12.09.2008
Nú í kvöld spiluðu okkar menn við Stjörnumenn á samnefndum velli í Garðabænum. Áhorfendur voru fjölmargir í góðri
aðstöðu á vellinum og týpískt haustveður var um að ræða. Aðstæður því með ágætu móti en
leikurinn varð þó heldur bragðdaufur.
Með sigri í leiknum áttu Stjörnumenn möguleika á að koma sér upp í annað sæti deildarinnar og þar með eiga enn
góðann möguleika á að fylgja ÍBV upp í efstu deild. Okkar menn höfðu hins vegar ekki að jafnmiklu að keppa þar sem möguleikar
á að komast upp sem og að falla voru úr sögunni.
Svo fór að úrslit kvöldsins voru eins hagstæð Stjörnumönnum og hægt var. Á meðan að Fjarðabyggð lagði Selfoss unnu
þeir heimasigur á okkar mönnum með marki Daníels Laxdal í lok leiks. 1-0 fyrir Stjörnuna.
Byrjunarlið okkar manna var þannig skipað þeim Sandor, Hauki, Hjalta, Túfa, Janez, Dean, Andra Fannari, Arnari, Guyla, Steini og Norbert. Á bekknum voru þeir
Ingi, Kristinn, Magnús, Arnór og Orri. Ljóst að varamannabekkurinn því af yngri gerðinni í leik kvöldsins. Þeir Andri
Júlíusson og Elmar Dan voru báðir í leikbanni í kvöld og raunar þátttöku hins fyrrnefnda með KA í sumar lokið þar
sem hann fékk tveggja leikja bann.
Leikurinn byrjaði rólega og skiptust liðin á að sækja. Heldur var pressan meiri af hálfu Stjörnumanna en rétt að taka það fram að
liðin voru ekki að skapa sér hættuleg færi fyrsta hálftíma leiksins. Hættulegasta fæŕi hálfleiksins átti Guðni Rúnar
Helgason, sem undirritaðan minnir nú að hafi spilað fyrir KA á sínum tíma, en ágætur skalli hans fór rétt yfir markið.
Í byrjun seinni hálfleiks áttu Stjörnumenn nokkrar ágætar sóknir en Sandor varði þó bestu færi þeirra vel.
Fátt markvert gerðist í síðari hálfleik og börðust liðin nokkuð um boltann. Voru áhorfendur farnir að sætta sig við 0-0
jafntefli þegar fyrirliði Stjörnunnar, Daníel Laxdal, slapp óvænt einn í gegn og skoraði sigurmark Stjörnunnar. Þetta var tæpri
mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma. Þar við sat og tíðindalitlum leik lokið með sigri Stjörnunnar.
Staðan í deildinni þegar einni umferð er ólokið er því þannig að okkar menn geta endað í 4-6. sæti. Liðið er nú
í 4. sæti og á einn leik eftir gegn Víkingi Ó. á heimavelli.
Nágrannar okkar í KS/Leiftri eru fallnir í 2. deild og munu Njarðvíkingar fylgja þeim þangað. ÍR mun koma upp og allar líkur á
að Afturelding verði með þeim í för. ÍBV er þegar komið í efstu deild og annaðhvort Stjarnan eða Selfoss mun fara með þeim upp.