Upphitun: KA - HK

Aðalvöllurinn á KA-svæðinu þar sem leikurinn fer fram. Þessi mynd er tekin fyrir N1-mótið sumarið 20…
Aðalvöllurinn á KA-svæðinu þar sem leikurinn fer fram. Þessi mynd er tekin fyrir N1-mótið sumarið 2007. Mikið hefur gengið á síðan og hefur m.a. verið grafin risastór hola yfir þveran völlinn upp við íþróttahúsið og fyllt upp í hana aftur og nýtt gras lag
Á miðvikudaginn 2. júní hefjast 32 liða úrslit VISA bikarsins. HK ingar koma í heimsókn á KA völlinn og hefjast leikar klukkan 19.15. KA menn hafa oft verið nokkuð góðir í bikarnum og slegið út mörg af stóru liðunum. Liðinu hefur hinsvegar ekki gengið nægilega vel í byrjun tímabilsins en vonandi að liðið nái sigri í þessum leik.

Alls hafa liðin mæst átta sinnum frá árinu 2000. HK ingar hafa betur í þeim málum og oft hafa leikirnir verið skemmtilegir og mikið af mörkum. Vonandi að svo verði í þessum leik.

Tölfræði:
KA    3 sigrar        0 jafntefli    5 töp    11-19
HK     5 sigrar        0 jafntefli    3 töp    19-11

KA:
Þrátt fyrir flottan mannskap og vel spilandi lið hafa KA menn ekki náð saman í byrjun tímabilsins og ekki náð almennilegum takti. Liðið getur spilað flottan fótbolta og á möguleika í hvaða lið sem er á Íslandi á góðum degi. Nú er bara að sanna mál sitt og byrja tímabilið almennilega þó nokkrir leikir séu þó búnir.

Síðasti leikur liðsins var jafntefli á útivelli gegn Njarðvík, 1-1 þar sem Dean Martin skoraði mark KA manna. Enn er sett spurningamerki við David Disztl og vonandi að hann nái að skjóta sig í gang. Það þarf að koma boltunum á hann og fá drenginn til að ná valdi á boltanum og setja mörk, þá fara sigrarnir vonandi að koma.

Nú er Þórður Arnar kominn en hann spilaði á miðjunni á móti Njarðvík. Spurning hvort hann fari í miðvörðinn þegar Túfa verður orðinn klár en því miður er ég ekki viss hvenær það verður en eins og harðir stuðningsmenn KA hafa tekið eftir er Túfa búinn að vera frá vegna meiðsla í síðustu leikjum og hefur það heldur betur haft áhrif á gengi liðsins, að minnsta kosti tölfræðilega séð.

Spil liðsins virðist vera mest upp kantana og hægri kanturinn er mikið notaður enda Dean Martin frábær leikmaður en það er Stubbs einnig. Þeir tveir hafa verið hvað mest líflegir í síðustu leikjum og vonandi að það haldi áfram.

Varamenn liðsins hafa verið lítið notaðir, mest Orri og Hallgrímur sem hafa veirð settir inn á. Gaman væri að sjá meira af þeim og hinum ungu strákunum þegar ekkert er að ganga og breyta aðeins liðinu og fá ferskleika í liðið.

KA menn hafa aldrei unnið VISA bikarinn en árið 1969 unnu hinsvegar Akureyringar bikarinn, þá undir merkjum ÍBA. Það lið var samstarf KA og Þórs er það slitnaði árið 1974. Vonandi að bikarinn fari að koma á næstunni til Akureyrar og því væri gott ef að KA menn næðu sér á almennilegt ról.

Styrkleikar:
Styrkleikar KA manna eru vafalaust í vörninni og á köntunum. Liðið sækir mikið upp kantana og virðist oft vera ógn þar. Sandor er alltaf mikilvægur og getur reynst sterkur fyrir aftan vörn liðsins. Heimavöllurinn er sterkur og stuðningur Saggana getur reynst öflugur. Ungir og sprækir leikmenn sem bíða ólmir eftir tækifæri til að sanna sig sem og ungir byrjunarliðsmenn sem eiga nóg inni.

