Viðtal: Petar er einn mikilvægasti hlekkur í liði okkar

Gunnlaugur ásamt Ingvari Gísla
Gunnlaugur ásamt Ingvari Gísla
Síðan hafði samband við Gunnlaug Jónsson Þjálfara KA og spurði hann útí uppafið og hvernig honum líst á framhaldið.


Hvernig fannst þér framistaða liðsins í heild gegn Þór í gær(sunnudag)?

Leikurinn var kaflaskiptur. Við byrjuðum algjörlega frábærlega, vorum mjög grimmir og áttum góðar sóknir.  Þeir komast inní leikinn þegar þeir skora og það tók okkur smá tíma í jafna okkur eftir það.  Í seinni hálfleik voru Þórsarar mun sterkari og komast verðskuldað í 0-2.  Sandor hélt lífinu í okkur en við gáfumst ekki upp og eigum magnaðan endasprett.  Við sýndum alvöru karakter gegn mjög sterku liði og klárum þennan leik.  Við þurfum að vinna betur í varnarleiknum því þeir fengu of mörg góð færi. Ég held að þessi sigur eigi eftir að gefa okkur mikið. Ég vil biðja KA fólk að spenna væntingabogann ekki of hátt eftir þennan leik, það er langt í mót, tæpir þrír mánuðir og margt eftir að gerast.

Hvernig leist þér almennt á spilamennsku liðsins á Soccerademótinu?

Hún hefur verið nokkuð góð, við höfum spilað á tveimur liðum og held ég á stærri hóp en áður. Það hefur verið gott að hafa KA2, þeir hafa fengið góða leiki og unnið meðal annars KF og Dalvík.  Við fengum svo skell gegn Þór en við lentum í áföllum i þeim leik en allt þetta styrkir okkur.  Við höfum róteirað talsvert í þessu móti og eftir mótið erum búnir að fá góða mynd á liðið okkar.  Við höfum einnig gefið strákum í þriðja flokk tækifæri og það hefur verið gott þó ég hefði viljað sleppa við að spila ungunum inná gegn Þór þegar þeir tóku okkur í kennslustund.

Nú ert þú ný fluttur til Akureyrar, Hvernig lýst þér á Akureyri?

Mér líst bara mjög vel á mig fyrir norðan. Það hefur verið tekið vel á móti mér og þetta er bara allt saman í topplagi. Ég vissi nú fyrir að hér væri gott að vera enda býður bærinn uppá allt, ég bíð svo spenntur eftir að eyða sumrinu norðan heiða

Hvernig finnst þér fólkið og umgjörðin í kringum félagið vera?

"Umgjörðin er mjög fín hjá KA og eins og ég segi þá hef fengið mjög flottar móttökur. Það er staðið vel að yngri flokkunum hjá KA, margir hæfir þjálfarar og mér sýnist framtíðin vera björt. Það eru mjög efnilegir strákar á leiðinni. Ég er einnig ánægður með þá menn sem koma að meistarflokknum, Ingvar aðstoðarþjálfari smellpassar með mér, Rúnar styrktarþjálfari veit hvað hann syngur, Petar er svo maðurinn sem bindur þetta saman. Óskar framkvæmdastjóri kemur sterkur inn og svo hef átt mjög gott samstarf við Milo 2.flokks þjálfara og Pétur sem stýrir yngri flokka starfinu.  Samstarfið við stjórnina hefur gengið vel og við erum samstíga í þessu."

Fólk hefur talað um að andinn í liðinu sé allt annar á þessari stundu en undanfarin ár, ertu sammála því að andinn í liðinu sé góður?

Ég er ánægður með að heyra það, það er alveg ljóst að ef að fótboltalið á að virka verður að vera góður andi í hópnum og menn tilbúnir að vinna að þessu saman sem lið. Við höfum lagt áherslu á þessa þætti síðan ég byrjaði og ég held að það sé mjög góð stemmning í liðinu og menn eru að koma með góðu hugarfari á æfingar. Allt skilar sér þetta inní leikina, við verðum að átta okkur á því að margir leikmenn  munu  stíga sín fyrstu alvöru skref í 1.deildinni í sumar, því er mikilvægt að ná upp  góðri stemmningu og alvöru liðsheild.

Margir vilja meina að doktorinn sé mikilvægur hlekkur í “liðinu” geturu tekið undir þau orð?

Engin spurning! Petar er einn mikilvægasti hlekkur í liði okkar, ég hef áður sagt á þessari síðu að hann vinnur starf sem er vandfundið í liði hér á landi.

Hvað finnst þér um leikmanna hópinn eins og hann er í dag og býstu við því að styrkja liðið eitthvað frekar fyrir tímabil?

Ég er ánægður með hópinn, það er komin ágætist holning á liðið. Ég býst við að við munum styrkja hann, við höfum verið að skoða stráka sem hafa verið viðloðandi KA sem hafa verið að koma inní hópinn að nýju. Liðið hefur misst alla fjóra í framlínunni úr byrjunarliði síðasta árs þannig að það er stefnan að styrkja sóknarþáttinn.

Nú eru margir ungir strákar að fá tækifæri, og sá yngsti fæddur 1996. Finnst þér mikilvægt að gefa svona strákum sénsinn á undirbúningstímabilinu?

Að sjálfsögðu er það mjög mikilvægt. KA ætlar að byggja sitt lið á uppöldum leikmönnum og framtíðin er björt.  Það er líka mikilvægt að strákarnir í 2. og 3.flokk fái nasaþefinn af meistaraflokk. Ef leikmaður er klár í meistaraflokk þá skiptir mig engu máli þó hann sé fæddur 1995 eða 6.

Hvernig lýst þér á framhaldið, lengjubikarinn að byrja og svona?

Mér líst vel á framhaldið, við eigum fyrsta leik um helgina á Akranesi gegn Gróttu. Andstæðingar okkar í þessu móti eru lið í okkar deild og úr Pepsi deildinni sem er mjög jákvætt.  Við fáum heimaleik aðra helgi (26.feb) gegn mjög sterku liði ÍA og ég vonast til að sjá fleiri aðdáendur KA á þeim leik. Það er mjög mikilvægt fyrir strákanna finna meiri áhuga frá ykkur aðdáendum og að þið mæti á leiki.