Umfjöllun: KA - Þór

Í gærkvöldi  mættust KA og Þór í síðari leik liðanna í sumar en KA-menn stálu sigrinum í síðasta leik með sigurmarki í uppbótartíma og áttu Þórsarar því harma að hefna frá þeim leik.

KA 1-3 Þór:
0-1 Andri Júlíusson ('18)
1-1 Ibra Jagne ('79)
1-2 Gísli Páll Helgason ('81)
1-3 Alexander Linta ('84, víti)
Rautt spjald: Elmar Dan Sigþórsson ('83), Andri Júlíusson ('88) báðir úr KA.

Umfjöllun á Fótbolta.net
Staðan í deildinni
Leikskýrslan

Sandor

Haukur Hei. - Elmar (F) - Janez - Ingi
Túfa
Dean M. - Norbert - Arnar M. - Magnús Blö.
Andri Júl.



Varamenn: Hjalti Már Hauksson, Andri Fannar Stefánsson(Túfa,85. mín), Davíð Rúnar Bjarnason, Arnór Egill Hallsson, Orri Gústafsson(Magnús Blöndal,45. mín)

Fyrir leikinn í dag voru KA-menn í fjórða sæti með 29 stig, en Þórsarar í því áttunda með 21 stig. Fólk fjölmennti á leikinn og þar voru Vinir Sagga fremstir í flokki. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru fínar í kvöld, logn og ágætlega hlýtt. Framherjinn Gyula Horvarth var ekki með KA-mönnum vegna meiðsla og fékk Magnús Blöndal sem er á elsta ári í öðrum flokki tækifæri í byrjunarliðinu.

Nágrannarnir okkar í Þór byrjuðu leikinn af krafti. Strax á sjöundu mínútu leiksins fengu þeir aukaspyrnu sem Alexander Linta tók en boltinn himinhátt yfir. En aðeins tveimur mínútum síðar dróg til tíðinda. Hreinn Hringsson lagði þá boltann fyrir hinn unga Jóhann Helga Hannesson, sem var tekinn niður
af Janez og dómari leiksins Eyjólfur M. Kristinsson, sem átti ekki góðan dag,  benti umsvifalaust á punktinn. Vítið tók gamli KA-maðurinn Hreinn Hringsson en Sandor varði vítaspyrnurna frábærlega í stöngina og út þar sem Ingi Freyr hreinsaði í horn. Mjög vel gert hjá þessum frábæra vítabana.

Eftir þetta vöknuðu KA-menn, annað hefði verið óeðlilegt, en þó án þess að skapa einhvern usla í vörn Þórsara. Þórsarar fengu tvö ágætisfæri á þriggja minútna kafla en ekki fór boltinn inn.

Það var svo á átjándu mínútu að KA náðu frábærri sókn. Dean Martin sem var líklega einn besti leikmaður KA í leiknum fór þá illa með annan fyrrum KA-mann, Aleksandar Linta sem lék í vörn Þórs, gaf boltann fyrir og þar var Andri Júlíusson sem klippti boltann laglega í markið framhjá Árna sem kom engum vörnum við. Mikill fögnuður braust út meðal KA-manna enda
fátt skemmtilegra en að skora á móti Þór. Þetta var þriðja mark Andra í síðustu tveimur leikjum. Það má reyndar segja að þetta mark hafi komið örlítið gegn gangi leiksins.

Enn annar fyrrum KA leikmaður, Ibra Jagne, kom inn sem varamaður snemma leiks hjá Þór átti ágætisfæri eftir mistök í vörn KA en ákvað að gefa boltan út í stað þess að skjóta. Á 32 mínútu vann Andri Júlíusson boltann á miðjunni, geystist upp völlinn og átti fínt skot sem Árni Skaptason varði í horn. Uppúr horninu fékk Túfa ágætis skotfæri en boltinn himinhátt yfir. Síðasta markverða sem gerðist í fyrri hálfleik var þegar Hreinn fékk boltann inn í teig og átti skot sem small í stönginni. Þar með flautaði Eyjólfur til loka fyrri hálfleiks, 1-0 fyrir KA.

Strax í hálfleik gerði Dean Martin breytingu á liði sínu. Þá kom Magnús Blöndal útaf og Orri Gústafson kom inn fyrir hann í fremstu víglínu og við það fór Andri Júl út á vinstri kantinn.

KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Strax á 47. mínútu fór Dean eins og oft áður í leiknum illa með Aleksandar Linta og gaf fyrir á Andra Júl sem var í dauðafæri en Þórsarar björguðu á elleftu stundu. Enn sóttu KA og aftur var það Dean með laglegan sprett sem endaði með því að hann lagði boltan út á Norbert Farkas sem skaut ágætu skoti framhjá. KA-menn búnir að vera mun sterkari í seinni hálfleik og áttu Þórsarar varla tilraun að marki KA fyrr en seint í leiknum.

