Valdimar Logi framlengir út sumarið 2028

Valdimar Logi Sævarsson skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2028. Eru þetta afar jákvæðar fréttir en Valdi er gríðarlega efnilegur og spennandi leikmaður sem á sannarlega framtíðina fyrir sér.

Valdi sem er 19 ára gamall er afar teknískur og spennandi miðjumaður sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á vellinu. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar leikið 31 leik fyrir meistaraflokkslið KA í deild, bikar og evrópu. Hann lék sinn fyrsta leik sumarið 2022 þá 16 ára gamall er KA sló út Reyni Sandgerði í Mjólkurbikarnum og hefur í kjölfarið nýtt tækifæri sín með liðinu vel. Valdi hefur einnig verið fastamaður í yngrilandsliðshópum Íslands og hefur leikið fjóra leiki fyrir Íslands hönd.

Þá hefur Valdi verið lykilmaður í sterku 2. flokksliði KA en strákarnir urðu Íslandsmeistarar sumarið 2024 sem tryggði liðinu sæti í UEFA Youth League þar sem strákarnir slógu út FS Jelgava frá Lettlandi. Valdi átti virkilega góða leiki í einvíginu og var valinn maður leiksins í báðum leikjum liðanna en KA vann samanlagðan 3-2 sigur í einvíginu og gerði Valdi eitt mark auk þess að leggja upp sigurmark liðsins á Greifavellinum.

Það er afar jákvætt að Valdi sé búinn að skrifa undir nýjan samning og ekki spurning að það verður spennandi að fylgjast áfram með framgöngu hans í gula og bláa búningnum og sjá hans hlutverk í liðinu stækka enn frekar.