Upphitun: ÍR - KA 14.maí kl 14:00

David Disztl gæti verið í hópnum á morgun
David Disztl gæti verið í hópnum á morgun
Á morgun rennur stóri dagurinn upp, flautað verður til leiks í 1.deildinni á nýjan leik eftir 8 mánaða hlé. KA- menn ferðast suður í borg óttans og leika gegn ÍR-ingum á ÍR velli klukkan 14:00. Okkar menn hafa æft eins og brjálæðingar síðustu mánuði til að vera tilbúnir fyrir morgundaginn.


Liðið er talsvert breytt frá því á síðasta tímabili þegar það endaði tímabilið í 8. sæti eftir kaflaskipt tímabil en á seinni hluta tímabilsins var KA með þriðja besta árangur allra liða í deildinni. Elvar Páll Sigurðsson miðjumaðurinn frábæri sem spilaði með KA í fyrra er horfinn á braut, enda bara á láni frá Breiðabliki, en í dag gekk hann frá samningi við einmitt ÍR-inga og verður því trúlega í liðinu hjá ÍR í leiknum á morgun. Þá er skemmtikrafturinn Boris Lumbana farinn til Svíþjóðar og sömuleiðis eru þeir Hafþór Þrastarson og Dan Howell horfnir á braut.

Hingað hafa hins vegar komið gríðarlega sterkir og reynslumiklir leikmenn, KA-mennirnir Jóhann Helgason, kenndur við Sílastaði, og Gunnar Valur Gunnarsson snéru loksins heim eftir mörg ár fyrir sunnan. Þá komu til liðsins á síðustu mínútum fyrir mót varnarmaðurinn Darren Lough sem alinn er upp hjá Newcastle og hinn góðkunni David Disztl sem lék með KA 2009 og 10 og skoraði á fyrra tímabilinu 15 mörk í 19 leikjum sem verður að teljast frábært.  Þá kom hinn snaggaralegi Bjarki Baldvinsson frá Völsungi á Húsavík.

Liðið lítur rosalega vel út þetta árið og er óumdeilanlega sterkari en undanfarin ár og er stefnan sett á toppbaráttuna. Deildin verður gríðarlega jöfn í sumar en 6-7 lið hafa burði til að berjast um þau 2 sæti sem eru undir og veita þátttökurétt í Pepsideild að ári.

Leiklegt byrjunarlið á morgun:

Sandor

Jakob - Haukur - Gunnar Valur - Darren

                  Túfa - Brian

Guðmundur  -Jói Síla - Hallgrímur

                  Elmar Dan

Lið ÍR-inga er mikið breytt frá síðasta ári en margir leikmenn hafa yfirgefið félagið ásamt því að Andri Marteinsson tók við af Guðlaugi Baldurssyni sem lét af störfum eftir tímabilið. Allir miðlar búast við erfiðu ári hjá ÍR-ingum og að þeir verði í fallbaráttu. Liðið er alveg gríðarlega ungt og vantar alla reynslu í liðið, þeir fengu hins vegar Nigel Quashie en kauði hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni og er gríðarlega reynslumikill en erfitt er að segja hvort hann sé í einhverju standi til að spila fótbolta.

Jón Heiðar Sigurðsson, harðkjarna KA-maður, var fengin til að spá í spilin fyrir leikinn: Fyrsti leikur sumarsins að bresta á og er mikil tilhlökkun í manni að þetta sé loksins að fara að bresta á. Að mínu mati erum við heppnir með byrjun á mótinu og höfum alla möguleika á að taka sex stig úr fyrstu tveimur leikjunum. Á ÍR- velli í fyrra gerðum við jafntefli 1-1 með marki frá Ómari en núna er ég nokkuð viss um að við förum með 3 stig heim og tökum þennan leik 1-3. Jói Síla kemur okkur yfir eftir 14 mín með hnitmiðuðu skoti, legendið Nigel Quashie jafnar rétt fyrir hálfleik en í seinni hálfleik verður bara eitt lið á vellinum. Hallgrímur skorar fljótlega í seinni hálfleik og fyrirliðinn Elmar Dan tryggir okkur sigurinn með klassísku potmarki á 84. mínútu. Þessi leikur mun gefa góð fyrirheit fyrir sumarið þar sem við verðum klárlega í toppbaráttunni! Þess ber vissulega að geta að ef DD spilar með okkur í þessum leik skorar hann að sjálfsögðu öll þessi þrjú mörk eins og honum einum er lagið en er hann einmitt þekktur fyrir það að skora þrennur gegn ÍR eins og flestir KA-menn muna." 

Leikurinn hefst klukkan 14:00 á morgun laugardag og eru allir KA menn að sjálfsögðu hvattir til að láta sjá sig ef þeir hafa tök á! En leikurinn verður trúlega í beinni útvarpslýsingu á Sportradio.is á morgun, set inn meira um það á morgun.