Þegar mætt var á leik okkar manna og Akurnesinga á Skipaskaga í gær var alveg ljóst að erfiður leikur ætti að vera fyrir höndum
þrátt fyrir verri byrjun Akurnesinga í deildinni en þeir hefðu kosið. Mótherjinn eitt sigursælasta lið landsins, aðstæður flottar,
veður með besta móti, þó skýjað og þó nokkrir áhorfendur mættir.
ÍA 1 - 1 KA
0-1 Arnar Már Guðjónsson ('8)
1-1 Arnar Gunnlaugsson ('21)
Sandor
Haukur H. - Norbert - Þórður - Hjalti M.
Dean M. - Túfa - Arnar M. (F) - Bjarni P.
Andri F.
Disztl
Varamenn: Guðmundur Óli Steingrímsson(David Disztl, 80. mín), Sandor Zoltan Forizs, Ingi Freyr Hilmarsson(Bjarni Pálmason, 46.
mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Orri Gústafsson.
Fyrir leikinn í gærkvöldi þá höfðum við KA menn spilað 14 leiki í deildarkeppninni við ÍA á Akranesvelli og 3 í
bikarkeppni KSÍ. Af þeim hafði einungis einn unnist en það var þann 18. júlí 1981 en sá leikur vannst 0-1 með marki frá Ásbirni
Björnssyni. Skv. Degi þann 21. júlí sama ár þá voru þetta fyrstu stigin sem Skagamenn töpuðu til okkar KA manna í deildarkeppni en
þá heimild hefur blaðið eftir Gunnari Níelssyni sem sagði í sama viðtali að leikurinn hafi unnist vegna dugnaðar og ódrepandi áhuga KA
manna.
En víkjum að leik gærkvöldsins. Undirritaður var vart búinn að koma sér fyrir í hópi Skagamanna þegar skæð sókn
heimamanna fór í gang. Sóttu þá Skagamenn af miklum krafti strax eftir 3-4 mínútur og fékk einn þeirra færi eftir fyrirgjöf en
skallaði framhjá. Þegar um sjö mínútur eru liðnar af leiknum náðu okkar menn sinni fyrstu sókn en þá kemur fyrirgjöf
frá Dean Martin og Arnar Már Guðjónsson, fyrirliði okkar manna, nær að skalla boltann í netið og kemur KA liðinu yfir. 0-1 eftir góða
byrjun okkar manna. Eflaust gerir það markið skemmtilegra fyrir Arnar að vera að skora gegn sínum gömlu félögum.
Eftir markið var nokkuð um miðjuþóf og lítið markvert gerðist þar til á 20. mínútu. Þá fékk fyrrum KA
maðurinn Andri Júlíusson boltann inn í vítateig og átti ágætt skot sem einn varnarmanna varði vel en frákastið barst til Arnars
Gunnlaugssonar sem gerði vel, tók einn varnarmann á og setti boltann í netið. Ágætt mark þeirra Skagamanna en nokkur vandræðagangur okkar
manna því vissulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir markið. 1-1.
Eftir jöfnunarmark Skagamanna gerðist fátt markvert það sem eftir lifði hálfleiks ef frá er talið gott færi Bjarna Pálmasonar, sem
átti fínan skalla sem varnarmaður Skagamanna varði vel á marklínu. Staðan í hálfleik því 1-1.
Okkar menn fengu greinilega hörku ræðu í hálfleik því á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins hefði staðan réttilega
átt að breytast í 1-3. Allt kom fyrir ekki þrátt fyrir góð færi Hauks Heiðars og Arnars Más en Haukur skaut yfir úr góðu
færi og Arnar Már átti gullfallegt skot í stöng. Spiluðu okkar menn boltanum vel á milli sín og öryggi var yfir vörninni í
síðari hálfleiknum og Skagamenn virkuðu bitlausir og sköpuðu sér fá tækifæri. Rétt er þó að taka fram að Sandor
varði einstaklega vel góðan skalla þegar um 19 mínútur voru eftir af leiknum.
Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og voru áhorfendur farnir að huga að heimför þegar Dean átti gott skot í
uppbótartíma en skotið hafnaði í slá. Nokkru síðar var flautað til leiksloka. 1-1 því lokastaðan. Undirritaðs beið
því bílför þar sem umræðuefnið var nánast eingöngu munurinn á stöngin út og stöngin inn. Segir það meira en
margt annað um niðurstöðu leiksins. Ef notuð eru orðin hans Gunna Nella í viðtalinu fyrir 18 árum þá er alveg ljóst að liðið
býr yfir miklum dugnaði og áhuga – en núna er bara að nýta sér þessa kosti og fara að hala inn stigunum. Okkar menn eru enn taplausir
í deildinni, tveim stigum frá öðru sætinu og einungis fimm frá efsta. Alveg ljóst að þetta gæti orðið spennandi sumar.
Næsti leikur okkar manna er á laugardaginn næsta gegn Víkingi í Ólafsvík. Hefst leikurinn kl 16.00 er um að gera að hvetja sem flesta KA menn
til að mæta.
- Bragi Rúnar Axelsson


