Umfjöllun: Selfoss - KA (Myndir)

Á sunnudaginn mættust Selfoss og KA í fyrsta leik tímabilsins. Ólafur Arnar Pálsson var á vellinum og skrifaði um leikinn.

Selfoss 1 - 1 KA
0-1 Steinn Gunnarsson ('16)
1-1 Guðmundur Þórarinsson ('18)

Sandor

Haukur H. - Norbert - Sigurjón - Ingi F.

Dean M. - Túfa - Andri F. - Steinn G.
Arnar M. (F)
Bjarni P.

Varamenn: Steinþór Már Auðunsson (M), Magnús Blöndal, Sandor Zoltan Forizs(Sigurjón Fannar), Orri Gústafsson, Hjalti Már Hauksson.
Það er komið sumar, í það minnsta vor og boltinn er farinn að rúlla. Fyrsta umferð 1. deildar karla hófst í dag með fjórum leikjum. Okkar mönnum var spáð ágætu gengi í spá fyirliða og þjálfara, sem vefsíðan fótbolti.net framkvæmdi, eða 4. sæti á undan Selfyssingum og eftir Víkingi Reykjavík, HK, og ÍA sem spáð var deildarmeistaratitlinum.

Selfyssingar tóku á móti okkar mönnum við hinar þokkalegustu aðstæður til knattspyrnuiðkunar á gervigrasvellinum á Selfossi. Að sjálfsögðu voru fulltrúar stuðningsmannasveitarinnar Vinir Sagga mættir á völlinn og settu þeir sinn svip á leikinn.

Lítið gerðist fyrstu mínútur þessa leiks, nokkuð jafnræði var með liðunum og þau skiptust á að sækja. Á 10. mínútu fengu KA-menn sína fyrstu hornspyrnu sem þjálfarinn Dean Martin kaus að taka stutt, hann fékk boltann til baka og átti prýðilega sendingu inn í teiginn af vinstri vængnum en Selfyssingar bægðu hættunni frá.

Á 16. mínutu dró hins vegar til tíðinda. Þar var Dínó aftur á ferðinni, nú á hægri vængnum, átti góða sendingu fyrir mark Selfyssinga og Steinn Gunnarsson læddi sér fram fyrir aftasta varnarmann heimamanna og skallaði boltann af nákvæmni fram hjá markverði Selfyssinga. 0-1.

Tveimur mínútum síðar svöruðu Selfyssingar. Árni Páll Hafþórsson átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem Guðmundur Þórarinsson setti í netið fram hjá Sandor í marki KA-manna. 1-1.

Á 28. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu frá hægri. Fyrirgjöfin barst fyrir mark KA-manna og Gunnlaugur Jónsson spilandi þjálfari Selfoss stangaði hann í utanverða stöngina og okkar menn sluppu með skrekkinn.

KA-mennirnir Sigurjón Fannar Sigurðsson og Ingi Freyr Hilmarsson nældu sér í gul spjöld áður en dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

KA-menn komu grimmir til leiks í síðari hálfleik. Á 51. mínútu komst Arnar Már í skotfæri fyrir utan vítateig Selfyssinga en skotið var beint á markmanninn sem varði næsta auðveldlega.

Það vakti athygli að í upphafi síðari hálfeiks gerðu vallarstarfsmenn upptækt gjallarhorn sem Vinir Sagga höfðu notast við í leiknum, að frumkvæði dómara leiksins. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.

Á 58. mínútu átti Andri Fannar góðan sprett sem hann lauk með skoti sem fór af varnarmanni Selfyssinga og í horn.

Einni mínútu síðar fengu Selfyssingar aukaspyrnu á miðjunni sem endaði með úrvalsfæri hjá Ingþóri Jóhanni Guðmundssyni sem náði ágætu skoti af markteig sem Sandor tókst að verja með fótunum.

Selfyssingar voru meira með boltann og sköpuðu sér fleiri færi það sem eftir lifði af leiknum, áttu aukaspyrnu á hættulegum stað á 76. mínútu og dauðafæri fimm mínútum síðar eftir hornspyrnu en skotið geigaði. Á 84. mínútu komst Árni Páll Hafþórsson einn á móti Sandor í markinu en skaut fram hjá.

Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og liðin sættust á skiptan hlut.

KA-menn voru kannski eilítið heppnir með stigið í dag en Selfyssingar áttu fleiri og betri færi. Töluverður vorbragur var á þessu og það er ljóst að KA-menn eiga mikið inni. Næsti leikur er gegn Þór á Akureyri og það er næsta víst að þar verður barist til síðasta blóðdropa. Mætum öll á völlinn og áfram KA!

- Ólafur Arnar Pálsson

Myndirnar hér að neðan tók Guðmundur Karl  Sigurdórsson.