Þriðja umferð 1. deildar karla hófst á fimmtudag með tveimur leikjum. Leiknismenn, sem spáð var 9. sæti í spá fyrirliða og
þjálfara, sem vefsíðan fótbolti.net framkvæmdi, tóku á móti norðanpiltum í blíðskaparveðri í
Breiðholtinu. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru góðar en völlurinn virtist þó vera eilítið loðinn.
Leikskýrslan
Staðan í deildinni
Leiknir 0 - 0 KA
Sandor
Haukur H. - Norbert - Sandor - Hjalti M.
Dean M. - Túfa - Andri F. - Steinn G.
Arnar M. (F)
Disztl
Varamenn: Guðmundur Óli Steingrímsson(Túfa, 57. mín), Bjarni Pálmason(Disztl, 71. mín), Ingi Freyr
Hilmarsson(Steinn, 85. mín), Steinþór Már Auðunsson (M); Þórður Arnar Þórðarson.
Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en það voru KA-menn sem létu fyrst að sér kveða þegar nýji
ungverjinn, David Disztl átti skot að marki Leiknismanna eftir klafs í teignum á 14. mínútu leiksins en markvörður Leiknismanna, Eyjólfur
Tómasson varði vel. Strax mínútu síðar átti Sandor Forizs skot fyrir utan teig yfir mark Leiknismanna. Á 32. mínútu átti Dean
Martin, þjálfari KA-manna skot fyrir utan teig en skotið geigaði og boltinn fór yfir markið. Fjórum mínútum síðar fengu Leiknismenn
sitt fyrsta alvöru færi þegar skot Ólafs Kristjánssonar, eftir vel útfærða skyndisókn, fór yfir mark KA-manna. Á 39.
mínútu gerðu norðanmenn tilkall til vítaspyrnu þegar Disztl féll í teignum eftir mikið klafs. Það var erfitt að sjá úr
stúkunni hvort dómarar leiksins höfðu haft rétt fyrir sér en ekkert var dæmt. Á lokamínútu fyrri hálfleiks átti Andri
Fannar skot yfir við vítateigsbogann en það var síðasta markverða atvik fyrri hálfleiks sem endaði, nokkuð sanngjarnt, 0-0.
Leiknismenn áttu fyrsta orðið í annars frekar bragðdaufum seinni hálfleik þegar á 66. mínútu varnarmenn KA björguðu á
síðustu stundu eftir vel útfærða sókn Breiðhyltinga. Fjórum mínútum síðar leit besta færi leiksins dagsins ljós
þegar Helgi Pétur Leiknismaður átti góðan snúning í teignum, náði prýðilegu skoti en tókst ekki að sigra Sandor sem
varði meistaralega. KA-menn áttu svo síðasta færi leiksins þegar Steinn komst í skotfæri eftir vel útfærða aukaspyrnu en skot hans
geigaði og boltinn sigldi aftur fyrir endamörk. Sanngjörn úrslit, 0-0.
Bæði lið geta verið sátt við stigið í dag en KA-mönnum hefur oftar en ekki gengið illa á útivöllum en 2 stig eru í
húsi af 6 mögulegum á útivelli til þessa. Þetta gæti orðið dýrmætt stig fyrir Leiknismenn þegar upp er staðið í
baráttunni á botninum ef marka má spá fótbolta.net.
Næsti leikur er á Akureyri gegn sterku liði Fjarðarbyggðar, föstudaginn 29. maí kl. 19:00. Mætum öll og styðjum okkar lið. Áfram
KA!
- Ólafur Arnar Pálsson
Myndirnar hér að neðan tók Matthías Ægisson.