Upphitun: KA – Draupnir

Draupnismenn.
Draupnismenn.
Á morgun taka KA-menn á móti Draupni í Boganum klukkan 19:00. Um er að ræða leik í 2. umferð VISA-bikarsins.  KA gerðu jafntefli gegn Gróttu í síðasta leik, 1:1.
Það kostar 500kr.- inn á leikinn fyrir 16 ára og eldri. Ársmiðar gilda ekki


KA:
KA-menn hafa byrjað deildina ágætlega og eru með 4 stig eftir tvo leiki. Liðið gerði jafntefli við Gróttu í síðasta leik, 1:1 þar sem Haukur Hinriksson skoraði fínt mark með skalla.

KA-mönnum hefur yfirleitt gengir ágætlega í VISA-bikarnum og fóru meðal annars í úrslitin tvisvar á þremur árum, 2002 og 2004. Í bæði skiptin töpuðu KA, fyrst á móti Fylki og í seinna skiptið á móti Keflavík.

Enn hefur David ekki náð að finna skotskóna en vonandi er að það takist í næsta leik. Haukur Hinriksson hefur verið að koma sterkur inn og hefur skorað í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Til gamans má geta að bróðir hans, Hinrik Hinriksson, er í liði Draupnis á morgun. Einnig hefur Dan Stubbs nokkuð verið að heilla menn og lýtur út fyrir það að hann verði liðinu mikilvægur í sumar.

Vinni KA-menn Draupni á morgun þá fara þeir áfram í þriðju umferð VISA-bikarsins. Frábært væri að fá sigur og halda stígandanum í liðinu uppi og skora mörk. Liðið hefur skorað mark í báðum leikjum tímabilsins sem er jákvætt en nú vantar aðeins að halda betur aftar á vellinum.

Lykilmenn: Sandor Matus, Dean Martin og Andri Fannar Stefánsson.


Draupnir:
Draupnismenn hafa aðeins leikið einn leik á tímabilinu. Var sá leikur 8-0 sigur á Kormáki í fyrstu umferð VISA-bikarsins. Draupnir leikur í 3. deildinni og er fyrsti leikur þeirra laugardaginn 22. maí á móti Leikni Fáskrúðsfirði.

Draupnir er stofnað árið 2008 af nokkrum gömlum KA-mönnum og Þórsurum. Spilandi þjálfari liðsins er gamla kempan Hlynur Birgisson sem spilaði í mörg ár með Þór og var fyrirliði liðsins. Draupnir er lið sem stendur af leikmönnum sem hafa meðal annars ekki komist úr öðrum flokk upp í meistaraflokk KA eða Þórs og einnig gamlir leikmenn liðanna sem hafa verið í dvala í nokkurn tíma.

Liðinu gekk ágætlega á Soccerademótinu þar sem þeir enduðu í fimmta sæti. Þeir eru með ágætan leikmannahóp og eru til alls líklegir í þriðju deildinni í sumar. Margir fyrrum KA-menn eru hjá Draupni, þar á meðal Aðalbjörn Hannesson, Gunnar Þórir Björnsson og Ingi Þór Stefánsson.

Lykilmenn: Aðalbjörn Hannesson, Hinrik Hinriksson og Jón Stefán Jónsson.

Við hvetjum alla stuðningsmenn KA til að gera sér ferð í Bogann á mánudaginn og hvetja lið sitt til dáða. ÁFRAM KA!