Upphitun: Grindavík - KA (VISA-bikar)

Elmar Dan Sigþórsson og Óli Stefán Flóventsson í baráttunni í leik þessara liða árið 2007 á KA-velli…
Elmar Dan Sigþórsson og Óli Stefán Flóventsson í baráttunni í leik þessara liða árið 2007 á KA-vellinum. Elmar er nú farinn til Noregs en Óli Stefán er spilandi þjálfari Sindra í 3. deild.
Fimmtudaginn 24 júni fara okkar menn í víking og leggja leið sína til Grindavíkur til þess að etja kappi við heimamenn í 16 liða úrslitum VISA bikarkeppni KSÍ.

Þetta verður án efa hörkuleikur og má búast við jöfnum og spennandi leik.  Grindavík vann Þór í 32 liða úrslitum en okkar menn lögðu HK eftir framlengingu eins og fólki er eflaust í fersku minni.  Leikir í bikarnum eru oft opnari og skemmtilegri en leikir þar sem stig eru boði, í bikarnum færðu ekki annan möguleika ef illa fer.

Grindavík hefur átt í basli í deild og kom fyrsti sigur þeirra ekki fyrr en í sjöundu umferð þegar þeir lögðu Breiðblik 2-3 eftir að hafa lent undir 2-0.  Þessi slæma byrjun kostaði Lúkas Kostic starfið og nú er það Ólafur Örn Bjarnasson sem þjálfar lið Grindvíkinga.

Í stuttu samtali við heimasíðuna sagði Orri Hjaltalín fyrirliði Grindavíkur að leikurinn legðist
vel í sig, hann reiknaði með hörkuleik og ekkert vanmat yrði í þeirra herbúðum.
,,Við erum með mjög gott lið, en byrjun Íslandsmótsin hjá okkur var stórslys," sagði Orri. ,,Meiðsli lykilmanna í upphafi móts komu sér illa fyrir liðið en nú eru allir heilir og ekkert að vanbúnaði að stilla upp sterkasta liði sem völ væri á í leiknum gegn KA," sagði Orri ennfremur.

Magnús Blöndal sagði í samtali við heimasíðuna hlakka til að mæta Grindvíkingum, þetta yrði eflaust erfiður leikur en hann hefði fulla trú á því að við myndum leggja þá af velli og tryggja okkur þannig  áframhaldandi þátttöku í VISA bikarnum.  Maggi sagði að það væri ekki til að gera hlutina leiðinlegri að í liði Grindavíkur væru tveir fyrrum leikmenn Þór og hann hefði alltaf gaman af því að mæta þeim.

,,Andinn í hópnum er glæsilegur og menn eru svo sannarlega  staðráðnir í því að bæta
stöðu liðsins verulega í komandi leikjum," sagði Magnús að endingu.

Leikurinn á Grindavíkurvelli hefst kl 17.30 n.k. fimmtudag og  vonumst við til að  allir  stuðningsmenn KA sem völ hafa á  mæti á glæsilegan völl Grindvíkinga og styðji okkar menn til sigurs.

- GN