Á 59. mínútu tók Dean Martin snöggt aukaspyrnu, lagði hann inn á Elmar Dan sem var í fínu færi en mokaði boltanum yfir. Það var gaman að horfa á Dean Martin í seinni hálfleiknum, þar sem hann stjórnaði sóknarleiknum og olli miklum usla með hraða sínum og snerpu í vörn Þórsara.

Enn héldu KA áfram að sækja og aftur var það Dean með fínan sprett upp kantinn og sendi hann boltann á Andra sem var í góðu færi en hann hitti boltann ekki.

Fyrsta tilraun Þórs í seinni hálfleik kom ekki fyrr en á 68 mínútu en þar var að vera Hlynur Birgisson með langskot sem Sandor greip auðveldlega. Arnar Már sem hafði hægt um sig í dag átti síðan ágætis skot sem Árni náði að verja.

Á 76 mínútu náðu Dean og Norbert flottu spili sem endaði með því að Dean stakk boltanum á Orra sem var í dauðafæri en slakt skot hans fór framhjá. Leiðinlegt að ná ekki að nýta þessi færi en KA-menn áttu heldur betur eftir að fá það í bakið á sér að vera ekki löngu búnir að gera út um leikinn þegar þarna var komið sögu, dauðafæri eftir dauðafæri og menn ná ekki að skora.

Það var svo á 79. mínútu að varamaður Þórsara, Sigurður Marinó, átti laglegan sprett, lék alltof auðveldlega á tvo KA-menn og lagði boltann á Ibra sem gat ekki annað en skorað í tómt markið. Aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu Þórsarar aftur.

Þá slapp Gísli Páll í gegn og setti hann óverjandi fyrir Sandor upp í markhornið. Til að bæta gráu ofan á svart fengu Þórsarar víti og Elmar Dan rautt á 84. mínútu. Þá kom stungusending frá Þórsurum sem Sandor greip, en þá kom Hreinn og ýtti Elmari á Sandor. Elmar var ekki sáttur með Hreinsa og stjakaði aðeins við honum og féll Hreinsi ansi auðveldlega í grasið. Marinó Steinn Þorsteinsson, aðstoðardómari tvö, kallaði Eyjólf dómara til sín og eftir smá samræður þeirra á milli dæmdi Eyjólfur vítaspyrnu og rak Elmar umsvifalaust í sturtu. Þetta rauða spjald var vissulega réttlætanlegt á fyrirliðann sem einfaldlega missti stjórn á sér en honum til varnar hefði þetta aldrei þurft að eiga sér stað hefði Eyjólfur einfaldlega flautað strax brot á Hrein.

Aleksandar Linta, gamli KA maðurinn fór á punktinn og skoraði örugglega upp í vinstra hornið.

Á 85. mínútu kom Andri Fannar inn fyrir Túfa. Stuttu síðar fékk Andri Júlíusson reisupassann. Hann missti boltann of langt frá sér á miðjunni og Hreinn náði honum en Andri reyndi að ná boltanum með háskalegri tveggjafótatæklingu og var honum vísað beint af velli. Andri vissi upp á sig sökina og hljóp strax inn í klefa en þátttöku hans með KA í sumar ætti því að vera lokið þar sem hann hefur áður fengið rautt spjald í sumar en þá með ÍA og þar sem þetta er hans annað rauða í sumar fær hann tveggja leikja bann. Á einhverjum tíu mínútna kafla í lokin var eins og menn algjörlega misstu einbeitinguna og í rauninni ótrúlegt að þetta hafi gerst. KA-menn orðnir níu á vellinum og undir 3-1, í leik sem þeir áttu að vera búnir að klára með einhverju af þessum fjölmörgu færum sem liðið fékk.

Eftir þetta reyndu KA-menn að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og fóru Þórsarar með 1-3 sigur af hólmi og fögnuðu vel og innilega að leik loknum.

KA liðið var ekki að spila nægilega vel í fyrri hálfleik en átti mun betri seinni hálfleik, eða alveg þar til á 79. mínútu en virtist eins og að menn héldu að þetta væri komið og hættu bara.

Dean Martin var langbesti leikmaður KA í dag. Andri Júlíusson var sprækur í fyrri hálfleik en datt svolítið niður í seinni. Eftir þetta eru KA-menn enn í 4. sæti með 29 stig en Þórsarar eru komnir í 6. sæti með 24 stig.

Næsti leikur KA er ekki í léttari kantinum, en þá heimsækja þeir Stjörnuna í Garðabæinn þann 12. september en Garðbæingar eru í harðri toppbaráttu við Selfoss um að komast upp. Nánar um þann leik síðar en ljóst er að Elmar Dan og Andri Júlíusson verða í leikbanni í þeim leik en það kemur auðvitað maður í manns stað og KA-menn eru staðráðnir í því að gleyma þessum leik og ná í stigin þrjú gegn Stjörnumönnum eftir að þeir stálu þeim hér á Akureyrarvellinum fyrr í sumar í orðsins fyllstu merkingu.

Síðasti heimaleikurinn og jafnframt síðasti leikur sumarsins verður svo á Akureyrarvelli gegn Víkingi Ólafsvík laugardaginn 20 september.

- Aksentije Milisic