Valla veitingastjóri: Kaffihlaðborðinu líst sem háklassa veislu

Valla veitingastjóri
Valla veitingastjóri
Valgerður Davíðsdóttir sér um kaffihlaðborð á leikdögum hjá KA-liðinu. Í hálfleik er kaffi fyrir ársmiðahafa og svo eftir leik fá leikmenn og dómarar hressingu en um allt þetta sér ,,Valla veitingastjóri," og segir hún að það sé alltaf gaman að hitta KA fólkið í kaffinu á leikjum.

,,Leikdagur byrjar kl 0900 að morgni með því að ég panta brauð með kaffinu.  Síðan svona 3 tímum fyrir leik fer veitingastjóri í Nettó til að ná sér í mjólk með kaffinu og einnig að ná í önnur aðföng. Þá er farið í stóreldhúsið  á nýum leikvangi okkar KA manna  ca 2 tímum fyrir leik með matarbirgðir og byrjað að hella á könnuna og smyrja brauð. Þá fara að týnast inn hinir ýmsustu menn bæði heimamenn og gestir að fá sér kaffisopa. Ekki má gleyma dómurum leiksins það er að sjálfsögðu hugsað sérstaklega vel um þá. Einnig legg ég allan minn metnað í að vera mjög góð við mína KA stráka. Heim til mín er ég svo kominn 1 til 1.5 klst eftir leik, þannig að hver leikur er svona 5 til 6 tíma vinna fyrir mig en afar skemmtileg og gefandi," sagði Valla um venjulegan leikdag á Akureyrarvelli.

Valla segir menn taka gríðarlega vel í þessar veitingar enda er hlaðborðið afar vel útilatið. ,,Menn taka mjög vel í þetta, svo vel að kaffihlaðborðinu er líst sem háklassa veislu. Þökk sé þeim aðilum sem styrkja okkur."

,,Nei ekki finnst mér það," sagði Valla aðspurð að því hvort einhver lið væru gráðugri en önnur. Lykillinn að góðu hlaðborði er á hreinu hjá henni. ,,Að leggja allan sinn metnað í að hafa kaffihlaðborðið sem snyrtilegast og fjölbreyttast."

Valla sagðist alltaf sjá brot úr leikjum liðsins á heimavelli. ,,Já ég sé alltaf brot úr leikjunum á heimavelli," en að lokum hvatti hún fólk til að mæta á völlinn. ,,Ég hvet alla KA-menn til að kaupa sér ársmiða með veitingum og koma inn í kaffi til mín, það er alltaf gaman að sjá sem flesta."