Stelpurnar í 3. flokki kvenna hjá KA/Þór héldu suður til Reykjavíkur á laugardaginn 22. mars. Þær lögðu þó tvisvar af stað en þurftu að snúa við í Öxnadalnum sökum ófærðar en komust þó á leiðarenda fyrir rest. Verkefni helgarinnar var leikur við Hauka en leikið var kl. 09:50 sunnudaginn 23. mars að Ásvöllum í Hafnarfirði. Fyrir leikinn sátu Haukar í 5. sæti deildarinnar en KA/Þór í því 7. Fyrri leikur liðanna endaði með 8 marka sigri Hauka í KA-heimilinu 17-25 og því bjuggust stelpurnar við erfiðum leik að þessu sinni en voru staðráðnar í að selja sig dýrt og hirða stigin tvö sem í boði voru.
Fyrri hálfleikur byrjaði rólega og var KA/Þór ávallt með frumkvæðið í leiknum og leiddi með 1-3 mörkum fyrstu 15-20 mínúturnar. Stelpurnar spiluðu gríðarlega góða vörn og áttu Haukarnir í stökustu vandræðum með að finna glufur sem sýndi sig í að dómarar leiksins gáfu merki um leiktöf trekk í trekk sem leiddi til þess að Haukastúlkur þurftu að taka örvæntingarfull skot. Þjálfari Hauka brá svo á það ráð að taka Laufeyju Láru úr umferð en hann áttaði sig ekki á að þá opnaði hann fyrir stærra svæði fyrir Birtu, Berghildi og Örnu sem léku á alls oddi á þessum kafla og juku muninn upp í 5 mörk sem norðanstúlkur héldu þar til hálfleiksflautan gall og staða 8-13 KA/Þór í vil.
Síðari hálfleikur var svo hreinlega eign KA/Þórs. Birta Fönn lék á alls oddi varnarlega og komst inní sendingar Hauka ítrekað sem leiddi til þess að áður en langt um leið var KA/Þór komið með 10 marka forskot 12-22. Þá fóru Haukar að taka bæði Laufeyju og Birtu úr umferð og við það kom hik í nokkrum sóknum KA/Þórs og Haukar skoruðu 4 mörk í röð og minnkuðu muninn í 16-22. Þá rifu stelpurnar sig aftur upp og náðu að stilla sóknarleikinn almennilega og juku forskotið jafnt og þétt það sem eftir lifði leiks og endaði leikurinn með 11 marka stórsigri KA/Þórs á Haukum, 18-29.
Gríðarlega sterkur sigur hjá stelpunum og hafa þær sýnt það með spilamennsku undanfarinna leikja að þær eiga klárlega heima í efrihluta deildarinnar. Stelpurnar hafa nú sigrað 6 leiki af þeim 9 leikjum sem þær hafa leikið á árinu 2014. Einungis einn leikur er eftir í deildinni hjá stelpunum en hann er í KA-heimilinu þann 2. apríl kl. 17:15 en þá kemur lið Selfoss í heimsókn.
Markaskor KA/Þór í leiknum:
Birta Fönn Sveinsdóttir 10, Berghildur Þóra Hermannsdóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Harpa Rut Jónsdóttir 3, Laufey Lára Höskuldsdóttir 2, Aldís Anna Höskuldsdóttir 2 og Helena Halldórsdóttir 1
Í markinu varði Lína Aðalbjargardóttir um 13 skot.