KA menn að spila boltanum á eigin vallarhelmingi sín á milli. Á
klaufalegan hátt missa KA menn boltann og Blikar ná að komast upp að teignum. Við teiginn fellur svo Marel Baldvinsson. Fréttaritari var ekki í
aðstöðu til að dæma um hvort brot var að ræða þar en Eyjólfur Kristinsson, góður dómari leiksins, var ekki í nokkrum vafa og
dæmdi aukaspyrnu. Blikar stilla upp boltanum, KA menn fara í varnarvegginn og að boltanum gengur rólega Prince Linval Reuben Mathilda og hann smellir boltanum framhjá
varnarveggnum í autt hornið. Gott skot og markið staðreynd. 1-0 fyrir Breiðablik.
Blikar áttu stórsókn í kjölfarið og voru óheppnir að bæta ekki við marki á 38. mínútu. Guðmundur átti
þó gott skot í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem fór yfir markið. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og gengu leikmenn
til búningsklefa.
KA menn byrjuðu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri. Blikar sóttu og pressuðu án þess að skapa sér hættuleg færi.
Þeir náðu þó skoti á mark eftir fyrirgjöf á 55. mínútu sem Sandor varði mjög vel.
Á 67. mínútu átti Prince hörkuskot sem endaði í hliðarnetinu. Á sömu mínútu skiptu KA menn um leikmann er Haukur Heiðar
fór af velli og Andri Fannar kom inná. Túfa fór þá aftur í bakvörðinn og Andri framarlega á miðjuna. Á 77.
mínútu skipti Guðmundur útaf fyrir Orra.
Fátt markvert gerðist seinustu 20 mínútur leiksins og voru áhangendur KA manna að verða vonlitlir þegar að leikmenn blésu til sóknar
seinustu mínúturnar. Hættulegasta færið átti Norbert Farkas eftir fyrirgjöf Andra Fannars en Casper varði boltann vel. KA menn fengu nokkrar hornspyrnur
seinustu mínúturnar en færin létu á sér standa þó vonirnar hafi verið miklar þangað til lokaflautan gall. Áður en
flautan gall, nánar tiltekið á 85. mínútu kom Þórður inná fyrir Svein.
Á 92. mínútu leiksins fékk svo einn Blikinn dauðafæri þegar hann komst framhjá Sandor en náði ekki að leggja fyrir sig boltann og
varnarmenn björguðu í horn.
Leikurinn var furðujafn og verður að segjast eins og er að þessi hefði alveg getað farið á báða vegu. Getumunur liðanna var í
það minnsta ekki sjáanlegur og ekki augljóst af spilamennskunni hvort liðanna væri að spila í efstu deild. KA menn spiluðu boltanum vel sín
á milli, vörðust vel og tóku vel á Blikunum þegar á þurfti. Var sérstaklega gott að sjá að varnarleikurinn var öruggur og
markvörðurinn, raunar eins og alltaf, stjórnaði vel. Miðjumennirnir sóttu vel og hratt með boltann en auðvitað er alltaf erfitt að spila gegn liði
sem er deild ofar og fyrirfram betra á pappírunum. Almarr var í erifðu hlutverki einn fremst - oft gegn fjórum varnarmönnum - en leysti það oft vel
með snöggum sprettum sem brutu upp vörnina. Með heppni hefði einn þessara spretta getað endað með marki og staðan gjörbreytt. Tapið alls ekki
afgerandi og verði spilamennskan og baráttan eins og í þessum leik á að vinnast sigur gegn Leikni í næsta leik, á Akureyrarvelli, á
sunnudaginn kl 16.
Bragi R. Axelsson skrifar af Kópavogsvelli