Upphitun: KA - Stjarnan

Í dag mætast KA og Stjarnan á Akureyrarvellinum en leikurinn er geysilega mikilvægur fyrir KA-menn sem gætu náð að blanda sér í toppbaráttuna með sigri en leikurinn hefst kl. 16:00 í dag.

Stjarnan:
Stjarnan: Garðbæingum hefur gengið vel í sumar og eru sem stendur í þriðja sæti deildarinnar. Þeir hafa unnið fimm leiki tapað tveim og gert jafntefli í tveim. Liðið datt út úr 32-liða úrslitum VISA-bikarsins þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Keflavík 2 - 1. Fyrir þetta tímabil missti liðið Guðjón Baldvinsson til KR, en hann hafði reynst þeim drjúgur síðastliðin sumur og var mikil blóðtaka fyrir Stjörnumenn. Stjarnan fékk þó til sín þá Bjarna Þórð Halldórsson, Tryggva Svein Bjarnason og Ellert Hreinsson ásamt fleirum.

Vörn Stjörnunnar er gríðar sterk og fyrir aftan hana er einn af betri markvörðum deildarinnar Bjarni Þórður Halldórsson en Stjarnan er búinn að fá á sig næst fæst mörk í deildinni. Fyrir tímabilið var óttast að sóknin yrði þeirra veikleiki vegna brotthverfs Guðjóns en Zoran Stojanovic og Þorvaldur Árnason hafa haldið uppi markaskorun liðsins en þeir hafa skorað níu af 14 mörkum liðsins í deildinni það sem af er. Þjálfari þeirra þarf vart að kynna en það er Bjarni Jóhannsson. Hann hefur stýrt ÍBV, Fylki, Grindavík og Breiðablik. Ásamt því að hafa verið aðstoðarmaður Eyjólfs Sverrissonar þegar hann stýrði landsliðinu. Þetta er hans fyrsta tímabil með Stjörnuna og er stefnan sett beinustu leið upp og koma Stjörnunni í efstu deild á ný. En þeir hafa ekki verið í úrvalsdeild síðan árið 2000.

KA:
Liðið náði að fylgja eftir góðum sigri á Leikni R. með því að leggja nágranna okkar í Þór í 1 - 0 síðasta leik. Liðið hefur verið að klára leikina mun betur upp á síðkastið heldur en í byrjun móts. En deildin er gífurlega jöfn og er pakkinn ansi þéttur. Því er mjög mikilvægt að halda áfram á þeirri siglingu sem liðið er komið á og bæta en meira í. Ef að sigur næst í dag getur liðið komið sér í 4. sæti í deildinni og myndum við þá ná að slíta okkur aðeins frá liðunum sem eru um miðja deild og neðar.

KA - Stjarnan, Akureyrarvöllur - 16:00, Sunnudaginn 6. júlí

Dómari: Marinó Steinn Þorsteinsson
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnarsson og Kristján Tryggvi Sigurðsson
Eftirlitsmaður:
Björn Friðþjófsson

Aðrir leikir í tíundu umferð:
Föstudagurinn 4. júlí
Njarðvík 0 - 2 Leiknir R.

Laugardagurinn 5. júlí
Víkingur R. 3 - 2 Víkingur Ó.
Haukar 1 - 0 Þór
ÍBV 2 - 1 KS/Leiftur
Selfoss 4 - 1 Fjarðabyggð

- Aðalsteinn Halldórsson