David gerði sér lítið fyrir og skoraði 3, hér er hann í baráttuni í dag
Það voru hátt í 20 áhorfendur mættir á Kópavogsvöll þegar flautað var til leiks HK og KA á lokadegi
Íslandsmótsins klukkan 14:00. Fyrir leik voru HK-ingar búnir að missa af möguleikanum að komast upp um deild og hafði því að litlu að keppa
öðru en að halda þriðja sætinu í deildinni líkt og KA sem gat hæst komist í 4.sæti
HK 2 - 3 KA:
0-1 David Disztl ('5)
1-1 Stefán Jóhann Eggertsson ('17)
1-2 David Disztl ('19)
2-2 Stefán Jóhann Eggertsson ('50)
2-3 David Disztl ('70)
Leikurinn fór fjörlega af stað á hundblautum vellinum og fyrsta markið lék dagsins ljós strax á 5. mínútu og voru það gestirnir
í KA sem gerðu það. David Disztl og Arnar fyrirliði KA manna léku þá skemmtilegt þríhyrningaspil fyrir framan vítateig HK-inga sem
hleypti Disztl einum í gegn og lagði hann boltann auðveldlega framhjá Gunnleifi í HK markinu, 0-1.
Næstu mínútur eftir markið héldu KA menn áfram að vera hættulegri með Dean Martin og David Disztl í hörkuformi á
Kópavogsvelli. Bæði Dean Martin og Andri Fannar Stefánsson voru nálægt því að sleppa í gegn en HK-ingar sluppu fyrir horn.
Á 17. mínútu jöfnuðu hins vegar HK menn þegar þeir áttu laglega sókn. Bakvörðurinn Davíð Magnússon komst upp
hægri kantinn og átti góða fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Rúnar Már skallaði boltann út á Stefán
Jóhann Eggertsson sem skoraði með hnitmiðuðu skoti niðri í fjær hornið framhjá varnarmönnum og markmanni KA manna Sandor Matus.
En Adam var ekki lengi í paradís því tveimur mínútum seinna komust KA aftur yfir og sem fyrr voru að verki tveir bestu menn vallarins Dean Martin og David
Dizstl. Dean fékk boltann útá hægri kannti á eigin vallarhelming og virtist lítið í spilunum. Hann gefur þá líka þessa
frábæru stungusendingu innfyrir og eftir mikið kapphlaup David Disztl við varnarmenn HK þá þurfti Disztl ekki annað en að reka stóru
tánna í boltann til þess að koma KA mönnum aftur yfir, 1-2.
Það sem eftir er af fyrri hálfleik voru KA menn allan tímann líklegri og virtist áhugi HK manna bæði inná
vellinum og uppí stúku fyrir leiknum vera lítill. Fengu KA nokkra góða möguleika á marktækifærum en sóknirnar stoppuðu flestar
á Gunnleifi markmanni HK-inga. Þar á meðal komst Andri Fannar einn innfyrir eftir gott samspil en Gulli varði vel í tvígang og kom í veg fyrir að
forystan yrði meiri en eitt mark í hálfleik.
Rúnar Páll þjálfari gerði síðan tvær breytingar á slöku liði HK í hálfleik þegar hann tók út tvo af
leikreyndari leikmönnum liðsins, Ásgrím Albertsson og Þórð Birgisson og setti inn ungmennin Damir Muminovic og Zlatko Krickic.
Breytingarnar hresstu uppá leik HK-liðsins til að byrja með og skilaði það sér með marki á 49 mínútu þegar Stefán
skorði sitt annað mark í leiknum. Davíð bakvörður komst þá aftur upp kantinn rétt eins og í fyrra markinu, gaf fasta fyrirgjöf
á turninn Stefán sem stýrði boltanum af pönnunni í markið. Staðan orðin 2-2 og leikurinn opinn og skemmtilegur.
Nokkrum mínútum seinna átti HK horn þar sem Stefán Jóhann skallar í slá eftir að hafa hoppað manna hæst í teignum.
Stefán greinilega hungraður í þrennuna en hann var lang sprækasti leikmaður HK-inga í leiknum.
Þrjú spjöld litu dagsins ljós í leiknum frá góðum dómara leiksins Hans Scheving. Hafsteinn Briem og Damir hjá HK og Arnar Már
hjá KA allir fyrir brot. Orri Gústafsson kom síðan inná í lið KA í stað Inga Frey á 65 mínútu leiksins.
Það voru hins vegar KA menn sem tryggðu sér verðskuldað sigurinn í leiknum þegar David Disztl fullkomnaði þrennuna á 70 mínútu
með því að skora með skalla eftir fyrirgjöf fram engum öðrum en Dean Martin. Dean Martin mataði David hvað eftir annað í leiknum með
því að fara upp kantinn óáreittur og var samvinna þeirra til fyrirmyndar í leiknum.
Eftir markið róaðist leikurinn en þó virtust KA menn allan tímann vera með leikinn í höndum sér. KA sendu inn Hauk Hinriks og Norbert Farkas
og tóku út Sandor Forizs og David Diszl. Hjá HK kom Callum Bett inná undir lok leiks en sú skipting skilaði engu.
Á seinustu mínútu leiksins meiddist síðan landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson eftir samstuð við KA mann og þurfti að
ljúka leik.
Þar sem HK voru búnir með skiptingarnar fór útileikmaðurinn og markaskorarinn Stefán Jóhann sem er lítið stærri en Makelele í
markið. Hann kvaddi þar með möguleikann á þrennunni en hélt þess í stað hreinu þar sem eftir lifði leiks.
KA menn fögnuðu því sanngjörnum 3-2 sigri á Kópavogsvelli í bleytunni í dag.
- Þórhallur Siggeirsson

-Andri Fannar sækir að þrem HK-ingum

-KA menn fagna þriðja markinu