Upphitun: KA - Njarðvík

Í kvöld mætast KA og Njarðvík á Akureyrarvellinum og leikurinn hefst kl. 19:15. Í síðasta leik liðanna hirtu Njarðvíkingar öll þrjú stigin af KA-mönnum og vonandi að strákarnir nái að taka þrjú stig í kvöld til að bæta upp fyrir það.

Njarðvík:
Njarðvík eru í næst neðsta sæti deildarinnar með 11 stig og í harðri botnbaráttu við Leikni um fallsæti. Njarðvík unnu þó góðan sigur í síðustu umferð
gegn Víking R 1-0 þar sem Marko Valdimar Stefánsson skoraði sitt fyrsta mark í fyrsta leik, en þeir fengu hann á láni frá Grindavík núna í félagsskiptaglugganum.
Ásamt Marko fengu þeir króatískan leikmann einnig að nafni Marko Moravic. Hann hefur einnig stimplað sig vel inn í liðið en hann hefur skorað eitt mark í tveimur leikjum. Þeir hafa þó aðeins skorað 16 mörk í 15 leikjum og fengið á sig 30 og eru með verstu markatöluna ásamt Leikni R.

Það þýðir þó ekki að vanmeta þá eins og sást í fyrri leik liðanna. Sá leikur endaði 1-0 fyrir Njarðvík þar sem KA-menn náðu sér aldrei á strik.


KA:
Loksins vannst útisigur í síðustu umferð gegn Haukum á Ásvöllum, 0-1. Með sigrinum eru KA menn komnir með 19 stig og lyftu sér upp í 5.sæti með jafn
mörg stig og Fjarðabyggð. Arnar Már skoraði sitt 4. mark í sumar og er orðinn markahæstur, Almarr og Guðmundur Óli höfðu báðir skorað 3 þegar þeir fóru
og þá hefur Dínó einnig skorað 3.

Andri Júlíusson kom sterkur inn í liðið í síðasta leik og spilaði mjög vel. Liðið í heild spilaði vel gegn Haukum og það er vonandi að liðið nái jafn
góðum leik gegn Njarðvík í kvöld.

- davíð rúnar bjarnason