Veikleikar:
Stöðugleiki hefur alltaf verið vandamál KA manna og það virðist vanta að halda liðinu í gírnum. Léleg mæting hefur verið á heimaleiki og ef ekki væri fyrir Saggana væri stuðningur liðsins ansi slakur. Liðið verður að geta rifið sig upp eftir tapleiki og halda áfram að berjast.

Lykilmenn: Sandor Matus, Haukur Heiðar Hauksson, Andri Fannar Stefánsson, Dean Martin.

HK:
HK ingum var spáð fimmta sæti af fyrirliðum og þjálfurum fyrstu deildar. Í fyrra enduðu þeir í þriðja sæti og voru til alls líklegir. Sömu sögu má segja um þetta sumar. Liðið hefur byrjað ágætlega og er í fimmta sæti með sjö stig. Nú síðast náðu þeir jafntefli gegn efsta liði deildarinnar, ÍR. Sá leikur var þó bragðdaufur og engin mörk litu dagsins ljós.

Í vetur hefur liðið misst marga lykilmenn eins og til dæmis landsliðsmarmanninn Gunnleif Gunnleifsson. Helsta ástæða þessara brottfara er líklega það að þessir menn vilji spila í efstu deild en eins og flestir vita þá mistókst HK ingum að fara upp í efstu deild í fyrra. HK ingum hefur ekki tekist að fylla upp í skarð ykilmanna og því mikil blóðtaka fyrir HK inga.

Markaskorarinn mikli, Jónas Grani Garðarsson, hefur gengið til liðs við HK. Hann mun bæði aðstoða Tómas Inga í þjálfun og skora mörk. Einnig er Hörður Már oft hættulegur í framlínunni enda reynslumikill. Jónas Grani var markahæsti maður liðsins í Lengjubikarnum og líklegt að hann muni setja ófá mörkin haldi hann sér heilum, sem verður að teljast ansi líklegt, enda sjúkraþjálfari.

Tómas Ingi Tómasson sló í gegn sem fótboltasérfræðingur Pepsi deildarinnar í fyrra á Stöð 2 sport og spurning hvort það hafi orðið til þess að HK fengu hann til starfa. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Kópavogsbúa undir lok síðasta tímabils en hann hefur þó litla reynslu af þjálfun. Hann var mikill markaskorari sem leikmaður og spurning hvort sóknarhugur hans muni gagnast HK ingum í sumar.

Tómas Ingi notaði undirbúningstímabilið sitt nokkuð í tilraunastarf og prófanir á leikmönnum og reyndi að púsla saman réttu liði. Það hefur kannski verið ein helsta ástæða þess að HK ingum gekk ekki nógu vel í Lengjubikarnum.

Styrkleikar:
HK er mikill fjölskylduklúbbur og klúbburinn í heild sinni er mjög samheldinn og virðist sem allir þekki alla. Mikið er af heimamönnum í liðinu og gæti það haft jákvæð áhrif á hópinn sem og það að ekki eru miklir veikleikar á hópnum, leikmennirnir eru mjg jafnir og hópurinn þéttur.

Veikleikar:
Óreyndur þjálfari gæti orðið slæmt fyrir félagið í sumar. Ef þeir missa leik sinn niður og lenda í mótlæti gætu þeir átt von á stóru höggi niður á við. Heimavöllurinn var ekki nægilega sterkur á síðasta tímabili og margir lykilmenn fa yfirgefið HK svo það gæti reynst þeim erfitt.

Lykilmenn: Jónas Grani Garðarsson, Ásgrímur Albertsson, Hörður Árnason.

Fyrsti leikur tímabilsins á eigin heimavelli. KA – HK, VISA bikarinn, KA völlur, miðvikudagurinn 2. júní,  19.15.
Allir KA menn að mæta á leikinn og hvetja lið sitt til dáða í mikilvægum bikarleik.

ÁFRAM KA!