Upphitun: Stjarnan - KA

Á morgun fara KA-menn suður og mæta Stjörnunni á Stjörnuvelli í Garðabænum. Þetta er síðasti útileikur KA í sumar og jafnframt næstsíðasti leikur sumarsins. Leikurinn hefst klukkan 18:00. Við hvetjum alla KA-menn fyrir sunnan til að skella sér á leikinn.

Fyrri leikur þessara liða í sumar verður KA-mönnum ekki minnisstæður. ÞegarKA-menn virtust vera búnir að skora sigurmarkið var það dæmt af og Stjörnumenn brunuðu í sókn og tryggðu sér sigurinn á síðustu andartökum leiksins.

Stjarnan:
Stjarnan er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 41 stig, í harðri baráttu við Selfoss um sæti í efstu deild. Selfyssingar eru með 43 stig í 2. sæti og því mikið í húfi fyrir Stjörnumenn á morgun. Þeir hafa ekki verið í úrvalsdeildinni síðan árið 2000 og vilja ólmir komast aftur þangað svo það er erfitt verkefni sem KA-menn fá á morgun.

Markahæstur í liði þeirra er Þorvaldur Árnason með 11 mörk og þar á eftir kemur Ellert Hreinsson með 10 mörk.
Vörn jafnt sem sókn Stjörnunnar hafa verið geysisterk í sumar og eru þeir búnir að fá á sig næst fæst mörk og skora næst flest mörk í deildinni.

Þjálfari Stjörnunnar er Bjarni Jóhannsson, en hann hefur stýrt til að mynda ÍBV, Fylki, Grindavík og Breiðablik og var einnig aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins þegar Eyjólfur Sverrisson var við stjórnvölinn þar.

KA:
KA menn eru í 4.sæti deildarinnar með 29 stig, sæti fyrir ofan Hauka sem eru með 27 stig. KA eru búnir að fá ellefu stig á útivelli af þessum 29.

Markaskorun KA hefur dreifst á milli manna en Arnar Már Guðjónsson er markahæstur með fimm mörk. Síðan koma fimm menn með þrjú mörk, þeir
Dean Martin, Steinn Gunnarsson, Andri Júlíusson, Guðmundur Óli Steingrímsson og Almarr Ormarsson. Tveir síðastnefndu eru farnir eins og kunnugt er KA-mönnum.

Andri Júlíusson og Elmar Dan Sigþórsson verða í banni en þeir fengu báðir rautt gegn Þór. Andri fékk tveggja leikja bann sem þýðir að hann spilar
ekki meira með KA á þessari leiktíð en Elmar fékk eins leiks bann.

Stjarnan - KA, Stjörnuvöllur - 18:00, föstudaginn 12.september.

Dómari: Magnús Þórisson
Aðstoðardómari 1: Jóhann Gunnarsson
Aðstoðardómari 2: Guðmundur Ársæll Guðmundsson
Eftirlitsmaður: Guðmundur Sigurðsson

Aðrir leikir í 21. umferð:
Víkingur Ó. - Víkingur R.     
Þór - Haukar  
Leiknir R. - Njarðvík    
KS/Leiftur - ÍBV      
Fjarðabyggð - Selfoss     

-Aksentije Milisic