Umfjöllun: KA - Valur (Með myndum)

16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ lauk í dag með þremur leikjum. KA-menn sóttu Val heim að Hlíðarenda en Valsmenn eru sem stendur í 6. sæti Pepsi deildarinnar á meðan KA sitja í 3. sæti 1. deildar. Þetta var hörkuleikur og réðust úrslitin ekki fyrr en eftir 120 mínútna leik.

Valur 3 - 2 KA
1-0 Helgi Sigurðsson ('11)
1-1 David Disztl ('43)
2-1 Marel Baldvinsson ('55)
2-2 Andri Fannar Stefánsson ('61)
3-2 Sigurbjörn Örn Hreiðarsson ('117)

Sandor
Haukur H. - Norbert - Þórður - Hjalti M.

Dean M. - Túfa - Arnar M. (F) - Guðmundur Ó.
Andri F.
Disztl

Varamenn: Bjarni, Ingi (90 Dean), Steinþór, Hallgrímur, Sigurjón, Magnús, Orri (105 Guðmundur Óli).
KA-menn byrjuðu af miklum krafti voru agressívir og harðir af sér í návígjum. Á 9. mínútu leiksins átti Dean góða fyrir gjöf sem David Diztl sóknarmaður KA skallaði út í teiginn en skot Andra Fannars fór yfir mark Valsmanna. Á 11. mínútu dróg hins vegar til tíðinda þegar Baldur Aðalsteisnsson, eftir góðan sprett upp hægri kantinn, átti góða fyrirgjöf frá hægri inn i teiginn þar sem Marel Baldvinsson lagði boltann á Helga Sigurðsson sem átti ekki í vandræðum með að koma boltanum fram hjá Sandor í markinu enda um að ræða reynslumikinn framherja sem oftar en ekki nýtir slík dauðafæri. 1-0. Mesti vindurinn fór úr norðanmönnum við það að fá markið á sig en þeir voru ótrúelga fljótir að ná áttum, þó áttu Valsarar tvö góð færi; fyrst Baldur Aðalsteinsson með skot rétt yfir fyrir utan teig og svo gamli KA-maðurinn Atli Sveinn Þórarinsson með skalla sem KA-mönnum tókst að verja á línu. Á 42. mínútu átti Pétur Georg Markan gott skot vinstra megin úr teignum sem Sandor varði meistaralega með fótunum. Mínútu síðar dróg til tíðinda þegar David Diztl skallaði aukaspyrnu Dean Martin í netið eftir að hún hafði siglt yfir vörn og markvörð Valsmanna. 1-1. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik.

KA-menn byrjuðu þann síðari af miklum krafti. Eftir þunga pressu átti Guðmundur Óli skalla á 48. mínútu sem var naumlega varinn. Á 55. mínútu skoraði Marel Baldvinsson og kom Valsmönnum yfir eftir klafs í teignum. 2-1. Á 61. mínútu jafnaði Andri Fannar leikinn með föstu skoti fyrir utan teig, glæsilegt einstkalingsframtak hjá honum. 2-2. Sex mínútum síðar skóflaði Marel boltanum yfir mark KA-manna eftir fyrirgjöf Helga Sigurðssonar, úrvalsfæri. Á 79. mínútu fengu Valsarar aukaspyrnu á hættulegum stað. Sandor varði spyrnu Ian Jeffs yfir og í horn. Bæði lið áttu ágætis sóknir áður en yfir lauk í síðari hálfleik en ekkert markvert gerðist og ljóst að við færum í framlengingu.

Á 93. mínútu átti Marel skot yfir fyrir utan teig og á þeirri 97. átti Viktor Unnar Illugason skot fram hjá úr úrvalsfæri. Á 101. mínútu átti Bjarni Ólafur Eiríksson frábært skot fyrir utan teig upp í fjærhornið en Sandor varði meistaralega í horn. Mínútu síðar átti David Diztl frábær tilþrif er hjólhestaspyrna hans var naumlega varin út við stöng. Andri Fannar hirti frákastið en skot hans geigaði og fór fram hjá marki Valsmanna. Á 115. mínútu átti Helgi Sigurðsson skalla yfir af markteig en tveimur mínútum síðar eða á 117. mínútu þegar 3 mínútur voru til loka framlegngingarinnar skaut fyrirliði Valsmanna Sigurbjörn Hreiðarsson þeim í 8 liða úrslitin, frábært skot utan teigs í bláhornið óverjandi fyrir Sandor sem þó var með fingur á boltanum. 3-2. KA-menn fengu tvö færi til að jafna metin en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan svekkjandi tap fyrir sterku úrvalsdeildarliði.

KA-menn voru sterkir í þessum leik og náðu oft og tíðum upp góðu spili. Þeir geta tekið með sér úr leiknum ýmsa jákvæða punkta fyrir áframhaldandi baráttu í 1. deildinni. Næsti leikur er á útivelli á föstudaginn gegn Vikingi í Reykjavík og með sömu spilamennsku og í kvöld tökum við 3 stig þar. Allir á völlinn og áfram KA!


- Ólafur Arnar Pálsson skrifar af Vodafonevelli