Alex á HM í kraftlyftingum - í beinni á Eurosport

Alex Cambray Orrason, lyftingamaður úr KA, stendur í ströngu þessi dægrin en hann er staddur í Rúmeníu að etja kappi við þá stærstu og sterkustu í heimi. Í Cluj-Napoca í Rúmeníu, eru komnir saman sterkustu kraftlyftingamenn heims til að keppa á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði - IPF World Open Equipped Powerlifting Championships 2025.

Mótið er haldið af Alþjóða kraftlyftingasambandinu (IPF) og er hápunktur keppnistímabilsins fyrir lyftingamenn sem keppa með búnaði.

Keppt er í þremur hefðbundnum greinum; hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Aðalmunurinn á þessu móti og klassískum kraftlyftingum er notkun á sérhæfðum lyftingabúnaði. Keppendur klæðast sterkum búningum og mega nota hjálparbúnað til að ná fram sínu besta.

Alex okkar keppir á fimmtudag og er sýnt beint frá keppni hans á Eurosport. Hægt er að horfa á Eurosport hjá bæði Símanum og Sýn en bein slóð á keppnina hans Alex er hér. Keppni hans hefst klukkan 17.00. Alex keppir í A-hópi í -93kg flokki.

Einnig er sýnt frá mótinu á YouTube hér, á rásinni Olympics.

Alex hefur æft vel fyrir mótið og sendum við honum okkar allra bestu strauma fyrir keppnina hans á fimmtudag.

Mótið verður gert upp á miðlum KA í kjölfarið en ásamt Alex eru þau Agnes Ýr Rósmundsdóttir (-84kg)og Guðfinnur Snær Magnússon(+120kg) einnig að keppa á mótinu en þau keppa bæði á sunnudagsmorgun. Þjálfarar og aðstoðarmenn eru Hjálmar Andrésson, Júlían Jóhannsson og Lára Bogey Finnbogadóttir.