20.08.2009
Í gærkvöldi spiluðu okkar menn á móti Haukum í miklu roki á Ásvöllum í Hafnarfirði. Með sigri hefðu okkar menn
þokast eilítið nær toppnum en með tapi var ljóst að Haukarnir næðu átta stiga forskoti á okkar menn þegar einungis fimm leikir
væru eftir.
Undanfarin ár hefur undirritaður ekki mætt með regnhlífina þegar okkar menn spila á Ásvöllum og ávallt verið jafnsvekktur þegar
byrjar að rigna á vellinum. Regnhlífin veitti þó lítið skjól þar sem aðallega var um rok að ræða – og virtist vindurinn
hreinlega koma úr fleiri en einni átt. En nóg um það.
Haukar 3 – 1 KA
0-1 David Disztl ('27)
1-1 Hilmar Trausti Arnarsson (`34)
2-1 Pétur Sæmundsson (`39)
3-1 Ásgeir Ingólfsson (`53)
Lið okkar manna var þannig skipað: Sandor, Haukur, Hjálti, Þorvaldur Sveinn, Hallgrímur Már, Arnar Már, Dean, Bjarni, Andri Fannar, Janez, David
Varamenn: Ingi Freyr, Steinþór, Davíð, Haukur og Jakob.
Leikurinn byrjaði nokkuð fjöruglega og ljóst að vindurinn myndi hafa talsverð áhrif á leikinn enda fáir vellir á landinu þar sem
skjól er jafn takmarkað. Okkar menn byrjuðu á móti vindinum og sóttu öllu meir heldur en Haukarnir. Rétt er þó að taka fram að
nánast engin marktækifæri sköpuðust fyrstu 25 míntútrnar utan einnar marktilraunar Haukanna.
Á 27. mínútu fengu okkar menn aukaspyrnu á hægri kantinum. Dean tekur spyrnuna, sendir á fjærstöngina þar sem David Disztl er mættur.
David á fínan skalla að marki sem endaði í netinu. 0-1 og útlitið nokkuð gott. David var þarna að skora sitt 12 mark í 15 leikjum í
sumar.
Eftir markið þá sóttu Haukarnir töluvert meira en okkar menn og áttu nokkur ágæt færi. Sex mínútum eftir að David hafði
komið okkur yfir kemst einn Haukamanna í færi og fellur eftir smá samstuð við Hjalta Má. Dómarinn dæmir vítaspyrnu. Hvort um réttan
dóm eða ekki skal ekki rætt hér þar sem undirritaður sá ekki brotið nægjanlega vel en Morgunblaðið sér þó
ástæðu til að kalla vítaspyrnudóminn af “ódýrari gerðinni”. Góður dómari leiksins virtist þó handviss
í sinni sök. Úr vítaspyrnunni skoruðu Haukarnir og jöfnuðu leikinn. 1-1.
Örstuttu síðar fá Haukarnir aukaspyrnu úti á vinstri kantinum og senda fyrir. Einn Haukamanna snerti böltann lítið, en breytir samt um stefnu og
af honum fer boltinn í netið. Vindurinn átti án efa nokkurn þátt í þessu marki. 2-1.
Það sem eftir lifði hálfleiksins skiptust liðin á að sækja og áttu okkar menn gott færi á 45. mínutu þegar að David
náði að nýta sér varnarmistök Hauka en skotið var beint á markvörðinn. 2-1 í hálfleik.
Haukarnir byrju öllu betur síðari hálfleikinn. Sandor varði nokkrum sinnum ágætlega skot utan af velli. Þegar átta mínútur voru
liðnar af síðari hálfleiknum þá misstu okkar menn boltann klaufalega á miðjum velli, einn Haukamanna fer beint upp völlinn, enginn varnarmaður
kemur á móti og þegar hann er rétt utan við vítateig smellir hann boltanum í netið. Staðan því 3-1
Arnar Már komst nokkru seinna í ákjósanlegt færi einn á móti markverði Hauka en inn vildi boltinn ekki. Sama má segja um færi Inga
Freys nokkrum mínútum eftir fyrra færið.
Haukarnir áttu nokkur ágæt færi í kjölfarið og David átti svo aftur færi á lokamínútu leiksins. Lokastaða leiksins 3-1.
Ljóst að veðrið skipti töluverðu máli auk þess se Haukarnir voru að spila ágætlega. Á góðum degi eiga þó okkar
menn að geta betur.
- Bragi R. Axelsson skrifar