Upphitun: KA - KS/Leiftur

Á morgun, sunnudag, taka KA-menn á móti KS/Leiftri í síðasta leik beggja liða í Lengjubikarnum en leikurinn hefst kl. 15:00.

KS/Leiftur:

Liðið komst upp úr annari deildinni í fyrra eftir góða frammistöðu þar en liðið þeirra nú hefur tekið örlitlum breytingum. Þeir misstu Dusan Ivkovic, einn sterkasta varnarmanninn í annari deildinni í fyrra og þá er Guðjón Þór Ólafsson farinn í Ými. 

Aftur á móti hafa þeir fengið Þorvald Svein frá okkur, William Geir Þorsteinsson frá Fjarðabyggð, Kristófer Beck frá Dalvík og Grétar Örn Sveinsson hafa tekið fram skóna að nýju eftir bakmeiðsli. Að auki hafa þeir fengið tvo unga stráka frá Breiðablik, Hrafn Ingason og Guðjón Gunnarsson. Á vefsíðu þeirra segjast þeir einnig ætla að styrkja liðið meira og það sé ekki enn orðið fullmannað.

Þeir sitja á botni riðilsins með núll stig í fjórum leikjum og markatöluna tvö mörk skoruð gegn níu fengin á sig.

Mynd: Strákarnir í KS/Leiftri fagna marki í fyrrasumar.

KA:
Liðið kom heim fyrir viku úr geysilega vel heppnaðri æfingaferð til Portúgal þar sem þeir dvöldu íviku við bestu aðstæður og æfðu vel en gaman verður að sjá hvernig liðið kemur undan henni eftir að hafa leikið tvo hörkuleiki þar og gegn ÍA deginum áður en farið var út. (ferðasaga ættti að koma fljótlega)

Umfjöllunin um ÍA leikinn var á gömlu síðunni og á enn eftir að færa gamalt efni á milli en það þarf fáum orðum að fara um þann leik. 2-1 sigur Skagans í flottum leik hjá KA.

Á mánudeginum í Portúgal var svo leikið gegn úrvalsdeildarliði Fjölnis á grasi en þeir eru með fyrnasterkt lið og skemmst er að minnast bikarúrslitaleiksins í haust gegn FH og leikjanna þeirra gegn KA í sumar sem enduðu samanlagt 10-0. Fjölnir komst í 2-0 eftir frekar mikinn klaufaskap í vörninni hjá KA en í síðari hálfleik voru KA-menn mun sterkari og áttu þeir fjöldann allan af færum sem því miður tókst ekki að nýta. Leiknum lauk 2-0 en síðari hálfleikur virkilega góður hjá KA.

Á fimmtudeginum var svo leikið gegn portúgölsku liði í flóðljósum og "alvöru velli". Strákarnir áttu þar mjög góðan leik og fóru með 3-1 sigur af hólmi en til gamans má geta að Portúgalirnir skiptu nýju liði inn í hálfleik.

Ungverski varnarmaðurinn Norbert Farkas er kominn með leikheimild en hann hefur enn ekki getað spilað í Lengjubikarnum, hann lék einungis í æfingaleikjunum úti. Aftur á móti er Janez Vrenko tæpur á meiðslum og svo meiddist Dínó á æfingu í Portúgal á kálfa og er ekki enn farinn að æfa. Magnús Blöndal er einnig meiddur og svo eru einhverjir með einhver eimsl en það kemur bara maður í manns stað svo það þýðir ekkert að velta sér upp úr því.

Gaman verður að sjá hvort KA-menn haldi áfram að bæta sig í þessum leik og sýni að þeir eru að verða klárir í baráttuna í sumar - sem nú styttist óðfluga í!

Mynd: Arnar Már í báráttunni við Ólaf Pál Snorrason og Andra Val Ívarsson í leik KA gegn Fjölni í síðustu viku. Strákarnir gera sig klára í leikinn gegn Fjölni.

KA - KS/Leiftur, Boginn - sunnudagurinn 13. apríl 15:00