Umfjöllun: Njarðvík - KA

KA-menn sóttu Njarðvíkinga heim í 5. umferð 1. deildar karla í gærkvöld. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru þokkalegar, þó nokkur gola en þurrt og völlurinn leit mjög vel út.

Njarðvík 1 - 0 KA
1-0 Frans Elvarsson (18)

Umfjöllun á Fótbolta.net
Deildin á KSÍ.is

Sandor

Haukur Hei. - Þórður - Elmar - Ingi

Dean M. - Guðmundur Ó. - Norbert. - Steinn G.
Almarr
Janez

Varamenn: Baldvin, Sveinn Elías(Dean M, 46mín), Andri Fannar, Túfa, Magnús Blöndal.

Leikurinn fór hægt af stað en þó sköpuðu KA-menn talsverða hættu fyrirframan mark heimamanna á 6. mínútu þegar hornspyrna Dean Martin lenti í þverslánni. KA-mönnum tókst þó ekki að gera sér mat úr því og Njarðvíkingar bægðu hættunni frá.
Á 18. mínútu dróg svo til tíðinda þegar Njarðvíkingar spiluðu sig í gegn um vörn KA-manna á einfaldan hátt, boltinn barst til Frans Elvarssonar, hægra megin í teignum, sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið fram hjá Sandor í markinu, 1-0.
Tveimur mínútum síðar gerðu heimamenn sig aftur líklega þegar Aron Már Smárason komst í gegn og átti skot vinstra megin úr teignum sem Sandor varði nokkuð örugglega. Fyrri hálfeikur bauð uppá fátt markvert eftir þetta, leikurinn einkenndist af baráttu og liðin náðu ekki að spila boltanum með grasinu.
Á 47. mínútu barst Almarri boltinn hægra megin í vítateig Njarðvíkinga, hann tók sig til og lék á 2 varnarmenn og lyfti svo boltanum af því er virtist upp í hönd eins varnarmanna Njarðvíkur en Guðmundur Ársæll Guðmundsson vel staðsettur dómari leiksins lét leikinn halda áfram. Skömmu síðar flautaði hann til leikhlés, 1-0.

KA-menn komu öllu sprækari til síðari hálfleiks, Sveinn Elías kom inná fyrir Dean sem lauk leik meiddur og við það breyttist sóknarleikur KA til hins betra. Í fyrri hálfleik einkenndist sóknarleikurinn af sendingum upp hægri kantinn og sendingum þaðan inn í vítateig heimamanna og varð KA-mönnum lítt ágengt. KA-fór að sækja meira upp vinstri kantinn og miðjuna í síðari hálfleik auk þess að sækja einnig upp hægri kantinn og gekk sóknarleikurinn betur og náðu KA-menn að koma all nokkri pressu á Njarðvíkinga sem lögðust í skotgrafirnar. 
Á 52. mínútu átti Steinn fínan sprett upp vinstri kantinn og náði sendingunni fyrir markið sem var eilítið of há fyrir sóknarmenn KA.
Það er ekki hægt að segja að KA-menn hafi vaðið í færum þó svo að þeir hafi náð að setja fína pressu á heimamenn, KA-menn treystu mjög á fyrirgjafir en þær voru undantekningarlítið skallaðar í burtu af sterkri vörn Njarðvíkinga.
Á 72. mínútu náðu KA-menn góðri skyndisókn, Sveinn Elías vann boltann á hægri kantinum og sendi hann stutt fram á Almarr sem stakk honum inn á Janez, Janez skeiðaði með boltann upp að vítateig og reyndi þar að skrúfa boltann upp í fjærhornið en skotið fór rétt fram hjá. Janez hefði hugsanlega getað litið upp og fundið mann í betra færi en þó var alveg sjálfsagt að skjóta þarna.
KA-menn reyndu hvað þeir gátu undir lokin að reyna að skapa hættu með háum sendingum inn í vítateig Njarðvíkinga sem vörðust fimlega. Og þar við sat. 1-0 heimasigur Njarðvíkinga staðreynd. 

Lið Njarðvíkur sýndi það í fyrri hálfleik að það getur vel spilað fótbolta, þeir verða kannski ekki í neinni toppbaráttu í sumar en þeir eiga áreiðanlega eftir að safna að sér þó nokkrum stigum. KA-menn sýndu ekki sýnar bestu hliðar í dag. Fyrri hálfleikur var afleitur en sá síðari talsvert betri. Þó getum við miklu betur og ég er sannfærður um að strákarnir komi tvíefldir til leiks næstkomandi þriðjudag þegar við tökum á móti KS/Leiftur sem enn hafa ekki unnið leik. Þeir verða þó sýnd veiði en ekki gefin og ljóst að KA menn þurfa að eiga góðan leik til að fara með sigur af hólmi. Allir á völlinn og áfram KA!

Spjöld:
KA:
Gult: Ingi Freyr ´22 Almarr ´84

Njarðvík:
Gult: Gestur Gylfason ´58

- Ólafur Arnar Pálsson skrifar af Njarðvíkurvelli