Umfjöllun: Haukar - KA

Nú rétt í þessu var að ljúka leik okkar KA manna gegn Haukum á Ásvöllum. KA og Haukar hafa mæst tvisvar á undanförnum árum á Ásvöllum, ávallt hefur rignt og ávallt hafa bæði lið skorað sitthvort markið. Á því varð þó ein breyting - Haukarnir skoruðu ekkert. Sigur í útileik 0-1 gegn liði sem fyrirfram mátti búast við erfiðari leik gegn.

Haukar - KA 0 : 1

Arnar Guðjónsson '26

Fyrir leikinn voru Haukarnir í þriðja sæti með 24 stig en við KA menn nokkrum sætum neðar með 16 stig eftir 14 leiki. Fyrir þennan leik hafði einungis einn útileikur unnist - en raunar var hann leikinn á Akureyrarvelli gegn félögum okkar norðan við Glerá. Því mátti búast við erfiðum leik gegn andstæðingum sem samkvæmt töflunni áttu að teljast sterkari. Okkar menn sýndu þó að slíkt telur ekki inná vellinum og voru oft mun betur spilandi en Haukarnir.


Aðstæður til knattspyrnuiðkunar á vellinum verða að teljast í lagi en ljóst að bleytan á gervigrasinu gerði leikmönnum í einhverjum tilfellum erfitt fyrir. Áhorfendur voru fjörlegir, trommuðu og studdu sitt lið. Heildarfjöldi áhorfenda hefur sennilega náð að fara hátt í hundraðið.

Liðinu var þannig stillt upp að Sandor var í markinu, Haukur Heiðar í hægri bakverði, Janez og Elmar í miðri vörninni og Hjalti í vinstri bakverði. Arnar og Norbert voru á miðri miðjunni með Tufa djúpann á miðjunni. Á köntunum voru þeir Dean, hægra megin, og Andri Júlíusson, vinstra megin. Raunar skiptu þeir svo um kanta í hálfleik. Spiluðu þeir nokkuð framarlega og þá sérstaklega Andri. Frammi var Gyula. Því miður er fréttaritara ekki kunnugt um hverjir hafi verð á bekknum en slíkt kemur fram í leikskýrslu KSI.is sem eflaust kemur inn á morgun föstudag.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og pressuðu KA menn Haukana stíft og raunar gekk sú pressa það vel að Haukarnir áttu í mestu vandræðum allan fyrri hálfleikinn að koma boltanum á samherja. Var það undantekning frekar en annað ef sendingar þeirra rötuðu ekki strax í fætur KA manna. Baráttan var góð til að byrja með og ljóst að menn voru komnir til að selja sig dýrt. Haukarnir fengu þó fyrsta alvöru færi leiksins þegar Denis Curic náði góðum spretti upp völlinn en Sandor varði vel í markinu.

Á 26. mínútu dró til tíðinda þegar að Andri Júlíusson fékk sendingu upp vinstri kantinn og lendir í barningi við varnarmann Hauka sem setur boltann út fyrir hliðarlínu um 25 m frá endalínu. Innkastið er tekið og úr þvögunni sem myndaðist kemur fyrirgjöf inn í teiginn sem Arnar nær að skalla, markvörður Hauka fleygir sér og nær að koma hönd í boltann en inn fer ágætur skalli Arnars. 0-1 og pressan sem sett er á varnarmenn Hauka er að skila mörgum auðveldum boltum. Okkar menn eru að búa til mikið af hálffærum.

Fjórum mínútum síðar kemur Dean á ferðinni upp kantinn, dregur í sig varnarmann en sér þá rétt í því staðsetningu varnarmanna Hauka, smellir því stungusendingu inn fyrir Guyla, sem var um 20 metrum framar en Dean, sem fer upp að hlið marksins en sendur boltann rétt framhjá úr góðu færi. Þarna hefði staðan vel mátt vera 0-2 en heppnin ekki á okkar bandi auk þess sem boltinn var á mikilli ferð og hugsanlega erfitt að hemja hann fyrir Guyla.

Þremur mínútum síðar átti Arnar hörkuskot sem ef hefði verð á markið hefði hafnað í netinu. Haukar fóru í sókn í kjölfarið og áttu fint skot rétt yfir. Þegar þarna er komið, rétt rúmlega hálftími liðinn af leiknum, eru KA menn farnir að sækja á fáum leikmönnum. Haukarnir beittu enn sem áður háum og löngum spyrnum.

Eftir 46. mínútur flautaði ágætur dómari leiksins, Gunnar Sv. Gunnarsson, til hálfleiks. Yfirleitt er fréttaritari nú ekki sérstaklega að ræða um lengd á hálfleikshléi en sér ástæðu til að minnast á óvenju langa kaffipásu á Ásvöllum þetta kvöldið. Af hverju það stafar veit fréttaritari ekki en lét það sér í léttu rúmi liggja. Ekki er þó víst að leikmönnum KA hafi þótt biðin jafnskemmtileg en liðið var komið þónokkru áður en Haukar til leiks í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur byrjaði fjörlega og eftir 55 sekúndna leik áttu Haukamenn stórsókn. Fyrirgjöf kom frá hægri en í kjölfarið fékk leikmaður Hauka boltann, hægra megin í markteig, leggur hann fyrir sig og tekur hörkuskot sem Hjalti Már nær að setja lappirnar vel fyrir. Nauðvörn í byrjun síðari hálfleiks og vel leyst hjá Hjalta.

Strax í kjölfarið átti Andri J. góðan sprett upp allan völlinn, lagði boltann vel á Guyla sem sett boltann vinstra megin við markið og rétt framhjá í úrvalsfæri.

Leikurinn var heldur tíðindalítill næstu mínúturnar og í raun allt til þess að um 2 mínútur voru eftir. Kom þá óvæntur kraftur í Hauka, sem til þess tíma virtust heldur áhugalausir, og sóttu þeir stíft seinustu mínúturnar eða allt til þess er dómarinn flautaði leikinn af. Varði Sandor raunar þrisvar á seinustu 15 mínútunum fín færi sem Haukarnir hefðu getað skorað úr.

Heilt yfir var spilamennskan fín. Dean var að gera ágæta hluti í fyrri hálfleik á hægri kantinum, Elmar stjórnaði varnarmönnunum vel, bakverðirnir héldu sínum mönnum og liðið í heild sinni pressaði á Haukana og gaf þeim ekki þumlung eftir. Baráttan var fín. Það eina sem sett verður út á liðið var að ekki væri keyrt á fullum hraða á Haukana eftir markið. Andri Júlíusson var að spila sinn fyrsta leik og er augljóslega snöggur og leikinn leikmaður. Verður vonandi hægt að ná sem allra mestu frá honum í sumar. Sama má raunar segja um Guyla sem er afskaplega duglegur að berjast um alla bolta.

Mikilvægur útisigur að baki og liðið nú með 19 stig í fimmta sæti. Næsti leikur er 12. ágúst gegn Njarðvík. Leikurinn hefst 19.15.

-brax