Umfjöllun: KA - Haukar (Með myndum)

Á fimmtudagskvöld fengu KA menn Hauka í heimsókn á Akureyrarvellinum. Það var frekar kalt í veðri með smá úrkomu inn á milli og völlurinn blautur og virkaði í fínu standi. Ágæt mæting var á leikinn þar sem Vinir Sagga voru fremstir í flokki eins og oft áður.
KA 1 - 0 Haukar
1-0 David Disztl (´72)

Sandor

Haukur H. - Norbert - Þórður - Hjalti M.
Guðmundur Ó. - Túfa - Arnar M.(F) - Orri G.
Andri F.
Disztl

Varamenn:Ingi Freyr Hilmarsson, Bjarni Pálmason(´73, David Dizstl), Dean Martin(’45, Orri Gústafsson), Steinþór Már Auðunsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson.

Fyrir leikinn í dag sátu Haukarnir á toppnum með þrettán stig, en KA menn í því fimmta með sjö stig. Dean gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá síðasta leik gegn Aftureldingu, Orri Gústafsson fékk tækifæri í byrjunarliðinu en Dean byrjaði á bekknum, en hann fór snemma útaf gegn Aftureldingu vegna meiðsla.

Haukar byrjuðu leikinn mun betur en KA menn og héldu boltanum vel innan liðsins. Strax á sjöttu mínútu fengu Haukar gott færi. Hilmar Geir sem virtist vera rangstæður, fékk flotta sendingu upp kantinn, komst upp að endamörkum og lagði boltan út Guðjón Pétur Lýðsson sem átti hörkuskot en KA menn björguðu nánast á marklínu. Upp úr þessu fengu Haukarnir tvær hornspyrnur sem ekkert varð úr.

KA menn virkuðu frekar stressaðir á boltann og héldu honum illa innan liðsins sem Haukarnir nýttu sér og sóttu töluvert á KA. David Disztl átti fyrstu tilraun KA manna í leiknum á 9.mínútu en laust skot hans beint á Amir Mehica í markinu. Á 14.mínútu fengu svo KA menn auki rétt fyrir utan teig þegar brotið var á Andra Fannari og tók Guðmundur Óli spyrnuna sem átti viðkomu í varnarmann og yfir. Upp úr horninu átti Haukur Heiðar skalla framhjá markinu.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og var á köflum voða lítið spil í gangi. Á 19.mínútu áttu Haukar ágætis sókn, Guðjón Pétur lék á tvo KA menn og átti fasta fyrirgjöf yfir en skallinn fór framhjá. Á 25.mínútu kom svo besta tækifæri KA manna í fyrri hálfleiknum, en þá David fyrirgjöf beint á Guðmund Óla sem var í fínu færi en skaut boltanum vel yfir markið. Eftir þetta héldu Haukarnir boltanum vel innan síns liðs og áttu KA menn í töluverðum vandræðum með þá. Á 33.mínútu áttu Haukar hörkusókn, eftir varnarmistök hjá Norbert komst Andri Janusson upp að endamörkum og gaf boltann út í teiginn þar sem Guðjón Pétur var staddur og átti fast skot rétt framhjá markinu. Í kjölfarið sóttu Haukarnir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess að skapa sér einhver ákjósanleg færi, og ágætur dómari leiksins Einar Örn Daníelsson flautaði til loka fyrri hálfleiks í frekar bragðdaufum leik þar sem Haukarnir höfðu verið sterkari aðilinn.

Strax í hálfleik gerði Dean Martin breytingu á liðinu, hann kom inn á hægri kantinn fyrir Orra Gústafsson.
Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað eins og sá fyrri, Haukarnir sóttu og héldu boltanum ágætlega innan liðsins. Á 51.mínútu áttu þeir ágætt spil sem endaði með því að Hilmar Geir virtist vera kominn einn í gegn enn á síðustu stundu náði Þórður Arnar að bjarga, sem átti mjög góðan leik í vörn KA manna og var að lokum valinn maður leiksins sem hann var vel kominn að. Eftir því sem leið á leikinn komust KA menn í meiri takt við hann og á 57.mínútu átti Guðmundur Óli fína skiptingu yfir á Dean sem gefur boltann fyrir en Haukar komast í boltann á síðustu stundu áður en David náði til knattarins og KA menn fengu hornspyrnu. Upp úr henni átti Norbert skalla sem fór í Arnar Már sem virkaði í fínu færi en hann náði ekki vald á knettinum sem fór af honum og í burtu. Eftir þetta var leikurinn mjög jafnt og hart var barist.

Á 65. mínútu sóttu KA menn hart að marki Hauka og átti Arnar Már tvö skot sem höfnuðu framhjá. Strax á eftir þessu misstu KA menn boltann á hættulegum stað og átti Andri Janusson laflaust skot beint á Sandor, en þessar fáu tilraunir Hauka í seinni hálfleik höfnuðu annaðhvort vísfjarri marki eða beint á Sandor í markinu.

Á 73.mínútu dróg svo til tíðinda. KA menn héltu boltanum vel innan liðsins, Dean fékk boltann á hægri kantinum, tók flott þríhyrningarspil við Hauk Heiðar sem gaf flotta sendingu fyrir meðfram grasinu beint á David Dizstl sem átti ekki í vandræðum með að leggja boltann í netið og þar með skora sitt fyrsta mark fyrir KA. Strax eftir markið var David tekinn útaf og Bjarni Pálmason tók stöðu hans í framlínunni.

Eftir markið sóttu KA meira og Haukarnir virkuðu svolítið ráðvilltir. Tíminn leið og leikurinn eins og áður sagði einkenndist mikið af baráttu og litlu spili. Haukarnir reyndu að setja pressu á KA menn í lokin og áttu eitt laust skot framhjá á 90.mínútu sem var það síðasta sem gerðist í þessum leik og 1-0 sigur KA manna staðreynd.

KA liðið var ekki að spila vel í dag, sendingar voru að klikka og liðinu gekk illa að halda boltanum innan síns liðs. Það komu þó ágætis kaflar þar inná milli þar sem ágætt spil myndaðist en KA geta gert mun betur en þetta. Haukarnir voru töluvert sterkari í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik jafnaðist þetta út.
Varnarleikurinn var mjög góður og fór þar fremstur í flokki Þórður Arnar sem átti mjög góðan leik, það fór ekkert framhjá honum og hann losaði boltann vel frá sér og var réttilega valinn maður leiksins. Miðjan hefur oft átt betri leiki og var sóknarleikurinn ekki upp á marga fiska eins og í síðustu leikjum. En engu að síður sigruðu KA menn leikinn og það er það sem skiptir máli, þeir sýndu mikin styrk að ná að klára leikinn gegn toppliði Haukum þrátt fyrir að spila ekki vel og voru þetta þrjú dýrmæt stig. Nú eru KA menn í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig, þrem stigum á eftir Selfoss sem eru nú efstir á markahlutfalli, en eiga leik inni.

Næsti leikur KA er á fimmtudaginn í næstu viku í VISA-Bikarnum gegn Aftureldingu og fer leikurinn fram á Akureyrarvellinum.

 -Aksentije Milisic