Umfjöllun: Fjarðabyggð - KA (Með myndum)

Fjarðarbyggð tók á móti okkar mönnum í kvöld í ágætis veðri á Eskifirði. Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og voru okkar menn sterkari að öllu leiti á upphafsmínútunum.

Fjarðabyggð 0 - 3 KA
0-1 Orri Gústafsson
0-2 Guðmundur Óli Steingrímsson
0-3 Sjálfsmark mótherja

Sandor

Haukur H. - Janez - Þorvaldur - Hjalti M.
Orri G. - Andri F. - Arnar M. (F) - Hallgrímur
Guðmundur Ó.
Bjarni P

Varamenn: Steinþór Már Auðunsson, Sigurjón Fannar Sigurðsson, Davíð Rúnar Bjarnason, Haukur Hinriksson(Orri Gústafsson), Jakob Hafsteinsson.

Umfjöllun á Fótbolta.net
KA-menn voru greinilega staðráðnir í að berjast fyrir stigunum þremur í kvöld og sýndu það í verki á vellinum með mikilli baráttu, voru á undan í flesta bolta og unnu flest einvígi. KA fengu fyrstu færin og var um sannkölluð dauðafæri að ræða. Tvisvar komust sóknarmenn okkar einir inn fyrir vörn heimamanna og fengu einnig dauðafrían skallabolta á markteig en frábær markvörður þeirra að austan bjargaði því sem bjargað var.
KA-menn voru allsráðandi í fyrri hálfleik og heimamenn að sama skapi frekar daprir, en þó áttu þeir sína spretti. Um miðjan fyrri hálfleik dróg til tíðinda þegar Andri Fannar læddi boltanum snyrtilega með meistaralegum hætti í gegnum flata vörn heimamanna og Orri átti ekki í vandræðum með að setja boltann í netið fram hjá annars frábærum markverði heimamanna. 0 – 1.
Leikurinn fjaraði svo út í fyrri hálfleik að undanskilinni undarlegri aukaspyrnu sem dómari leiksins dæmdi á KA-menn á stórhættulegum stað en ekkert varð úr spyrnunni þar sem Sandor greip vel inní.

Heimamenn komu mun sterkari til leiks í síðari hálfleik og ætluðu greinilega að gera betur en í þeim fyrri. KA-menn virtust vera hræddir við að sækja og lögðust aftur í skotgrafirnar, náðu ekki upp sama góða spilinu og í þeim fyrri og leifðu heimamönnum að leika sín á milli óáreittum. Það var því gegn gangi leiksins þegar KA-menn skoruðu sitt annað mark í leiknum eftir klafs í vítateig Fjarðarbyggðar. Þar var að verki Guðmundur Óli sem hafði fært sig út á hægri kantinn þegar þarna var komið sögu, í fjarveru spilandi þjálfara KA-manna, Dean Martin, sem var í banni, 0 - 2.
KA-menn gerðu svo út um leikinn í uppbótartíma þegar boltinn barst til Hauks Heiðars á hægra vítateigshorninu sem var ekki að tvínóna við hlutina og hamraði á markið en boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og í netið, 0 – 3.
Ágætur dómari leiksins leyfði heimamönnum að taka miðjuna og flautaði svo til leiksloka.
Góður leikur hjá KA-mönnum sem komust með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar á markatölu. Allir leikir eru úrslitaleikir hér eftir ef liðið stefnir upp í ár. Næsti úrslitaleikur er á fimmtudaginn eftir viku á heimavelli gegn Aftureldingu. Skyldusigur og leikurinn verður að vinnast. Allir á völlinn og áfram KA!

- Ólafur Arnar Pálsson ritar af Eskifjarðarvelli
- Myndir: Austurglugginn/Gunnar