Guðmundur Óli fagnar marki sínu á miðvikudagskvöldið.
Á morgun mætast KA og HK í annað sinn á fjórum dögum. Í þetta skiptið mætast liðin í fimmtu umferð fyrstu
deildarinnar. Liðin mættust í 32 liða úrslitum Visa bikarsins á miðvikudaginn og fóru KA-menn með sigur af hólmi, 3-2 eftir framlengdan leik.
Mörk KA manna komu frá Andra Fannari sem skoraði tvö og svo Guðmundi Óla sem skoraði stórglæsilegt mark með viðstöðulausu skoti utan
teigs.
HK –ingar liggja í fimmta sæti deildarinnar og hafa verið að spila ágætan fótbolta. KA hafa hinsvegar ekki byrjað jafn vel og eru í
áttunda sæti deildarinnar en þó hafa þeir verið að spila ágætan fótbolta, til dæmis á móti HK í bikarnum
þar sem oft vantaði aðeins lokasendingu eða að klára færi.
Túfa verður að öllum líkindum ekki með KA á laugardaginn. Hann er enn að jafna sig eftir meiðsli en vonast til að geta byrjað af krafti á
næstu dögum. Að hans sögn byrjaði hann of snemma að hreyfa sig á fullu eftir meiðslin að þau komu aftur og hann varð lengur
frá.
KA spiluðu vel í síðasta leik og vonandi að þeir nái að halda sínu striki. Orri Gústafsson og Hallgrímur komu sterkir inn, Orri sem
varamaður en Hallgrímur spilaði allan leikinn. Það var sífelld ógn af þeim og vonandi að þeir fái enn fleiri tækifæri
í næstu leikjum til að setja mark sitt á leikinn.
HK-ingar eru með fínt lið og eru til alls líklegir í þessum leik. Þeir vilja augljóslega hefna tapsins í bikarnum og mæta vafalaust
dýrvitlausir til leiks. Pirringur var kominn í þá í síðasta leik og við skulum vona að sá pirringur verði farinn úr mönnum
svo að við séum ekki að fara að missa jafnvel menn í meiðsli.
KA – HK í fimmtu umferð fyrstu deildar. Leikurinn hefst klukkan 14:00 á Þórsvelli þar sem Akureyrarvöllur er
ekki klár og ekki er leyfi fyrir aðalvellinum á KA-svæðinu. Allir sem geta séð sér fært að koma, mæta og styðja sitt lið, ekki
væri slæmt ef fólk mætti í gulu og sameinaðist Vinum Sagga. Þar eru allir velkomnir, ungir sem aldnir, karlar og konur.
ÁFRAM KA!