Upphitun: ÍR - KA

Haukur Heiðar í baráttunni gegn ÍR í Breiðholtinu í fyrra.
Haukur Heiðar í baráttunni gegn ÍR í Breiðholtinu í fyrra.
Á laugardaginn, 22. maí ferðast KA menn til Reykjavíkur, nánar tiltekið í Breiðholtið og heimsækja ÍR-inga. KA-menn hafa unnið sinn eina útileik til þessa og vonandi að strákarnir nái að fylgja því eftir og komast aftur á sigurbraut í deildinni.


Liðin hafa alls mæst fimm sinnum síðan 2001 og hafa okkar menn vinninginn í innbyrðis viðureignunum.

Tölfræði:
KA    3 sigrar    0 jafntefli    2 töp    17-8
ÍR    2 sigrar    0 jafntefli    3 töp    8-17

KA:
KA-menn hafa byrjað tímabilið ágætlega og eru í fjórða sæti deildarinnar með 4 stig eftir 2 leiki. Liðið hefur verið að spila ágætan fótbolta en þóttu ekki sýna mikið í síðasta leik á móti Draupni. Strákarnir náðu þó að skora tvö mörk en voru þó með boltann mun meira en Draupnismenn svo tvö mörk verður að teljast ansi slakt, enda um þriðju deildar lið að ræða.

Það að liðið hafi ekki spilað vel í síðasta leik er vonandi merki um það að okkar slæmi leikur sé búinn og nú liggi leiðin upp á við og stefnum við klárlega á sigur á morgun. ÍR-ingar eru erfiðir en nú er bara að taka fram skotskóna og vonandi að lykilmenn liðsins nái sér á strik.

Dan Stubbs var með líflegri mönnum vallarins og er alltaf að sýna meira og meira hvað hann getur. Hann er hraður, sterkur, með góðan leikskilning og talanda og berst af krafti og gott að vera með svona mann innan borðs.

Líklegt er að breytingar verði á liðinu frá því í síðasta leik. Hallgrímur og Steinn komu inn í byrjunarliðið í staðin fyrir Dínó og Túfa. Búast má við því að þeir komi inn aftur í þennan leik. Hvorki leikbönn né meiðsli setja strik í reikninginn svo vitað sé þó svo að Norbert Farkas sé reyndar ennþá meiddur sem er ekki jákvætt enda frábær varnarmaður þar á ferð. Vonandi að hann nái sér sem fyrst.

Kristján Páll, nýr leikmaður liðsins sem kom frá Magna í vetur er kominn til landsins eftir dvöl í námi í Bandaríkjunum og spennandi að sjá hvort að hann komi inn í hópinn. Einnig var Þórður Arnar í námi í Bandaríkjunum en hann er ekki kominn til landsins eins og er.

Lykilmenn:
Sandor Matus, Andri Fannar og Dan Stubbs.

ÍR:
ÍR-ingar eru í öðru sæti í fyrstu deildinni með 6 stig eftir tvo fyrstu leikina. Þeir hafa unnið Njarðvík og Gróttu á útivelli, báða leikina hafa þeir unnið 2-1. ÍR var spáð tíunda sætinu af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar en í fyrra endaði liðið í því áttunda.

ÍR-ingar eru þekktir fyrir að skora mörg mörk og í fyrra voru þeir þriðja markahæsta lið deildarinnar. Það sama má hinsvegar ekki segja um varnarleik liðsins sem virðist arfaslakur. Liðið fékk á sig næstflest mörk í deildinni í fyrra, aðeins botnlið deildarinnar,  Víkingur Ó. fékk á sig fleiri mörk. Liðið fékk á sig 26 mörk í Lengjubikarnum.

Ekki hafa verið miklar breytingar á leikmannahópi liðsins. Þrír menn komu til liðsins í vetur og þrír fóru. Erlingur Jack og Guðfinnur Þórir fóru meðal annars frá liðinu til Þróttar og verður þeirra saknað enda góðir leikmenn. Guðlaugur hefur róterað aðeins í liðinu og jafnvel fært sóknarmenn í vörnina og fleira skrautlegt. Það má því segja að varnarlína ÍR-inga sé stórt spurningamerki.

ÍR-ingar eru með góða menn framarlega á vellinum, meðal annars Árna Frey Guðnason, einn besta mann mótsins í fyrra. Hann er mjög skapandi leikmaður og var eftirsóttur í sumar en ÍR náðu að halda í kappann. Hann hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í vetur og vonandi að hann nái sér ekki á strik á laugardaginn. Einnig er liðið með ungan leikmann sem hefur spilað nokkra leiki með U17 landsliði Íslands, Jón Gísla Ström. Hann er fæddur árið 1993 og hefur spilað alla leiki liðsins í Lengjubikarnum.

Styrkleikar ÍR-inga felast í sókninni og liði hefur sterkan markvörð. Mörk eru ekki vandamál hjá liðinu. Liðinu vantar þó mann til þess að festa vörnina saman og skortir heimamenn í liðið. Lítil stemning hefur verið fyrir fótboltanum í Breiðholtinu og slök mæting á heimaleiki sem og útileiki.

Lykilmenn: Árni Freyr Guðnason, Þorsteinn Einarsson og Trausti Björn Ríkharðsson.

  ÍR – KA, laugardaginn 22. maí klukkan 14:00 á ÍR-velli!
Allir stuðningsmenn KA fyrir sunnan að mæta og styðja við bakið á sínum mönnum!
 

Aðrir leikir í 3. umferðinni:
14.00 Þór – Njarðvík
14.00 Víkingur R. – Leiknir R.
14.00 ÍA – Fjölnir
14.00 Grótta - HK

ÁFRAM KA!