3. flokkur KA/Þórs í undanúrslit bikarsins

Handbolti
3. flokkur KA/Þórs í undanúrslit bikarsins
Stelpurnar voru eðlilega ansi sáttar í leikslok

Það fór fram hörkuleikur í KA-Heimilinu í kvöld þegar KA/Þór tók á móti sterku liði Fram í 8-liða úrslitum bikarkeppni HSÍ í 3. flokki kvenna. Þrátt fyrir ansi krefjandi verkefni mættu stelpurnar svo sannarlega með trú á verkefnið og hófu leikinn af miklum krafti.

Eftir að okkar lið hafði leitt að mestu í fyrri hálfleiknum fóru þær með 14-13 forskot inn í hálfleikinn. Sama spenna einkenndi fyrri hluta síðari hálfleiks en þegar mest á reyndi tókst stelpunum að slíta sig frá gestunum og unnu á endanum afar sanngjarnan 30-25 sigur.

Fögnuðurinn var mikill í leikslok og það eðlilega enda sæti í undanúrslitum bikarsins tryggt og það gegn einu af bestu liðum landsins. Það er ekki nokkur spurning að með spilamennsku eins og stelpurnar sýndu í kvöld getur liðið farið alla leið og verður spennandi að sjá hver mótherji þeirra verður í undanúrslitunum.

Telma Lísa Elmarsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir voru markahæstar í liði KA/Þórs með 7 mörk hvor, Anna Marý Jónsdóttir gerði 5, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Sunna Hreinsdóttir 2 og Júlía Björnsdóttir 2 mörk. Ólöf Maren Bjarnadóttir stóð vaktina í markinu og gerði það afar vel.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is