Umfjöllun: KA - Víkingur Ó. (Með myndum) - Einar Sigtryggsson ritar

- Þægilegur sigur á Ólafsvíkingum
Leikur KA gegn Víkingi Ólafsvík fór fram í norðangolu fyrr í dag. Mjög fáir mættu á völlinn enda bærinn iðandi af menningarviðburðum sem hafa greinilega haft meira aðdráttarafl. Aðeins fjórir Saggar sáust í stúkunni og létu þeir lítið fyrir sér fara.

KA 3 - 0 Víkingur Ó.
1-0 Andri Fannar Stefánsson ('8)
2-0 Sandor Forizs ('41)
3-0 Bjarni Pálmason ('52)
Rautt spjald: Janez Vrenko ('92)

Sandor

Haukur H. - Janez - Þorvaldur - Hjalti M.
Dean M. - Sandor - Arnar M. (F) - Hallgrímur
Andri F.
Bjarni P.

Varamenn: Steinþór Már Auðunsson, Davíð Rúnar Bjarnason, Jakob Hafsteinsson(Sandor, 79. mín), Guðmundur Óli Steingrímsson(Dean M., 69. mín), Ingi Freyr Hilmarsson(Hjalti M., 71. mín).

        Víkingar voru sannarlega í vondum málum fyrir leik, langneðstir og svo gott sem fallnir. Tveir fastamenn þeirra tóku út leikbann en á móti kom að David Disztl, aðalmarkaskorari KA sat í stúkunni, einnig í banni.
        KA sótti gegn vindinum í fyrri hálfleik sem var nokkuð kaflaskiptur en í heildina ansi jafn. Okkar menn voru mun meira með boltann en nánast engin færi sköpuðust. Sem fyrr fóru flestar sóknirnar í gegnum Deano á hægri kantinum en fyrirgjafir hans voru ekki að skapa neina hættu. Þrátt fyrir hálfgert öngstræti á hægri vængnum og engan David Disztl náði KA að skora tvívegis. Fyrra markið kom strax á 8. mínútu eftir mikinn atgang í teig gestanna. Bjarni Pálmason lagði boltann út í vítateig þar sem Andri Fannar sá smugu og plantaði boltanum í bláhornið, stöngin inn. Eftir markið virtust KA-menn ætla að halda Víkingum í heljargreipum og fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi gestanna. Þeir fóru svo smám saman að komast inn í leikinn og áttu nokkrar ágætis sóknir gegn værukærum KA-mönnum. Eftir að Víkingar höfðu þjarmað vel að okkar strákum fengu KA-menn óvænt færi á að sækja hratt. Andri Fannar  renndi boltanum gegnum miðjuna á Sandor Forizs sem fékk hann á vítateigshorninu hægra megin. Ungverjinn lék inn að markinu og notaði vindinn til að setja einn bananabolta með vinstri í ofanverða fjærstöngina, stöngin inn, aftur. Markið kom á 41. mínútu og gaf heimamönnum þægilega forustu fyrir hálfleiksteið.

        KA var mun sterkara liðið í seinni hálfleik og strax á 51. mínútu kom þriðja markið og var undirbúningurinn frábær. Arnar Már sem var í fínu skotfæri rétt utan teigs splundraði Víkingsvörninni með lúmskri sendingu upp í hornið á Deano. Þjálfarinn fann loks samherja og renndi fyrir markið á Bjarna Pálmason sem gerði vel að lauma boltanum í netið enda kom sendingin örlítið aftan við hann. Bjarni skoraði svo rangstöðumark og Hallgrímur átti flott skot í stöng en fleiri urðu mörkin ekki og 3-0 sigur því staðreynd.
        Með tapinu féllu Ólafsvíkingar endanlega í aðra deild eftir fimm ára basl í þeirri fyrstu. KA styrkti stöðu sína í 5. sætinu og fikraði sig nær Fjarðarbyggð og geta bjartsýnir stuðningsmenn enn látið sig dreyma um að komast upp í gossulls-deildina. Sá möguleiki er reyndar lítill en þó fyrir hendi.

Andri Fannar var valinn maður leiksins en hann og Þorri þóttu mér bestu menn liðsins. Sandorarnir, Janez og Bjarni Pálma voru fínir en aðrir áttu leik í daprari kantinum. Sérstaklega var skrítið að sjá Hauk Heiðar í tómu bulli en hann hefur verið stöðugur og góður í allt sumar. Greinilegt að hann er farinn að hlakka til að byrja í skólanum. Gaman var svo að sjá hinn kornunga Jakob Hafsteinsson koma inná í sínum fyrsta deildarleik en hann er sonur Birgittu Guðjónsdóttur og Hafsteins Jakobssonar. Eru þau hjónin flestum kunn og margir KA-menn muna sjálfsagt eftir Hafsteini sem spilaði blak og fótbolta með KA og skoraði fyrsta Evrópumark félagsins í 1-0 sigri KA á CSKA Sofia haustið 1990.

- Einar Sigtryggsson ritar úr glæsilegri blaðamannastúku Akureyrarvallar
- Myndir: Sævar Geir Sigurjónsson